Færsluflokkur: Spaugilegt

Það versta sem fannst um Vinstri græna

Þegar á brattann er að sækja í kosningabaráttu grípa stjórnmálaöfl stundum til örþrifaráða. Eitt af þeim er að dreifa neikvæðum áróðri um andstæðinginn.

Þessi neikvæði áróður getur falist í því að slíta orð hans úr samhengi, gera lítið úr honum eða benda á möguleg hagsmunatengsl sem þykja óæskileg.

Án efa eru Vinstri grænir hreina mey þessarar kosningabaráttu. Þeir voru í stjórnarandstöðu allan gróðæristímann en óþreytandi við að benda á hættuna sem yfir vofði. Þóttu bara neikvæðir nöldrarar. Einnig voru þeir með bókhald sitt opið þannig að ljóst var allan tímann hver styrkti þá og hversu mikið.

Einn skeleggasti og hreinskilnasti stjórnmálamaður okkar í dag er Katrín Jakobsdóttir í VG. Hún segir okkur umbúðalaust það sem aðrir þora ekki að segja. Þannig stjórnmálamönnum getum við treyst. Við erum komin með nóg af því að vera leynd sannleikanum.

Nú hefur verið opnuð vefsíða sem "AHA hópurinn" stendur fyrir. Hverjir það eru kemur auðvitað ekki fram. Markmið þessarar vefsíðu er að sverta frambjóðendur VG.

Miðað við það markmið finnst mér afar þunnt það sem er á þessari síðu. Það versta sem síðuhöfundar hafa um VG að segja er eftirfarandi:

  • Katrín Jakobsdóttir segir okkur sannleikann um niðurskurð í opinberum rekstri, vill frekar launalækkanir en uppsagnir.
  • Jón Bjarnason telur ósanngjarnt að niðurskurður næstu ára lendi með sama þunga á þeim svæðum sem ekki nutu góðærisins og þeirra svæða sem nutu þess.
  • Bróðir Kolbrúnar Halldórsdóttur hefur setið í stjórnum svokallaðra útrásarfyrirtækja.
  • Steingrímur J. Sigfússon er á móti nektar- og súlustöðum og vill stemma stigu við klámdreifingu á netinu.
  • Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um litaval á klæðnaði ungbarna á fæðingardeildum.

Var AHA hópurinn búinn að leita lengi þegar hann loksins fann þessi hræðilegu atriði um frambjóðendur VG?

Var virkilega ekkert annað sem hópurinn fann til að setja sem andáróður um þau?

Eða er þetta bara lélegur brandari?


Fjölskyldan Ísland

Fjölskyldan Ísland á í vanda, ábyrgðir á víxlum sem fjölskyldan vissi ekki að hún hefði skrifað upp á falla á litlu fjölskylduna, lán gjaldfalla, hlutabréf sem fjölskyldan átti hríðfalla í verði og fjölskyldufyrirtækið á í vandræðum. Reyndar lítur svo út að einhverjir innan fjölskyldunnar hafi fengið upplýsingar um að útlitið væri dökkt og ábyrgðir féllu á hana. Foreldrarnir í fjölskyldunni vildu hlífa börnunum við þessu og þögðu þunnu hljóði um þetta og létu sem allt léki í lyndi, héldu áfram að halda veislu og elsta systirin fékk að fara tvisvar á Ólympíuleikana þrátt fyrir að útlitið væri svart.

Þegar áfallið reið svo yfir var mamman orðin veik, þurfti að leggjast inn á spítala í útlöndum og gangast undir erfiða aðgerð. Pabbinn var ráðvilltur svona mömmulaus og átti erfitt með að taka ákvarðanir hratt eins og nauðsynlegt er undir svona kringumstæðum. Afi gamli hafði alltaf viljað halda öllum þráðum í sinni hendi og aldrei leyft fjölskyldunni að ráða fjármálum sínum. Það vildi svo til að hann hafði lengi eldað grátt silfur saman við einhverja þeirra sem voru að fara illa með fjölskylduna og nú skyldu sko engin vettlingatök notuð, komið að skuldadögunum.

