Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar

Hér kemur sálgreining leikmanns á manngerðum í íslensku samfélagi þessa dagana:

Ég tel að hér séu þrjár manngerðir: Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar.

Skúrkarnir eru þeir sem ekki eru með hreinan skjöld. Þar á ég ekki eingöngu við lögleysur, ekki síður það sem flokkast undir siðleysi. Bæði gerendur og þá sem staðið hafa aðgerðarlausir til hliðar vitandi hvað var í gangi.

Tortryggnisrófurnar eru þeir sem sjá eitthvað gruggugt í hverju horni og eru tilbúnir að trúa öllu misjöfnu og dæma jafnvel áður en rannsókn hefur farið fram.

Nytsömu sakleysingjarnir eru þeir sem trúa ekki að nokkuð misjafnt hafi farið fram. Vilja ekki grípa inn í nokkurt ferli áður en að sekt sé sönnuð.

Skúrkarnir eru auðvitað mestu skaðvaldarnir, tortryggnisrófurnar geta einnig valdið skaða ef þær ganga of langt.

En hlutur nytsömu sakleysingjanna hefur held ég verið stórlega vanmetinn. Í skjóli hrekkleysis þeirra hafa skúrkarnir komist upp með ýmislegt.

Bilið á milli nytsömu sakleysingjanna og skúrkanna minnkar stöðugt, það styttist í að sakleysingjarnir viljandi loka augunum og líta í hina áttina, vitandi innst inni að eitthvað misjafnt gangi á.

"Auðvitað verður okkur á mistök" hafa ráðamenn sagt um viðbrögð seinustu vikna. Með þessu hugarfari sigla þeir hraðbyri inn í skúrkaliðið, hafi þeir ekki þá þegar átt heima þar.

Venjulegur almenningur fellur líklega einnig undir nytsömu sakleysingjana. Með því að loka augunum fyrir því sem er að gera er stutt í að hann falli undir skúrkaskilgreininguna.

Því segi ég: Setjið upp efasemdargleraugun og byrjið að spyrja spurninga. Ekki bíða eftir að aðrir geri það. Dæmin um undarlegt siðferði eru of mörg til að við höfum efni á að bíða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Satt og rétt! Spyrja og spyrja og heimta skýr svör.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.12.2008 kl. 21:47

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Þeir svara ekki og ef þeir svara þá svara þeir út í hött. þessi ríkistjórn okkar er búin með sín tækifæri það tekur enginn mark á henni lengur hvorki Skúrkar Sakleysingjar Þeir verða sér meira og meira til skammar eftir því sem þeir gera meira og þar með sannast það sem Geir sagði að það væri best að gera ekki neitt.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 10.12.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband