Leitað nýrra heimkynna

Ég er ekki dús við hvað er verið að móast þarna í Hádegismóum. Einhvern veginn líður mér ekki eins og ég eigi alveg heima á þessu vefsvæði.

Kvöldinu hef ég eytt í leit að nýju heimili. Það er vandaverk að velja sér samastað.

Vefsvæðið 123.is finnst mér aðlaðandi. Gallinn við það er að google reader getur ekki lesið það. Sjálf nota ég google reader mikið og vil gjarnan að fastir lesendur mínir geti fylgst með mér þar. Fyrir not á þessu svæði borgar maður rúmlega 3000kr á ári. Það finnst mér í góðu lagi. En vegna google reader ætla ég ekki að flytja þangað.

Ég er með gmail "reikning". Því liggur beint við að fara á blogspot.com. Í kvöld stofnaði ég síðu þar: bubotin.blogspot.com. Því miður var bubot ekki laust. Það finnst mér miður því ég kann vel við bubot, hins vegar finnst mér bubotin frekar óþjált. Ég er ekki viss um að ég kunni við þetta heimilisfang. Er að velta fyrir mér öðrum nöfnum.

Mig langar að flytja með mér hafurtask af gamla heimilinu. Mér sýnist að það eigi að vera hægt að flytja færslur milli vefsvæða, er að skoða þá möguleika og þigg allar ábendingar. Gjarnan vildi ég líka flytja athugasemdir en mér sýnist það líklega ekki ganga upp.

Já, það er svolítið mál að velja nýtt heimili, kannski er þetta óþarfa viðkvæmni að vilja skipta, þarf svona að velta þessu vel fyrir mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ekki skal mig undra og ég hef vissulega velt þessu fyrir mér. Ég hef hins vegar ákveðið að ég ætla hvorki að láta DO eða aðra stjórna því hvar ég blogga. Svo er líka annað og það er að ef við sem erum ekki í jáliði Íhaldsins, hverfum mörg á braut þá vantar vissuleg okkar rödd hér inn. Hún má ekki þagna og það er ekki rétt að láta einn mann hrekja okkur af moggablogginu. Hann er ekki svo merkilegur í mínum huga að hann sé þess virði. Set þetta inn svona til umhugsunar, en þú gerir auðvitað það sem þér þykir rétt Kristjana

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.9.2009 kl. 00:56

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir Hólmfríður, þú kemur svo sannarlega með mikilvægan punkt. Á þessu bloggi erum við okkar eigin ritstjórar og það er nauðsynlegt að hér séu margar raddir. Ég hef hins vegar aldrei haft það að meginmarkmiði að bloggið mitt sé víðlesið, blogga t.d. aldrei við fréttir, þetta er meira yfirfall á hugsunum.

Kristjana Bjarnadóttir, 23.9.2009 kl. 07:49

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef verið í ámóta pælingum en það er svo mikið mál að flytja allt efnið mitt. Svo er nú heilmikið til í þessu hjá henni Hólmfríði. Hugsum málið og rösum ekki um ráð fram.

En ég kann hins vegar mjög vel við "búbótina".  

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.9.2009 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband