Álfkona óskast

Seinustu daga hafa heyrst háværar raddir sem krefjast niðurfellingar skulda heimilanna. Slík krafa hljómar í mínum eyrum sem bón um að til okkar komi algóð álfkona og breyti ártalinu í 2007.

Einn stjórnmálaflokkur er duglegri en aðrir að kynda undir þessari óskhyggju en það er Framsóknarflokkurinn. 

Í kosningum fyrir 6 árum var kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% íbúðalán fyrirferðamikið. Nú er talið að efndir þessa loforðs sé ein af orsökum gríðarlegrar hækkunar íbúðaverðs. Þeir sem tóku þessi lán horfa nú á eignir sínar falla í verði og standa margir hverjir uppi með neikvæða eignastöðu.

Sú staða er þyngri en tárum taki.

Til þessa hóps höfðaði Framsóknarflokkurinn í nýliðnum kosningum. 20% niðurfelling skulda var kosningaloforðið þetta árið.

En hvað þýða svona hókus pókus lausnir?

Án efa er fjöldi fólks í sömu stöðu og ég og mín fjölskylda. Núverandi húsnæði keyptum við þegar íbúðaverð var í lágmarki. Skuldir okkar eru mjög svo viðráðanlegar. Miðað við hugmyndir Framsóknarmanna þýðir þessi niðurfelling nokkrar milljónir í okkar vasa.

Þjóð sem hefur efni á að gefa fólki í minni stöðu milljónir er ekki þjóð í fjárhagsvanda. Það er þjóð sem neitar að horfast í augu við vandann.

Málflutningur Framsóknarmanna er veruleikafirring í besta falli en populismi í versta falli.

Því finnst mér afskaplega sorglegt að Hagsmunasamtök heimilanna haldi fram hliðstæðum kröfum og Framsóknarmenn, þ.e. kröfu um almenna niðurfærslu skulda. Slík niðurfærsla kemur ekki til með að gagnast þeim verst settu en gríðarlegum fjármunum verði þá varið til fólks sem ekki er í neinum vandræðum.

Nú þegar hafa verið sett í gang ýmis úrræði fyrir þá sem eiga erfitt með að standa í skilum. Vel má vera að þar sé ýmislegt gagnrýnivert og þar reynist gloppur sem þarf að laga, en þessar aðgerðir miða að því að taka sértækt á vanda hvers og eins. Tel ég það mun vænlegri kost en einhliða aðgerð á línunna óháð stöðu hvers og eins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sammála.  Ég er líka orðin hundleið á upphrópunum lýðskrumaranna í Framsókn og kem inn á það í mínum pistli í dag.

Sigrún Jónsdóttir, 5.5.2009 kl. 16:58

2 identicon

Það er með ólíkindum bullið úr penna þínum í dag Stjana.  Ég myndi frekar kalla evrópumjálm Samfylkingarinnar Hókus Pókus því hún segir að aðild að þessu sambandi leysi allann fjárhagslega vanda fyrirtækja og fólks hér á landi.

Ég gef mér það að þú vitir að ríkið er nú þegar búið að moka peningum inní peningamarkassjóðina til þess að verja tapaðar eignir vegna hrunsins.  Ertu viss um að einhverjir fjármagnseigendur sem fengu þá peninga hafi þurft þá endilega.  Ég er sannfærður um að meirihluti þeirra hafði ekkert með þá að gera og gætu lifað góðu lífi án þess að hafa fengið þá.  Þeir tóku áhættu með þessum reikningum og hefðu aldrei átt að fá þá peninga.

Ef þú skyldir ekki átta þig á því að þá voru tillögur Framsóknar og Borgarahreyfingarinnar þær að bakka aftur til 1.1.2008 með skuldastöðu heimilanna en þá hófst aðför bankaglæpamannanna á íslensku krónuna. Fyrir þessu eru hagsmunasamtök heimilanna að berjast og er sómi að því.  Það er ekki endalaust hægt að ýta öllum vandamálum endalaust á skuldara í þessu landi.  Það hlýtur öllum að vera ljóst nema þér þá kannski.

Ég sé að þú ert með tengil á síðunni á Marinó G. Njálsson.  Nú ættir þú að setjast niður og reyna að skilja hvað hann hefur fram að færa.  Hann er ekki slettireka einhverja pólitískra afla, hins vegar verð ég að meta það svo að þú og Sigrún séuð af því sauðahúsi.

