Það er von

Í Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld var umfjöllun um greiðslur til foreldra langveikra barna. Það sem við sem göngum heil til skógar gerum okkur ekki alltaf grein fyrir er hversu tilvera þessa fjölskyldna er erfið. Það er ekki nóg með að lítið barn í fjölskyldunni sé veikt, oft á spítala, framtíðin jafnvel óljós, heldur þarf þetta fólk jafnframt að berjast við fjárhagslegar áhyggjur. Við erum ekki að tala um að tekjur heimilisins fari úr "eðlilegum" launatekjum niður í örorkubætur eins og gerist þegar fullorðnir verða fyrir langvarandi veikindum. Við erum að tala um algeran tekjumissi. Núll krónur á mánuði.

Ég hef gengið í gegnum microútgáfu af þessu, átti barn sem var veikt í ca 4 mánuði og skiptumst við foreldrarnir á að taka launalaust leyfi. Það er gerlegt í ekki lengri tíma, veitir manni innsýn inn í þennan veruleika. Veruleika þar sem peningar hætta að skipta máli og það hvernig barninu líður er það eina sem hugsunin snýst um. Reikningar hafa enga merkingu, það eru mikilvægari hlutir sem hugurinn er bundinn við.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra var í viðtali. (Hvet ykkur til að skoða) Ég varð full hrifningar þar sem hún ræddi málið af algerum skilningi á aðstæðum þessa fólks og hét hún að gera það sem í hennar valdi stæði til að koma í gegn frumvarpi þar sem tekið yrði á tekjuskerðingu þessa fólks.

Það er von....................

Svo sannarlega vil ég að einhver hluti skattpeninga minna fari í að fólk sem á langveik börn fái einhverjar bætur. Það er svo mikið á þetta fólk lagt að fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað geta með auðveldum hætti leitt til langvarandi örorku þeirra sjálfra. Við erum engu bættari með slíku. Ég neita að leysa þetta gegnum tryggingafélög og við þurfum að kaupa okkur sjúkdómatryggingu fyrir börnin okkar. Bandaríska kerfið er ekki lausn, enn og aftur minni ég á "við" hugsunina sem ég tel farsælast að byggja samfélagsgerðina á.

Tökum sameiginlega ábyrgð á áföllum sem kunna að dynja yfir. Það veit enginn hver er næstur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Eins og oft áður er ég hjartanlega sammála þér Kristjana, ég á vinkonu sem bjó lengi í Þýskalandi og þar í landi er í gangi einhverskonar útgáfa af USA kerfinu.  Fyrirtækið sem hún vann hjá tryggði hana og það gerði henni kleyft þegar hún veiktist að komast fram fyrir röðina á spítalanum. Þetta fannst henni verulega hallærislegt og er alfarið á móti kerfi sem ræðst af ríkidæmi.  Ef hún hefði ekki haft þessa tryggingu hefði hún þurft að bíða í nokkra mánuði eftir aðgerð.  Við þurfum nauðsynlega að vekja fólk til umhugsunar um samfélagslega ábyrgð í velferðarkerfinu.

Gíslína Erlendsdóttir, 22.9.2007 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband