20.9.2007 | 18:28
Ég á forföður sem ég er ekki stolt af
Sá forfaðir minn sem ég er minnst stolt af hét Guðmundur. Hann bjó að Kjós í Árneshreppi á Ströndum. Hann var giftur konu sem hét Guðríður og átti vinnukonu sem hét Sigurós. Ein dóttir Rósu hét Guðrún og var langamma mín.
Guðmundur átti 14 börn með konu sinni.
Guðmundur átti 8 með Rósu, þar af komust 3 til fullorðinsára, Njáll, Júlíana og Guðrún.
Börnin sem Rósa og Guðríður eignuðust, fæddust sitt á hvað, oft voru aðeins örfáir mánuðir á milli barnsfæðinganna.
Rósa réri til sjós með Guðmundi rétt eins og karlmaður og pissaði í hrútshorn. Að róðrum loknum skreið Guðmundur í bælið og Rósa dró af honum blautu fötin og hjúkraði honum þreyttum. Trúlega hefur Guðmundur einnig viljað láta hlýja sér og var þá trúlega algert aukaatriði hver vilji Rósu var.
Ég velti því einu sinni fyrir mér afhverju Rósa og eiginkonan létu bjóða sér þetta. Svarið er einfalt, þær áttu ekki val. Þær gátu ekkert farið og voru háðar Guðmundi um allt og barnanna vegna urðu þær að láta bjóða sér þetta, annars hefðu þær farið á sveitina. Þær voru fangar á eigin heimili.
Guðríður dó á undan Rósu. Þá hefði maður búist við að Guðmundur hefði gifst Rósu en það gerði hann ekki heldur náði sér í aðra konu og átti með henni 2 börn, þá orðinn ca 70 ára gamall. Annað barnið hét Ragnar. Einhverju sinni týndist Ragnar. Móðirin og annað heimilsifólk óttaðist að eitthvað hefði komið fyrir hann. Þá sagði Guðmundur: "Það gerir ekkert til, við skjótum þá bara í annan Ragnar".
Eftir að fyrri eiginkonan dó versnaði hagur Rósu. Þá var sonur hennar Njáll orðinn fullorðinn og farinn að búa, ég held í Norðurfirði á Ströndum. Sagt er að Njáll hafi farið og bjargað Rósu frá Guðmundi og bjó hún eftir það hjá syni sínum.
Ein dóttir Rósu hét Guðrún. Hún var langamma mín. Guðrún var mjög fátæk sem ung kona eins og gefur að skilja. Hún var jú bara vinnukonudóttir, getin í lausaleik. Guðrún gerðist vinnukona að Krossnesi í Árneshreppi á Ströndum. Þangað kom einn daginn Jón, bóndi frá Svanshóli í Bjarnarfirði. Hann hafði misst konuna sína af barnsförum frá 2 börnum. Hann hafði held ég bara einu sinni séð Guðrúnu áður, þá var hún unglingur að taka upp mó í Kjós og honum blöskraði hvað hún var tötralega til fara. Líklega hefur hann vitað um hagi hennar. Jón hafði heyrt að Guðrún væri góð kona og kom að Krossnesi til að biðja hennar. Guðrún var raunsæ og vissi að betri tækifæri byðust henni ekki í lífinu og tók bónorðinu. Jón og Guðrún áttu saman 15 börn (skv Pálsætt á Ströndum) og urðu gömul saman á heimili afa og ömmu. Mér er sagt að þau hafi alltaf boðið hvort öðru góða nótt með kossi og þótt vænt hvoru um annað.
Mig hefur lengi langað til að taka saman það sem ég veit um Rósu og Guðmund en ekki látið verða af. Einnig hefur mig langað til að safna saman fleiri sögum um þau. Ég óska eftir leiðréttingum á þessum sögum ef ég hef misfarið með eitthvað, einnig óska ég eftir fleiri sögubrotum ef til eru. Vinsamlegast skrifið það í athugasemdir eða sendið mér í tölvupósti á krissa@lsh.is.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Vinir og fjölskylda, Ættfræði, Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:31 | Facebook
Athugasemdir
Sem betur fer hefur þróunin verið hraði hér en í Nikaragu.Átakanleg þessi saga.
Solla Guðjóns, 24.9.2007 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.