Fréttamat fréttastofu RUV

Ég lagði það á mig seint í gærkvöld að horfa á norska þáttinn Brennpunkt á norsku sjónvarpsstöðinni NRK1. Þennan þátt getið þið horft á netinu með því að smella á linkinn. Tekið skal fram að skandinavísk tungumál eru ekki mín besta hlið en töluvert af þættinum fór fram á ensku.

Það sem mér fannst markverðast í þessum þætti var saga Jóns Sullenberger af því þegar Jón Ásgeir bauð helstu stórjöxlum í íslenska bankageiranum á lystisnekkju í Flórida, hét þetta árshátíð aðstoðarforstjóra. Reyndar er það Tryggvi Jónsson sem sendir tölvupóstinn með boðinu, eftir því sem ég best veit er sá dæmdur maður í dag og enn í vinnu hjá Nýja Landsbankanum. Ég vona að ég hafi þar rangt fyrir mér. Skv tölvupóstinum (sjá hér og ég hvet ykkur til að skoða athugið einnig hverjir fá póstinn) var ekki ætlast til að um stúkuferð væri að ræða, templarar voru beðnir um að vera heima og reita arfa. Strax í boðinu er gefið út að nú skyldi svallað. Skv upplýsingum Jóns Sullenberger voru á gestalistanum 13 menn, þar á meðal allir helstu eigendur og stjórnendur bankanna þriggja þegar þeir hrundu í seinasta mánuði.

Miðað við gestalistann, er auðvelt að gera sér í hugarlund að þarna hafi grunnur verið lagður að samráði eða "samvinnu" í bankageiranum. Planið var að komast inn í bankana og ná þar aðgengi að peningum. Hringekjunni hvernig bankarnir (sem voru að stórum hluta í eign þessara manna) skiptust á að lána sápukúlufyrirtækjum hvers annars, er lýst í þættinum. Það þurfti enga dularfulla fundi í Öskjuhlíðinni eins og í stóra grænmetissamráðsmálinu.

Það getur vel verið að fyrir einhverja hér á landi séu þetta engar fréttir. Þ.e. að þessir menn hafi drukkið og djammað saman reglulega og verið með mikla samvinnu. Mér fannst það fréttir og hafði ekki séð það fyrr. Vissulega bara vitnisburður eins manns um þessa ferð á snekkjuna í Miami en það er staðreynd að þeir stunduðu að lána hverjir öðrum, það hefur komið víðar fram og það vitnuðu fleiri en Jón um þetta í þættinum.

Mér brá því í morgun þegar ég hlustaði á fréttir RUV kl 8.00 í morgun. Þar var fjallað um þáttinn Brennpunkt. Það sem fréttamönnum RUV fannst helst  koma fram þar var að saksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sagðist ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að rannsaka efnahagsbrot og því þyrftu íslenskir fjárglæpamenn ekki að óttast afskipti lögreglu. Vissulega slæmt en þetta vissi ég og þurfti ekki norska sjónvarpsmenn til að segja mér þetta.

Fréttamenn RUV létu hins vegar alveg vera að segja okkur frá þessum nánu kynnum bankamannanna sem sagt var frá þarna í þættinum og því hvernig þeir skiptust á að lána hverjir öðrum háar upphæðir, jafnvel án annarra veða en bréfum í fyrirtækjunum sem þeir voru að lána.

Er það bara svona sjálfsagt að viðskipti fari fram á þennan hátt hér á landi að íslenskum fjölmiðlum þyki það ekki lengur fréttmætt?

Hér er ég að tala um RUV sem ég af öllum fjölmiðlum hef hingað til borið hvað mest traust til.

Þessi afgreiðsla RUV á þessu máli segir mér að ef við viljum fá að vita eitthvað er ekki nóg að láta íslenska fjölmiðla miðla því til okkar, við verðum því miður að ganga alla leið og fara frumheimildirnar til að fá að vita eitthvað.

Að mínu mati féll fréttastofa RUV á þessu prófi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sukkið og siðleysið er gengdarlaust. 

Anna Einarsdóttir, 26.11.2008 kl. 22:57

2 Smámynd: Solla Guðjóns

.

kNÚS

Solla Guðjóns, 28.11.2008 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband