23.8.2009 | 10:05
Hlaupahetjusaga
Ég minnist þess þegar ég var barn og unglingur hvað mér þótti merkilegt að geta hlaupið 5 og 10 km. Á frjálsíþróttamótum voru það bara örfáir sem lögðu þetta á sig og þóttu þeir miklar hetjur. Þeir hlupu þá hring eftir hring á íþróttavellinum og mér var óskiljanlegt hvernig þetta væri hægt.
Nú hef ég í nokkur ár stundað hlaup og finnst bara alls ekkert merkilegt að komast 5 og 10km. Það sem meira er, þetta er bara alls ekkert erfitt.
Í gær tók ég þátt í 10km hlaupinu. Reyndar var ég lengi vel í vafa um hvort ég ætlaði að taka þátt þar sem ég hef fundið lítilsháttar til í hnjám nú undanfarið. Kenndi ég göngum sumarsins um það. Stemningin í hlaupinu er hins vegar slík að ég ákvað að láta slag standa og taka þetta bara rólega.
Þar sem ég gerði ekki ráð fyrir neinum persónulegum afrekum nema þá í mesta lagi "personal werst", þá gerði ég allt eins og ekki á að gera fyrir hlaup:
- Hljóp á glænýjum skóm
- Fór í grillparty kvöldið áður og borðaði yfir mig en gleymdi að innbyrða vökva
- Fór mjög seint að sofa og vaknaði eldsnemma
- Gleymdi að fá mér kaffibolla um morguninn, en það er ávísun á hausverk og vanlíðan hjá mér.
Ég vaknaði illa sofin með stein í maganum. Ég var alls ekki búin að melta þau ósköp sem ég hafði látið ofan í mig kvöldið áður og var útbelgd. Ekki gæfulegt.
Þar sem ég var þarna mætt án þess að ætla mér nokkur afrek var ég fullkomlega afslöppuð. Oft áður hef ég verið að hugsa um tímamælinguna og því fylgir ákveðið stress. Ég staðsetti mig í rásmarki rétt aftan við þann sem hélt á blöðru merktri 60 sem þýddi að viðkomandi ætlaði að hlaupa þetta á 60 mín. Minn besti tími til þessa er 59:01 en í þetta sinn gerði ég ráð fyrir að vera í kringum 65 mín eða jafnvel lengur.
Eftir ræsingu hlaupsins mjakaðist þvagan hægt, slíkur var fjöldinn að hann fyllti Lækjargötuna og síðan Skothúsveginn. Þegar komið var á Suðurgötuna var mögulegt að hlaupa á sínum hraða.
Það hefur stórlega færst í aukana að fólk fari út á götur til að hvetja hlaupara. Á Lynghaganum er stemningin best, þar eru íbúar úti á tröppum með potta og pönnur og slær taktinn. Manni líður eins og alvöru hlaupahetju og brosir út fyrir eyru meðan maður hleypur þarna í gegn.
Víða annars staðar var fólk að hvetja og fann ég vel fyrir því hvað það jók kraftinn að finna hvatninguna.
Ég náði að fylgja 60mín blöðruhlauparanum lengi vel og var sjálf mjög hissa. Þegar ég kom á Norðurströndina á Seltjarnarnesi var ég þó að mestu búin að missa sjónar á honum. Ég fann hvergi til og fætur í fínu formi, þökk sé nýju skónum. Ég vissi að göngurnar í sumar hefði byggt upp líkamlegan styrk og því ætti ég alveg að geta haldið uppi góðum hraða.
Í svona hlaupi er auðvelt að detta niður í hraða og fara inn í þægindafasa. Því þurfti ég þarna svolítið að telja í mig ákveðni og það tókst. Ég fór út úr þægindahraðanum og jók í. Hélt þessu út að Mýrargötu og uppgötvaði þar að ég átti enn mikið eftir. Þar byrjaði ég að velja mér fórnarlömb, valdi hlaupara fyrir framan mig og einsetti mér að fara fram úr. Þannig tókst mér að fikra mig stöðugt framar.
Í Lækjargötunni er nauðsynlegt að taka góðan endasprett, þar var reyndar lítill afgangur eftir af mér, en hvatning áhorfenda jók samt þrekið og þegar ég heyrði kallað "Áfram Kristjana" og síðan "Helvítis fokking fokk", gaf ég allt í. Ég veit ekkert hver þetta var en tel að viðkomandi þekki mig nokkuð vel. Um nóttina hafði ég verið þungt hugsi yfir sölu auðlinda okkar á Suðurnesjum og ótrúlegum sögum sem ganga um mútur og spillingu því tengt sem og öðru í tengslum við bankahrunið. Alla leiðina hafði ég verið að velta þessu fyrir mér, þessi hvatning var því ótrúlega viðeigandi.
Í markið kom ég á 61 mín og 21 sek. Hef aðeins tvisvar náð betri tíma og einu sinni nákvæmlega þessum sama tíma. Ég tel þetta því bara nokkuð gott og er alsæl með árangurinn.
Kannski er þetta bara málið, hlaupa í nýjum skóm, borða yfir sig kvöldið áður og gleyma að drekka, já og síðast en ekki síst:
Helvítis fokking fokk............
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Athugasemdir
Flott frammistaða !
Anna Einarsdóttir, 23.8.2009 kl. 11:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.