17.5.2009 | 22:08
Hreyfiskýrsla
Um helgina dvaldi ég í frábærum félagsskap vinkvenna sem voru með mér á heimavist Laugargerðisskóla fyrir örfáum (30) árum. Við dvöldum í húsi Snæfellingafélagsins á Eyri á Arnarstapa yfir helgina.
Frekar frábært.
Megintilgangur ferðarinnar var samvera en mér tókst að troða inn örlitlu af mínu prívatæfingaprógrammi. Þar sem við brunuðum vestur strax eftir vinnu á föstudag varð lítið um skopp þann daginn.
Einn af fylgifiskum mikilla æfinga er minni svefnþörf. Ég er farin að vakna fyrir allar aldir og það gerði ég einnig á laugardagsmorgun. Því gat ég á meðan flestar hinar kúrðu sig enn undir sænginni, laumast út og tekið skokkrúnt. Ég hljóp eftir þjóðveginum frá Arnarstapa yfir að Hellnum og til baka um hraungötu með ströndinni. Ég giska á að þetta séu rúmir 7km.
Við ströndina er lognið mest snemma á morgnana, kyrrðin aðeins rofin af fuglasöng. Á Arnarstapa voru kríur og mávar áberandi, á leiðinni niður að Hellnum þurfti hrossagaukur að ræða við mig málin og ritan og fýllinn voru áberandi í klettunum við ströndina.
Þetta var með skemmtilegri hlaupaleiðum sem ég hef farið.
Í dag er svo sunnudagur og á hann verð ég bara að skrá skróp. Ekkert brölt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.