Afinn og pabbinn ásamt litlausum föðurbróður reyndu heila helgi að semja við skúrkana og þeir töldu sig loks hafa fundið lausn sem myndi endanlega knésetja þá. Þeir gleymdu hins vegar að hafa samband við móðurættina og elsti sonur mömmunnar (af fyrra hjónabandi) var ekki látinn vita fyrr en á seinustu stundu. Stjúpsonurinn var hins vegar upp með sér yfir að hafa verið hafður með í ráðum þó seint væri og stóð keikur við hlið pabbans. Hann reyndi mikið að stappa stálinu í yngri systkinin og segja þeim að nú yrði bráðum allt gott aftur.

Klækjaráðin sem afinn hafði bruggað reyndust ekki eins klók og pabbinn og stjúpsonurinn höfðu vonað. Viðskiptavinir í Bretlandi ærðust þegar afinn staðhæfði að fjölskyldan myndi aldrei borga skuldir sem hrannast höfðu upp þar í landi. Handrukkarar voru sendir af stað og ruddust þeir inn í útibú fjölskyldufyrirtækisins í Bretlandi og brutu allt og brömluðu. Gereyðilegging blasti við. Þetta voru seinustu eigur fjölskyldunnar, eignirnar sem hún hafði vonast til að slyppu undan rukkurunum og nota átti til uppbyggingar seinna meir.

Móðurbróðirinn sem alltaf hafði staðið í skugga mömmunnar reyndi hvað hann gat að segja hvað honum fannst um atburðarásina, hann hefði nú einu sinni þekkt þessa menn þarna í Bretlandi en þeir væru sko alls ekki vinir hans lengur. Börnunum fannst þetta lítt traustvekjandi yfirlýsingar, þeim hafði alltaf fundist lítil innistæða í gasprinu hans.

Móðuramman var þegar þarna er komið við sögu orðin buguð og þreytt. Hennar hlutverk hafði verið að gæta barnanna og segja þeim að standa saman og að fjölskyldan myndi sjá þeim fyrir öruggu skjóli. Amman hafði alltaf verið útsjónarsöm og talið samstöðu fjölskyldunnar skipta öllu. Hún var ekki alveg sátt við tengdafjölskyldu dótturinnar því þar ríkti oft á tíðum mikil eiginhagsmunasemi og áhersla á að hver væri sjálfum sér næstur. Amman reyndi að hugga börnin og segja þeim að þessi fjölskylda stæði saman og deildi kjörum sínum. Börnin hlustuðu ráðvillt á og voru ekki alveg viss um að þeim væri óhætt að trúa þessu.

Reglulega komu pabbinn og stjúpsonurinn heim á matmálstímum og þrumuðu yfir börnin að bráðum yrði allt í lagi aftur, allt eins og áður, samt komu alltaf fregnir um að ástandið væri að versna. Börnin vissu ekkert hverju þau ættu að trúa. Þau hlupu í felur þegar þeir komu, "ekki segja okkur einu sinni enn að nú sé allt í lagi, við trúum því ekki".

Afinn gerðist ráðríkari með hverjum deginum og var svo komið að enginn vildi tala við hann en allir hræddust hann og enginn þorði að gera neitt sem gæti styggt hann. Fjarskyldur frændi hafði hallað á hann máli í fjölskylduboði. Þegar það barst afanum til eyrna umturnaðist afinn og hótaði fjölskyldunni öllu illu. Frændinn varð að senda út fallegt kort til allra barnanna og útskýra að þarna í fjölskylduboðinu hefði hann alls ekki verið  að tala um afann.

Pabbinn er enn sannfærður um að afinn viti allt best. Hann spyr afann alltaf ráða á hverju kvöldi og gerir ekkert nema afinn hafi lagt blessun sína á það. Mamman er enn á spítalanum. Hún veit að ráð afans hafa steypt fjölskyldunni út í þá fjármálaóreiðu sem blasir við henni. Mamman er mjög lasin en hún sagði samt í símtali við börnin að afinn yrði að hætta að skipta sér af. Veikindi mömmunnar eru mikil, þetta er erfiður tími til að standa í skilnaði. Elsti sonurinn er orðinn of háður stjúpa sínum og samþykkir blindandi allt sem hann segir, móðurbróðirinn er háll sem áll.

Er gerlegt fyrir mömmuna að standa í skilnaði eins og ástandið er? Er það kannski eini möguleikinn? Fyrrverandi eiginkona pabbans bíður á bekknum, hún er enn veik fyrir honum, það skilur reyndar enginn.

