Aðhald og afrek

Mig langar óskaplega með göngufélögum mínum á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. En ég óttast að líkamlegt ástand mitt bjóði ekki upp á slíka ferð.

Ég hef tekið ákvörðun um að herða mig í líkamsþjálfun. Það felst í fleiri gönguferðum, meiri sjálfsaga á hlaupum og mögulega fleiri ferðum í ræktina.

Eftir erfiða gönguferð á sunnudag gleypti ég í mig dágóðan skammt af hamborgara, frönskum og kokkteilsósu og skolaði niður með bjór. Að því loknu steig ég á vigtina. Talan sem við blasti jók mér ekki gleði. Það segir sig sjálft að nokkrar auka mjólkurfernur utaná skrokknum auðvelda ekki erfiða gönguferð.

Ég þarf að losa mig við nokkur kíló fyrir 13. júní og laga líkamsformið til að komast á Miðfellstind.

Til að auka aðhald mitt í þessu þá ætla ég að breyta ritstjórnarstefnu þessa bloggs. Ég hef haft það fyrir reglu að birta ekki meira en eina færslu á dag (á þessu hafa verið örfáar undantekningar). Næstu vikur ætla ég svo til daglega að upplýsa um hreyfingu og þyngdarbreytingar í sérstakri færslu. Ef ég hef eitthvað annað að segja mun birtast önnur færsla. Það má vel vera að lesendur mínir hafi takmarkaðan áhuga á þyngdarbreytingum mínum og hreyfingu, mér er hins vegar nokkuð sama. Ég geri þetta fyrir mig til aðhalds, það er erfiðara að svíkja sjálfan sig þegar þetta er opinbert.

Nú þegar eru 1,9kg farin. Það heitir nú bara á mannamáli að ég hef pissað bjórnum og garnafyllingin minnkað. Ein góð máltíð myndi fljótt snúa þessu við. Betur má ef duga skal.

Hreyfing seinustu daga hefur verið sem hér segir:

Sunnudagur: Eins og áður hefur verið upplýst fór ég í góða gönguferð, mæling segir að það hafi verið 25,5km á 7,5klst.

Mánudagur: Ég var bara lúin og leyfði mér leti. Var satt best að segja miður mín yfir að vera svona lerkuð en eftir að hafa áttað mig á að meðalgönguhraði var um 4km/klst (að frádregnum kaffipásum sem voru tvær) þá hefur andlega hliðin braggast.

Þriðjudagur: Göngufélagi minn Hugrún stendur á vorin fyrir vikulegum gönguferðum á þriðjudagskvöldum. Með henni og um 30 öðrum, fór ég í göngu á Drottningu og Stóra-Kóngsfell í Bláfjöllum. Gangan tók um 2 klst.

Miðvikudagur: Á miðvikudögum er hlaupadagur. Ég hljóp minn venjulega hring sem er um 5,5km og því til viðbótar tók ég brekkur. Heildarvegalengd var um 7km. Síðan voru 30 mín styrktaræfingar í sal með hópnum. Það gleðilega í dag var að ég fann strax fyrir meiri styrk eftir átökin á sunnudag. Maður þarf nefnilega stundum að reyna á þolrifin til að ná árangri. Annars hjakkar maður bara í sama farinu.

Myndin hér að neðan var tekin af Stóra-Kóngsfelli í gærkvöld. Fleiri myndir má sjá hér.

IMG_7889


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég dáist rosalega að þér. Ekki ganga samt alveg fram af þér, þetta gæti verið svolítið mikið. Er ekki nóg að bæta þrekið en láta þyngdina stilla sig af sjálfa?

Lilja (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 14:37

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir góð ráð Lilja, en ég bara svo mikill sælkeri að ef ég hugsa ekki um að passa þyngdina þá bara þyngist ég þó ég sé á fullri hreyfingu. Ég hef bar ekki nennt að hugsa mikið um þetta í vetur og það hafa bara læðst á mig 4-5 kíló. Það munar um það í svona gönguferð og þess vegna ætla ég að losa eitthvað af þessu burt.

Kristjana Bjarnadóttir, 7.5.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband