Frekur krakki - óábyrgir stjórnmálamenn

Í Húsafelli er notaleg sundlaug. Þangað lá leið mín nýverið. Í hópnum voru börn á öllum aldri sem voru staðráðin í að skemmta sér vel og höfðum við með okkur vatnsbyssur og skemmtum okkur við að sprauta hvert á annað.

Svo kom að því að okkur leiddist vatnsslagurinn og vatnsbyssurnar lágu á bakkanum á litlum heitum potti. Ég sat í makindum í pottinum. Þangað kom lítill gutti og vildi prófa byssurnar. Ég leyfði það. Sýndi honum hvernig þær virkuðu og sagði að hann mætti prófa þær þarna í pottinum en ekki fara með þær annað.

Drengurinn sinnti þessu engu. Tók eina byssuna traustataki og æddi í burtu. Maður verður einhvern veginn svo vandræðalegur gagnvart svona frekju. Stutt í hugsunina "aumingja barnið langar svo að leika með þetta dót, hvað get ég verið að banna honum það". En ég var búin að setja reglur. Við þær á að standa. Ég stóð upp og æddi á eftir barninu.

"Viltu koma með byssuna og láta mig fá hana, þú máttir prófa hana í pottinum en ekki fara með hana", þrumaði ég yfir alla laugina. Ég gerði mér vel grein fyrir að þetta var fáránlegt, 45 ára kona að rífa vatnsbyssu af litlu barni.

Móðirin lá í potti stutt frá, sagði ekkert. Barnið reyndi hvað það gat að sleppa frá mér en bæði Sigrún systir mín og Signý frænka mín komu og studdu kröfu mína. Þrjár kerlingar á móti barni. Allt til að fá vatnsbyssuna til baka.

Við höfðum sigur, fengum byssuna til baka.

Þá kom að því að móðirin fékk málið: "Hann hélt að sundlaugin ætti byssurnar". Enga tilraun gerði konan til að komast að því fyrir barnið á meðan á rifrildinu stóð hver ætti byssurnar eða að gera barninu ljóst að það megi ekki ganga svona í annarra dót.

Þegar ég horfði á málflutning Bjarna Ben í þinginu í dag um Icesave samninginn rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.

Það var búið að setja reglur um innistæður. Landsbankinn auglýsti ábyrgð íslenska ríkisins meðan það hentaði. Stjórnvöld staðfestu sl haust að þau myndu greiða innistæðurnar upp að ákveðinni upphæð.

Nú reynir stjórnarandstaðan að loka eyrunum og túlka reglurnar að sinni vild. Reglurnar gilda ekki um okkur af því að við erum svo fá, höfum ekki efni á þessu.

Fjármálaeftirlitið sinnti engri eftirlitsskyldu, gekk ekki í málið meðan enn var lag og stoppa Landsbankann af í söfnun innistæðna. Setti bankanum ekki stólinn fyrir dyrnar og gerði honum grein fyrir alvöru málsins.

Vitandi af reglunum og undirskrift íslenskra stjórnvalda frá í haust hafa Bretar og Hollendingar sterka samningsstöðu. Önnur lönd í Evrópu standa með þeim, jafnvel Norðurlöndin líka.

Við hljótum að játa okkur sigruð, eins og drengurinn í Húsafelli.

Vatnsbyssan var aldrei okkar, þó okkur langaði ofboðslega til að hafa hana og viljum alls ekki láta þessi freku stóru lönd hafa hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Í "silfurskeiðasamfélagi" þeirra Bjarna Ben, Sigmundar Davíðs, Guðlaugs Þórs og félaga eru ekki neinar reglur aðrar en þær að vera með sem mestann hávaða og æpa vitleysuna nógu oft svo almenningur fari að halda að þeir hafi rétt fyrir sér. Smjörklípukóngurinn notaði þessa aðferð og komst býsna oft upp með hana.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.7.2009 kl. 03:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband