Eins og hundur af sundi dreginn

Á mánudögum er hlaupaæfing með TKS. Þá er hlaupið langt. Hversu langt er langt er smekksatriði og fer eftir getu og markmiðum hvers og eins. Einnig eftir því hvar viðkomandi er staddur í undirbúningi undir götuhlaup sem áætlað er að taka þátt í.

Langt fyrir maraþonhlaupara getur þýtt 20-30km.

Langt fyrir hálfmaraþonhlaupara þýðir oftast 12-18km.

Langt fyrir skokkara án markmiðs þýðir kringum 10km.

Ég tilheyri seinasta hópnum. Mánudagshlaupin eru yfirleitt svipaður rúntur. Frá sundlauginni á Seltjarnarnesi  er hlaupið út á Ægissíðu, þaðan út að flugvelli, gegnum Vatnsmýrina, upp Njarðargötuna og upp á Skólavörðuholt. Þar er hefðbundið að stoppa í Krambúðinni og fá vatnssopa hjá Juan sem er Kúbverskur salsakennari og mikill vinur okkar. Síðan er skokkað niður Skólavörðustíginn, um Austurstrætið og ýmsar krókaleiðir um Vesturbæinn aftur út á Nes.

Styttri útgáfa af þessu er að fara í gegnum Háskólasvæðið og um Hljómskálagarðinn og síðan upp Þingholtin að Krambúðinni.

Við Jóhanna hlupum saman í dag og tókum styttri útgáfuna. Ég var nú samt svo hress þegar ég kom aftur út á Nes að ég tók stuttan Neshring til viðbótar, þ.e. út að Lindarbraut og síðan hringinn.

Ég veit ekki alveg hvað þetta er langt. Giska á a.m.k. 11km jafnvel 12km.

Veðrið var nú slíkt að ég reyndi hvað ég gat að upphugsa afsakanir til að fara ekki af stað. Gerði mér grein fyrir hversu aumingjaleg færslan nú í kvöld yrði........."það var rigning svo ég nennti ekki út.........."

Slíkt gengi bara alls ekki. Þetta er svo sannarlega aðhald.

Það er hins vegar ekki ofsögum sagt að ég var blaut eins og hundur af sundi dreginn þegar ég kom heim.

En hress og ánægð með mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband