Borgarafundir - Hver er tilgangur þeirra?

Ég hef mætt á tvo seinustu borgarafundi, báðir voru í Háskólabíó. Á þeim fyrri var ríkisstjórnin í pallborði, þeim síðari forsvarsmenn stéttafélaga og lífeyrissjóða.

Ég hef velt fyrir mér tilgangi þessara funda.

Er hann sá að almenningur fái útrás fyrir reiði sína og aðilar í pallborði standi frammi fyrir fólki sem fær útrás?

Eða, er tilgangurinn að upplýsa fólk?

Ef tilgangurinn er að fólk fái útrás fyrir reiði sína þá er tilganginum náð. Hvort svo útrásin beinist að réttum aðilum er svo annað mál. Sannarlega er það góðs viti að fjöldi fólks standi upp frá sjónvarpinu og sýni samfélagsmálefnum áhuga en gangrýnin verður að vera réttmæt og byggð á því að fólk hafi fengið upplýsingar.

Þar komum við að atriði númer tvö, eru fundirnir upplýsandi? Nei ekki á nokkurn hátt. Erindin sem flutt hafa verið hafa verið tilfinningaþrungin og nokkuð einhliða, ef undanskilin er framsaga Gylfa Arnbjörnssonar í gærkvöld.

Dæmin um að aðilar í pallborði hafi þurft að svara mörgum flóknum spurningum og haft til þess einungis tvær mínútur eru of mörg. Það getur ekki verið tilgangurinn að upplýsa fólk ef ekki er gefinn meiri tími til að svara, lágmarkið væri tvær mínútur á hvert svar, en ekki tvær mínútur á hvern svaranda.

Viðskiptaráðherra fékk í gær vel orðaða spurningu um ábyrgð. Ráðherra byrjaði á að svara annarri spurningu sem hann fékk en þegar hann var rétt byrjaður á spurningunni um ábyrgð var tíminn búinn og henni var aldrei svarað. Ég hefði viljað heyra svarið.

Fundargestir á Borgarafundinum í gærkvöld virtust hafa þörf fyrir að sýna forsvarsmönnum stéttafélaganna andúð sína, eins og atburðir liðinna vikna væru á einhvern hátt á þeirra ábyrgð.

Mín upplifun af starfi innan stéttafélags og eins það sem ég hef séð til annarra félaga, er ekki að þau hafi sofið á verðinum. Hinn almenni félagsmaður hefur hins vegar gert það. Það er reynsla flestra stéttafélaga að stéttavitund fólks nú seinustu ár hafi verið af afar skornum skammti. Vilji til að fylgjast með því sem er að gerast hjá félögunum hefur verið afar daufur. Forysta félaganna er aldrei sterkari en fólkið sem stendur á bak við þau.

Á fundum stéttafélaga er oft verið að upplýsa fólk um réttindi þess og kjör. Einnig er reynt að fá fram vilja félagsmanna á áherslur í kjarasamningum. Mæting á þessa fundi er yfirleitt dræm. Ég hef setið í stjórn stéttafélags, mætt á fundi félagsins og séð þetta með eigin augum.  

Þess ber þó að geta að engin hreyfing er yfir gagnrýni hafin, það er brýn nauðsyn á að veita forystu stéttafélaga aðhald, á öllum tímum, ekki bara þegar kreppa steðjar að. Því verður fólk að mæta á fundi sinna félaga og fá þar réttar upplýsingar og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það er hins vegar miklu minna spennandi að fá upplýsingar um veruleikann en að fá útrás fyrir tilfinningar sínar.

Þess vegna er mæting á borgarafundina miklu betri en mæting á fundi stéttafélaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ágæti Spámaður,

Sko, þetta á ekki að vera hallelúja samkoma

Þess vegna gagnrýni ég að erindin skuli vera einhliða, við þurfum að fá upplýsingar frá öllum hliðum ef þessir fundir eiga að ná marmiði sínu.

tilgangurinn er að spyrja ráðamenn milliliðalaust

Þess vegna verða þeir sem eru í pallborði að fá eðlilegan tíma til að svara hverri spurningu. Annars fá fyrirspyrjendur ekki svar við eðlilegum spurningum sínum.

Um þessi atriði snýst gagnrýni mín meðal annars.

Kristjana Bjarnadóttir, 9.12.2008 kl. 18:17

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Frá hvaða öllum hliðum, ég skil ekki alveg?

María Kristjánsdóttir, 9.12.2008 kl. 19:29

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæl María

Hvert mál hefur fleiri en eina hlið, eðlilegt að fleiri en ein komi fram. Einhliða umræða er ekki upplýsandi. Frummælendur hafa flestir verið gagnrýnendur, það er eðlilegt að slík sjónarmið komi fram, það er hins vegar jafneðlilegt að gagnstæð sjónarmið komist einnig að.

Ef umræðuefnið er hvort það eigi að kjósa strax er jafneðlilegt að þeir sem það vilja komi sjónarmiðum sínum á framfæri og að þeir sem telja það ótímabært komi sínum á framfæri.

Þetta á ekki að vera halelújasamkoma.

Kristjana Bjarnadóttir, 9.12.2008 kl. 20:34

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Sæl Kristjana - Ég lít svo á að þetta séu okkar fundir,borgaranna,  sem sækja þá  - við komum þar til þess að ræða okkar mál, sýna  okkar hliðar á  málinu og láta ráðamenn sem hvorki hafa hlustað né svarað - hlusta og svara.  Þetta er bara eitt form funda. Það má hugsa sér hundrað önnur form- en það þýðingarmesta við þessa fundi þykir mér að þar koma fram raddir sem annars heyrast hvergi og fólk verður sýnilegt sem aldrei hefur sést áður. Ég held að þetta  geti verið þýðingarmikið fyrsta stig á einhvers konar víðtækri  lýðræðislegri samræðu sem annars er einokuð af alþingismönnum, fjölmiðlamönnum og sérfræðingum.

María Kristjánsdóttir, 9.12.2008 kl. 22:11

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú hefur verið heppin með stéttarfélag Kristjana.  Ég var fyrir margt löngu í stjórn verkalýðsfélags, ég lagði það til að gefin yrði út bæklingur um réttindi og skyldur félagsmanna......og fékk þau viðbrögð að þá kæmi allur helv. lýðurinn og rukkaði um styrki sem þeir ættu rétt á

Hjá þessu verkalýðsfélagi var t.d. hægt að fá fæðingarstyrk, sem samsvaraði verði á einum barnavagni og styrk vegna útfarar látins félagsmanns.

Launþegaforystan hefur sýnt að hún er komin langt frá umbjóðendum sínum í kjörum....það sýndu svörin á borgarafundinum....og veit ég samt að formaður míns stéttarfélags hagræddi sannleikanum, þegar hún sagði að hennar kjör bæru bundin við laun sjúkraliða

Mér finnst þessir borgarafundir góðir.

Sigrún Jónsdóttir, 10.12.2008 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband