22.10.2007 | 17:59
Stóri vatnsslagurinn
Það var stríð. Við skyldum sko sýna þessu montnu drengjum hvar Davíð keypti ölið.
Þetta byrjaði með einhverjum meinlausum skvettum. Ég held í sófunum sem voru fyrir framan strákavistina. Vatnsglas var tæmt yfir einhvern villinginn. Sá ætlaði ekki að láta neinn komast upp með yfirgang og svaraði í sömu mynt. Svo vatt þetta upp á sig. Fleiri vatnsglös voru tæmd. Stelpurnar voru komnar upp í stigann það veitti ákveðið forskot að vera á efri hæðinni. Þyngdarlögmálið getur unnið með manni í styrjöldum sem þessari.
Vatnsglösin stækkuðu, urðu að lokum að ruslafötum, við komum okkur upp keðju, svona eins og þegar barist er við eldsvoða í gömlum bíómyndum, fatan látin ganga, mestu skörungarnir voru í fremstu víglínu. Allir kranar á fullu inni á herbergjum til að fylla á skotfærin. Drengirnir skyldu nú aldeilis fá að blotna.
Þetta stríð fór ekki hljóðlega, kennarinn á vakt var fljótur að renna á hljóðið. Ég man enn hvað hvein í honum. Það er hægt að tala um kast. Skríllinn tók á rás. Við hlupum niður í kjallara, og kallinn á eftir. Rausandi, einn uppáhaldsnemandinn hans var gómaður í þessum slag, "................og þú líka, Erna mín". Þetta voru honum greinilega vonbrigði. Við hlupum í gegnum útifataklefann, hann á eftir. Við fórum hringinn, gegnum strákaklefann og til baka gegnum stelpuklefann. Kallinn alltaf á eftir, tuðandi og hvínandi með hnefann á lofti. Svo gafst hann upp á þessum hlaupum. Hringdi í skólastjórann.
Skólastjórinn kom. Þá vorum við búin að þurrka allt upp og komin í þurr föt. Tekkstigahandriðið var að vísu vatnsbólgið og lyktaði en að öðru leyti var ekki margt sem minnti á hvað hafði gengið á. Skólastjórinn horfði á okkur, hristi höfuðið, mér fannst hann glotta. Hann sagði lítið, okkur fannst eitt augnablik sem honum fyndist þetta pínu fyndið. Það urðu engin eftirmál. Það stendur a.m.k. ekkert í samstarfsbókinni minni um þetta.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Gamlar sögur | Facebook
Athugasemdir
Hvaða kennari var þetta ?
Anna Einarsdóttir, 22.10.2007 kl. 18:52
Jahá, einn eftirminnilegasti atburður í sögu skólans. Blessaður kallinn, held hann hafi aldrei fyrirgefið okkur að spilla svona illilega eftirlætisnemendum sínum. Allavega fannst mér andrúmsloft tortryggni fylgja okkar samskiptum uppúr þessu.
Ásdís (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 19:21
Anna mín, notaðu hugmyndaflugið og lýsingarnar, þá nærðu þessu. Mig minnir reyndar að þú hafir verið seinust á hlaupunum og fengið pikk í bakið, kannski misminnir mig.
Kristjana Bjarnadóttir, 22.10.2007 kl. 19:52
Alltaf gaman af svona glenns.....ég er sammt hrædd um að svona liðist ekki í dag án eftirmála.
Solla Guðjóns, 22.10.2007 kl. 22:34
Þetta man ég vel þótt ég væri búin að gleyma afmælisveislunni okkar. Man líka hvaða kennari var á vakt og man að við vorum í vandræðum með að finna kvöld fyrir óknytti því okkur líkaði svo vel við flesta kennarana og gátum ekki gert neitt misjafnt á þeirra vakt. Þarna framkvæmdum við semsagt stórkostlega hreingerningu. Ekki hægt að kvarta yfir því.
Hver er annars summan af sex (dónalegu tölunni sem ekki er hægt að segja upphátt í útlöndum) og þrettán (sem hefur misjafnt orðspor)?
Rósa (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 22:43
Ég man eftir vatnsslagnum og hlaupunum... með tilheyrandi hræðslu.... en man ekki meira. Er fyrsti stafurinn E ?
Anna Einarsdóttir, 22.10.2007 kl. 23:15
Aaaaa....... nú held ég að ég muni.
Anna Einarsdóttir, 22.10.2007 kl. 23:16
Anna, ég vona að þú sért búin að ná þessu, snúðu E 90°.
Rósa, þú yrðir nú glöð yfir svona hreingerningu hjá þér . Eru þetta galdratölurnar sem gleypa kommentin þín? Prófaðu næst að segja að summan sé 11 því það tók ca 11 klst fyrir athugasemdina að komast í gegn.
Kristjana Bjarnadóttir, 23.10.2007 kl. 09:51
Ef þetta er sami vatnsslagur og ég man eftir. (Við Erna í 9. bekk þ.e. sama og 10)
þá er þetta mér í fersku minni og fyrsti stafurinn hjá kennaranum er M. Þetta var ofsalega gaman.
Bryndís (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 16:12
Ég var búin að ná þessu...... datt inn um leið og ég sendi fyrri athugasemdina.... Það er svo langt síðan þetta gerðist og því var kennarinn í innra minninu.
Anna Einarsdóttir, 23.10.2007 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.