Bráðum kemur mamma heim, verst hvað hún er ennþá lasin.


Hryðjuverkalög

Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki í Bretlandi í seinustu viku.

Þeir klikkuðu á einu grundvallaratriði, láta framselja til sín hryðjuverkamennina.

Hvað ég hefði orðið glöð ef þeir hefðu látið kné fylgja kviði.

Er orðið of seint að biðja þá um það?


Hringt í Davíð

Einn morguninn í nýliðinni viku ræddi ég við samstarfskonu mína ástandið í efnahagsmálum landsins. Okkur var framganga seðlabankastjóra ofarlega í huga og töldum báðar að hann ætti samstundis að fara frá. Í miðju samtali teygir samstarfskona mín sig í símann og segir:

"Ég ætla að hringja í Davíð".

Ég verð eitt spurningamerki á svipinn, ég vissi að hún væri framtakssöm og léti verkin tala en ég vissi ekki að hún hefði númerið hans bara svona í kollinum.

Þegar hún sá svipinn á mér skellti hún upp úr, hún var auðvitað að grínast.

"Ég þarf að hringja í tölvudeildina því ég kemst ekki inn í tölvuna mína", sagði hún svo til skýringa.

Ég skellti einnig upp úr, hún náði mér alveg.

Samstarfskona mín velur nú númerið hjá tölvudeildinni. Tölvudeildin svarar strax:

"Tölvudeild, Davíð". !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Þetta var of mikið, hún treysti sér ekki til að bera upp neitt erindi, hvorki þetta með tölvuvandræði sín né þetta með seðlabankastjóra. Hún skellti á og við sprungum báðar.

Erindið til tölvudeildar varð að bíða aðeins. Hitt erindið bíður ennþá.


Vi taler dansk í Danmark

Íslensk börn læra dönsku í grunnskóla, þau sem halda áfram í framhaldsskóla eru skyldug til að bæta við þá kunnáttu sína. Það er nokkuð víst að margir líta á þetta nám sem hina mestu kvöl og pínu og algengt er að danska sé á lista yfir óvinsælustu námsgreinarnar.

Dóttir mín (Rán) 16 ára sem í vor lauk grunnskólanámi er ein þessara nema, danska hefur lengst af verið hennar stærsti höfuðverkur og leit hún á þessa námsgrein sem óyfirstíganlega hindrun í sínu námi. Þrátt fyrir það stóð hún sig með mikilli prýði í prófum í vor, sjálfri sér, foreldrum og kennara til mikillar undrunar og gleði.

Um seinustu helgi fór fjölskyldan til Kaupmannahafnar, frábært tækifæri til að nota þessa þekkingu. Við fórum í búðir, tilgangurinn var m.a. að finna gallabuxur. Í dönskukennslubókunum sem notaðar eru í íslenskum grunnskólum eru gallabuxur kallaðar "cowboybukser". Hér kemur samtal dóttur minnar við danska afgreiðslustúlku í Zöru á Strikinu:

Afgreiðslustúlkan: "Kan jeg hjælpe dig?"

Rán: "Ja, har du cowboybukser?"

Afgreiðslustúlkan horfði með miklum spurnarsvip á Rán, hún velti greinilega fyrir sér hvað hún væri að meina, kúrekabuxur voru svo sannarlega ekki hluti af tískuvarningi þessa árs. Svipur afgreiðslustúlkunnar var óborganlegur, "þú ættir frekar að fara í reiðvöruverslun" var svona það sem lesa mátti af svipnum.

"Mener du jeans?" spurði afgreiðslustúlkan eftir langa mæðu.

Framburður á orðinu jeans var verulega danskur meira svona "jens" og Rán gat ómögulega áttað sig á hvað stúlkan var að segja. Ég stóð álengdar og Rán kallaði mig til hjálpar, "hún var að meina "djíns" útskýrði ég.

Þar með var allt orðið ljóst. Þrátt fyrir að íslenskar dönskukennslubækur kenni íslenskur grunnskólanemum að gallabuxur nefnist cowboybukser á dönsku þá er það kunnátta sem gagnast nákvæmlega ekki neitt í tískubúðum á Strikinu.

Gallabuxur á dönsku er JEANS.

Nú vitum við það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband