30.3.2009 | 23:19
Að búa til peninga
Á tímum bankaútrásarinnar trúðum við flest að bankarnir okkar væru að græða peninga. Já, að með einum eða öðrum hætti yrðu miklir fjármunir til með einhverjum undarlegum hætti í meðferð þessara galdramanna sem unnu þarna.
Peningarnir urðu til í bönkunum. Það bara hlaut að vera.
Við trúðum að peningarnir yrðu til úr engu.
Svo hrundi spilaborgin. Þetta reyndist loftbóla og peningarnir sem við héldum að væru til breyttust í skuldir. Skuldir sem við sauðsvartur almenningurinn berum einhvern veginn ábyrgð á.
Okkar prívat skuldir vaxa í verðbólgunni með verðtryggingunni eða í formi gengistryggðra lána. Þar til viðbótar hefur ríkið tekið yfir gríðarlegar skuldbindingar (Icesave), já og svo er það lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum. Svona mætti lengi telja.
Nú á að plata okkur aftur. Láta lánin okkar hverfa.
Framsóknarflokkurinn býður upp á 20% niðurfellingu lána. Tryggvi Þór Herbertsson talar af miklum fjálgleik einnig um þessa leið. Lilja Mósesdóttir býður betur, 4 milljóna króna niðurfelling til allra heimila.
Höfum við ekkert lært? Á aftur að láta okkur trúa því að peningar verði til úr engu?
Ég vil að okkur sé sagt satt, að við séum í svo djúpum að það séu ekki til töfralausnir.
Ég hafna alfarið stjórnmálamönnum sem taka þátt í svona yfirboðum og frábið mér slíkt lýðskrum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.