Hvað varðar 90% lán til íbúðakaupa þá veltur maður því fyrir sér af hverju það ætti ekki að vera hægt hér á Íslandi eins og allsstaðar í nágrannalöndunum.  Einnig er auðvitað ljóst að í framkvæmd voru íbúðakaupendur á höfuðborgarsvæðinu að stórum hluta að taka 50-70% lán vegna þess hve hátt íbúðaverð á svæðinu er og hámarkslán voru 18 milljónir á þessum tíma.  Það var varla hægt að kaupa sér íbúðarkytru fyrir minna en 25-30 milljónir.  Þetta er augljóst þó þú setjir leppinn fyrir augan til þess að koma pólitísku höggi á einhver stjórnmálaöfl.  Það er auðvita hreinn brandari hjá þér að nefna í þessu tilliti að fólk hafi misst íbúðir sem hafi tekið þessi 90% lán.  Það hafa allir misst vegna hrunsins hvort sem lánin voru 90-80-70-60% whatever.  Ég er undrandi á þessu bulli þínu.

Enn og aftur bendi ég þér á að skoða skrif Marinós sem settar eru fram með miklum ágætum og ættu að vera flestum skiljanlegar.  Hann telur þessa ríkisstjórn handónýta þegar kemur að lausnum á vanda fyrirtækja og heimila og þar er ég honum algjörlega sammála.  Það er líka mjög ósmekklegt af þér að vera að ráðast á samtök heimilanna með þeim hætti sem þú gerir.

Ef það kallast að gaspra á kaffistofunni og sem blogg á vefsíðunni að þá liggur ljóst fyrir að þú gasprar hvorutveggja á kaffistofunni og á blogginu. 

Sveiattann. 

ÞJ (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 18:43

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég hvet fólk til að skoða færslu Sigrúnar frá því í dag.  Hún hefur athyglisverða sögu að segja.

ÞJ: Skrif þín dæma sig sjálf. Það er töluverður munur á að gagnrýna stjórnmálaöfl í bloggfærslu og færa fyrir því rök eða að ráðast að persónu bloggritara í nafnlausri athugasemd. Í þessari einu athugasemd tekst þér að:

  • Uppnefna mig með nafni sem aldrei hefur verið notað um mig. Ég hef aldrei verið kölluð Stjana.
  • Fullyrða að ég bulli.
  • Fullyrða að öllum nema mér sé ljóst að vandi skuldara sé mikill
  • Segja að ég og ofannefnd Sigrún séum "slettirekur" stjórnmálaafla. Þó ég styðji einhvern stjórnmálaflokk þá á það ekkert skylt við að vera slettireka.
  • Það að ég telji að flöt niðurfærsla skulda gagnist ekki þeim verst settu og að ég telji að Hagsmunastamtök heimilanna því ekki vera að verja þeirra hag getur það ekki talist ósmekklegt eins og þú heldur fram.

Lokaorð athugasemdar þinnar segja meira en margt. Svona dónaskap á náttúrulega ekki að svara en mér blöskrar. Ég vil þó benda á tvö atriði til viðbótar:

  • Það að sækja um aðild að ESB er svo langt í frá Hókus Pókus lausn. Það er ferli sem tekur mörg ár og margar aðgerðir sem því tengjast gætu orðið okkur sársaukafullar eins og aukið aðhald í ríkisfjármálum. Flöt niðurfelling skulda er hins vegar hókus pókus lausn og ég hafna slíkum lausnum.
  • Ég skal viðurkenna að ég fór með rangt mál þegar ég hélt því fram að krafan væri að það væri komið aftur 2007. Krafan er skv þínu svari 1. janúar 2008. Það munaði einum degi og rétt skal vera rétt. Biðst afsökunar á þessum mistökum.

Kristjana Bjarnadóttir, 5.5.2009 kl. 22:57

4 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Kristjana er það önnur Álfkona en sú sem færði innistæðueigendum 700  til 900 miljarða til að þeir sem áttu peninga í sjóðum bankana fengju allt sitt en þeir sem skulduðu skulu greiða alt sitt þetta stenst ekki stjórnaskránna okkar og hlýtur að falla með dómi. 

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 5.5.2009 kl. 23:09

5 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Jón:

Eftir því sem ég kemst næst voru bréfin í peningamarkaðssjóðunum keypt á ca 200 milljarða ef ég man rétt, hef þó fyrirvara á þessum tölum. Reyn hefur verið að halda því fram að það hafi verið skv. verðmati en ýmsir hafa tortryggt það. Á því hef ég enga skoðun. Ef þetta verðmat er byggt á sandi þá gagnrýni ég einnig þessa aðgerð. Ein vitlaus aðgerð réttlætir ekki aðra.

Kristjana Bjarnadóttir, 5.5.2009 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband