4.10.2007 | 21:35
Það sem ekki mátti
Við erum í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Þetta er heimavistarskóli fyrir þau börn sem búa lengra frá en börnin sem búa nær skólanum eru keyrð heim daglega. Í samfélagi barna og unglinga á grunnskólaaldri, samfélagi sem er þeirra heimili 5 daga vikunnar verður að halda uppi aga. Það þarf að passa upp á að gríslingarnir hagi sér almennilega. Kennararnir hafa vökul augu á skrílnum, nótera samviskusamlega niður ef einhverjum verður fótaskortur á svellinu, það heitir að fá "mínus". Mínus þýðir agabrot. Það telst agabrot að vera með sælgæti í skólanum, heimavist meðtalin. Tyggjó er glæpur.
Eitt alvarlegasta agabrotið er náttúrulega að fara á inn á vistina þar sem hitt kynið býr. Það er mjög alvarlegt. Hugsa sér, stelpa að laumast inn á strákaherbergi! Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þessir drengir eru nefnilega komnir með hvolpavitið og ekki treystandi um þvert hús. Nei, ef stúlka er gómuð á ferð þar inni, þá þarf umsvifalaust að skrá það niður, setja á agavandamálaskrána.
Svona hegningarkerfi hefur þá náttúru að verða spennandi, það er spennandi að vita hvað maður kemst langt án þess að vera nappaður. Hver er kaldastur, þorir að fara inn á forboðna svæðið. Það er ótrúlega smart að sýna kjarkinn og heimsækja strákana. Spennan sem verður til þegar heyrist í kennaranum á vappi verður eftirsóknarverð, það þarf í skyndi að finna felustað. Fataskáparnir eru sívinsælir, en frekar fyrirsjáanlegir. Undir sæng er möguleiki, þá er maður raunverulega kúl, sérstaklega ef einhver herramaðurinn heldur manni selskap.
Mest er nú fjörið ef allur stelpnaflokkurinn sest að á einu strákaherberginu, þá er nú kennarinn í raunverulegum vanda að skrá allan bófaflokkinn niður. Þær sem ekki eru nógu fljótar að fela sig, taka á rás, hlaupa eftir ganginum, allar vonast eftir að vera í hvarfi við hinar, hverfa í fjöldann.
Eða var markmiðinu kannski náð, vera nöppuð? Fá skjalfest að hafa verið kúl? Fá skrifað í samstarfsbókina: Sást á strákagangi!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Gamlar sögur, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:37 | Facebook
Athugasemdir
Ég held svei mér þá að við höfum farið oftar á strákaganginn af því að það var bannað. Gleymi því ekki þegar ég kom heim með kladdann einn föstudaginn:
"Anna var tekin með tyggjó á strákaganginum".
Anna Einarsdóttir, 4.10.2007 kl. 22:57
Sæl Kristjana, var á vappinu og fann bloggið þitt. Flott hjá þér.
Varðandi bann við að fara á milli vista, þá kom ég ekki í skólann fyrr en 14 ára og fannst vistin "kúl". En, enn þann dag í dag skil ég ekki þetta bann, systkini máttu ekki hittast nema í sameiginlega rýminu. Dáldið skrýtið þegar kannski 15 ára stelpa fékk litla bróðir í fyrsta bekk og var meinað að fara inn á herbergið hans eða öfugt! Enda var búið að leggja þetta af í flestum öðrum heimavistarskólum löngu fyrr. Mamma þótti nú ekki fín hjá kennaraliðinu þegar henni var sagt að ég færi á milli ganga og henni þótti ekkert athugavert við það.
Bryndís (Ölkeldu) (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 09:53
Sæl Bryndís
Þakka þér fyrir athugasemdina. Ég finn að þær hvetja mig áfram, þá veit ég að það er einhver að lesa og fannst það einhvers virði, ég er því glöð með að vita af þér sem lesanda. Fjöldi heimsókna segir mér ekkert því þetta moggablogg er eins og járbrautarstöð, menn vafra mikið um en stoppa kannski lítið.
Foreldrar okkar voru oft á tíðum sammála okkur um gagnsleysi þessa agakerfis og gátu með engu móti skammað okkur fyrir margt sem við áttum að hafa brotið af okkur. Kannski af því að þau fengu oft bara okkar hlið sögunnar, en ég held ekki síður af því að þau gerðu sér grein fyrir að þetta kerfi virkaði ekki sem skyldi. Meir um það síðar.................
Kristjana Bjarnadóttir, 5.10.2007 kl. 15:30
Frábært, ég endurlifiði þessa tilfinningu að vera á heimavistinni. Svaka gaman, mikið gert af sér m.v. lög þess tíma. Þar sem ég er elst af ykkur stelpur sem hérna lesið og kommentið þá veit ég ýmislegt um ykkur sem gaman væri að skrifa um en er ekki viss um að þið væruð mér sammála. Ég var sko vistastjóri á stelpuvistinni í tvö ár minnir mig og þurfti að vakna á nóttunni til að hugga litlu krakkana sem voru með heimþrá enda ekki nema 7 ára og svo að hringja neyðarbjöllunni þegar sumar galvaskar urður veikar og ætluðu að detta í það með spritti eða öðrum óþverra, svo var stundum slegist og rifið í hár og klórað í andlit.......já það var oft stuð.....en samt skemmtilegast þegar strákarnir fengu afsteypu af lyklinum á stelpuvistinni og komu í heimsókn, þá var nú kúrað undir sæng.....þangað til kennarinn...sem virtist alltaf vera vakandi.
Gíslína Erlendsdóttir, 5.10.2007 kl. 18:45
Gillí, endilega deildu þessu með okkur, ég sé að ég hef verið alger engill því ég kannast ekki við allar þær sögur sem þú tæpir á. Ég er eitt risastórt ? Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sér hörundssár þó þú nanfgreinir einhverja glæpóna, brotin hljóta að vera fyrnd. Helst að fólk sé viðkvæmt fyrir því að börnin þeirra frétti að foreldrarnir hafi einhvern tíma verið unglingar .
Kristjana Bjarnadóttir, 5.10.2007 kl. 19:42
Já líklega er það rétt hjá þér Kristjana, sennilega er mesta hættan sú að börnin komist í leyndarmál foreldranna og líka rétt hjá þér að ég man ekki eftir neinum alvarlegum sögum af þér en systir mín t.d. er ekki svo heppin og ég sjálf auðvitað sem var nú ekki algjör engill þótt ég reyndi að standa undir væntingum mömmu og pabba um ábyrgð og skyldur. Ég skal reyna að rifja eitthvað upp við tækifæri og segja frá ......allt nafnlaust auðvitað.
Gíslína Erlendsdóttir, 5.10.2007 kl. 22:15
þetta er heimur sem ég þekki ekki en gaman að lesa um engu að síður. Vonandi bætast við fleiri sögur um barnabófana.
Fríða Eyland, 5.10.2007 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.