11.10.2007 | 17:20
Um hvað snýst pólitík
Eitt atvik skipti mig sköpum í að ég áttaði mig á því um hvað pólitík snýst í raun og veru. Þessi saga gerðist þegar í var í HÍ en þar kíkti ég lítillega á háskólapólitíkina.
Einhverju sinni var ég í pólitísku partýi og þar komu tveir Vökudrengir (félag lýðræðssinnaðra stúdenta) og voru að reyna að fá mig og fleiri í eitthvað karp. Þessi menn hafa síðar komið við sögu Sjálfstæðisflokksins. Ég röflaði eitthvað við þá og annar sagði við mig: "Sko þið þessir kommúnistar, þið viljið nota peninga skattgreiðenda til að byggja stúdentagarða !!! ". Þetta var greinilega mikill glæpur að þeirra mati. Það leyndi sér ekki að þeim fannst kommúnisti hið mesta skammaryrði.
Fram það þessu hafði ég verið svona ópólitískur miðjumoðari og einhvern veginn hafði ég einnig talið fram að þessu að orðið kommúnisti væri yfir einhverja öfgamenn en í þessu samhengi gat ég ekki séð það. Ég var nú einu sinni íbúi á þessum stúdentagörðum og án þeirra hefði það verið hið mesta bras fyrir mig að stunda háskólanám. Átti ég að hafa minni tækifæri til að stunda nám af því að:
- Í fyrsta lagi bjuggu foreldrar mínir langt frá Háskólanum og útilokað að ég gæti búið hjá þeim á meðan á námi stæði.
- Í öðru lagi voru foreldrar mínir það efnalitlir að þeir gátu ekki staðið straum af háu leiguverði, ég þurfti að greiða þetta sjálf.
Nei, ef það að vera kommúnisti væri að vilja nota okkar sameiginlegu sjóði til að jafna aðstöðumun okkar til að njóta mennta, þá var ég kommúnisti og það sem meira var, ég var stolt af því.
Ég er þessum mönnum ævinlega þakklát fyrir að hafa opnað augu mín fyrir um hvað pólitík raunverulega snýst. Hún snýst um hversu miklu af tekjum okkar við viljum verja sameiginlega til að jafna aðstöðumun og tækifæri okkar til að njóta: Menntunar, heilbirgðisþjónustu og stuðnings við hvers kyns áföll sem upp kunna að koma. Pólitík snýst einnig um hversu langt við viljum ganga í því að láta einkaaðila ráða yfir auðlindum þjóðarinnar.
Ég minnist þessa atviks oft, sérstaklega þegar pólitíkusar reyna að afvegaleiða kjósendur og láta umræðuna snúast um praktísk úrlausnarefni.
Nei, pólitík er hægri vs vinstri, það hefur sko barasta ekkert breyst.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er hárrétt hjá þér. Sama hve oft sá söngur er sunginn að hægri og vinstri séu úrelt hugtök í pólitík þá eru það þeir tveir pólar sem öllu ráða. Auðvitað verður það samt oft blessað miðjumoðið sem úrslitum ræður.
Sæmundur Bjarnason, 11.10.2007 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.