18.9.2007 | 18:16
Kjarabarátta
Kjarabarátta getur verið snúið fyrirbæri. Hvenær eru greidd sanngjörn laun og hvenær á einhver stétt skilið hækkanir umfram aðrar stéttir?
Flókið.
Grundvallaratriði til að geta sótt launahækkanir er að trúa að starfið sé innt af hendi af ítrustu samviskusemi, alúð og dugnaði. "Sko, sjáið hvað við erum dugleg og flink, við eigum meira skilið!"
Því miður hefur kjarabarátta kennara stundum einkennst af gagnstæðum hugsunum. Umræðan hefur alltof mikið snúist um að laun þeirra séu svo lág að það sé eiginlega ekki hægt að búast við mikið betra skólastarfi. Ég hef oft gagnrýnt þetta en nú nýlega varð mér ljóst að ég var farin í huganum að trúa þessu og réttlæta vanþekkingu kennara (í grunnskóla sem ég þekki til í) á námsefni sem þeir kenna með bágum kjörum þeirra. Ég ætla ekki að tiltaka dæmi um hvað borið hefur verið á borð fyrir nemendur en það eru atriði sem ég tel að hver meðal Íslendingur ætti að vera með á hreinu að standist ekki og því ólíðandi að borið sé á borð fyrir börnin. Einnig verður að segjast að stundum hefur að mínu viti skort á þekkingu kennara á sértækum námsörðugleikum og úrræðum skólans til að bregðast við þeim sem og viðbrögðum við einelti. Semsagt þegar ég var í huganum farin að réttlæta með lágum launum kennara að þjónusta skólans væri lakari en ég gerði kröfu til, varð mér ljóst að kjarabarátta þeirra væri á hálum ís.
Myndum við einhvern tíma sætta okkur við mistök í heilbrigðiskerfi vegna bágra kjara heilbrigðisstarfsmanna?
Ég fletti upp á heimasíðu kjararannsóknanefndar meðaldagvinnulaunum þessara stétta. Það var áhugavert:
Meðaldagvinnulaun í des 2006
Lífeindafræðingar: 252 þús
Geislafræðingar 252 þús
Kennarasamband Íslands, ríkisstarfsmenn: 285 þús
Kennarar í grunnskólum Rvik: 258 þús
Hjúkrunarfræðingar: 284 þús (hafa 4 ára háskólanám)
Vinnutími og möguleiki þessara stétta til endurmenntunar er ekki borinn saman.
Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að ég þekki persónulega og hef líka í gegnum skólastarf, kynnst kennurum sem leggja líf og sál sína í starfið og vinna gott verk. Ég gagnrýni hins vegar þetta hugarfar kjarabaráttunnar og tel það kennurum ekki til framdráttar. Skólastarfið á betra hugarfar skilið. Ég geri kröfur til kennara, rétt eins og ég geri kröfur til annarra stétta. Bág launakjör eru aldrei afsökun fyrir slöku vinnuframlagi, sérstaklega ekki þegar tölur sýna að þetta eru sömu kjör og sumar aðrar háskólamenntaðar stéttir búa við. Þetta má ekki skilja þannig að þetta séu nein lúxuskjör, kennarar eru bara með sambærileg kjör og þær stéttir sem ég tel upp hér að ofan, miðað við þessar tölur. Við myndum aldrei sætta okkur við laka þjónustu eða mistök í heilbrigðiskerfinu vegna bágra kjara þess fólks sem þar vinnur.
Ég geri einnig kröfu til launagreiðanda, ríkis, sveitarfélaga, almenna markaðarins, starfsmenn sem leggja alúð í starf sitt, sýna frumkvæði, fylgjast með nýjungum, slíkt fólk á betri laun skilið en að ofan greinir, alveg sama hvaða stétt er um að ræða.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.9.2007 kl. 23:01 | Facebook
Athugasemdir
Hæ ég er búin að setja meira um lesblindu viltu kíkja og kvitta til að koma þessu inn í umræðuna..Fyrirfram þökk Solla guðjóns
Ætlasvo að gefa mér tíma i að lesa síðuna þína.
Solla Guðjóns, 19.9.2007 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.