1.12.2008 | 21:27
Gandhi og friðsamleg mótmæli
Í gærkvöld horfði fjölskyldan saman á myndina um Gandhi. Líklega eru 20 ár síðan ég sá þessa mynd og var þetta mjög góð upprifjun. Þessa mynd ætti eitthvað kvikmyndahúsið að sýna þessa dagana, án endurgjalds.
Gandhi barðist fyrir sjálfstæði Indlands. Indverjar voru örsnauðir á þessum tíma undir stjórn Breta. Grunnhugmynd Gandhis var að baráttan færi fram án ofbeldis. Það þýddi samt ekki að lagabókstaf væri fylgt. Gandhi ögraði yfirvöldum á hárfínan hátt. Ef til handtöku eða ofbeldis lögreglu kom streittust mótmælendur ekki á móti. Ekki kom til greina að greiða sektir eða tryggingar til að sleppa við fangavist.
Eftir að ég horfði á myndina þá varð mér betur og betur ljóst hversu mikil snilld gjörningurinn með Bónusfánann á Alþingishúsinu var. Hann var án ofbeldis, án skemmda á nokkrum hlut en ótrúlega táknrænn.
Ef þeir sem heimsóttu Seðlabankann í dag hefðu sleppt málningunni þá hefði þetta náðst þar líka. Að setjast friðsamlega og syngja í anddyrinu er algerlega í þessum anda.
Þúsundir Íslendinga hafa á friðsamlegan hátt sýnt hug sinn í verki með því að mæta á hverjum laugardegi á útifundi á Austurvelli. Það er ekki hægt að merkja að ráðamenn hafi tekið eftir þessari ólgu.
Friðsamleg mótmæli sem ganga skrefinu lengra eru augljóslega í farvatninu. Þar á ég við að lögum og reglum sé ögrað á friðsaman hátt. Þetta er stundum kallað borgaraleg óhlýðni.
Við sitjum uppi með algerlega óhæfan seðlabankastjóra sem ríkistjórn Íslands heldur hlífiskildi yfir. Lögin sem samþykkt voru í skyndi fyrir seinustu helgi færa honum skelfilega mikil völd, nóg voru þau fyrir.
Ég vil þennan seðlabankastjóra burt úr Seðlabankanum og eftir að hafa horft á myndina um Gandhi er ég fylgjandi aðgerðum sem ganga skrefinu lengra en mótmælin hafa gert hingað til.
Að draga Bónusfána að hún á Alþingishúsinu og friðsamleg seta í anddyri Seðlabankans heyrir undir þetta.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:35 | Facebook
Athugasemdir
Ég er líka tilbúin að ganga skrefinu lengra og taka þátt í "borgaralegri óhlýðni"
Sigrún Jónsdóttir, 1.12.2008 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.