Gagnrýnin hugsun

Fyrir rétt rúmu ári eða þann 23. okt í fyrra skrifaði ég bloggfærslu sem ég kallaði "Leyfið til að vera öðruvísi".

Ég mundi eftir þessari færslu í gær þegar ég velti fyrir mér mögulegum ástæðum þess að við erum komin í svona miklar efnahagslegar og ekki síður pólitískar eða hugmyndafræðilegar þrengingar sem raun ber vitni.

Hvernig stendur á því að heilt þjóðfélag gat rambað svona lengi blindandi?

Getur verið að ein af ástæðunum sé að hér hafi átt sér stað eins konar þöggun, að gagnrýnni hugsun hafi verið ýtt til hliðar?

Gagnrýnin hugsun hefur ekki átt upp á pallborðið í okkar samfélagi seinustu ár, rökræður eru alltof oft á tilfinningalegum nótum.

Unglingum er ekki kennt markvisst að gagnrýna þær auglýsingar sem á þeim dynja og læra að skilja á milli staðreynda og áróðurs.

Kirkjan kveður markvisst niður rök fólks utan kristinna trúfélaga til að hamla aðkomu kirkjunnar inn í skólastarf. Umræða um þetta byggist á tilfinningalegum rökum en ekki faglegum af hálfu kirkjunnar.

Umræðu um aðild Íslands að Evrópubandalaginu hefur markvisst verið haldið niðri og vitræn umræða ekki fengist því málið hefur ekki verið á dagskrá. Fyrir vikið veit hinn almenni borgari afar lítið hvað í aðild að ESB felst og hverju við mögulega værum að fórna með slíku.

Við vorum alveg hætt að gera athugasemdir við ótrúlega misskiptingu launa á Íslandi, þetta var bara svona.

Mótmæli á Íslandi þykja verulega hallærisleg, það væri líka alveg agalegt ef til okkar sæist á slíkum samkomum.

Svona mætti lengi telja.

Nú óskum við þess að við hefðum miklu fyrr gert athugasemdir, hvar voru fjölmiðlar, spyrjum við. En við sjálf spurðum ekki heldur. Okkur þótti bara alveg ágætt að láta ráðamennina um þetta, treystum þeim í blindni og gleymdum okkur í góðærinu.

Gleymdum að vera gagnrýnin.

Það er kominn tími til að vakna, fylgjast með og halda hverju öðru við efnið. Í því felst einnig að leyfa hverju öðru að hafa mismunandi skoðanir en jafnframt að gera kröfu um að geta rökstutt þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjáni Már Bjarnarson

Tékkaðu á þessari mynd, hugaropnari..!

http://video.google.com/videosearch?q=Zeitgeist+Add&emb=1&aq=f#q=Zeitgeist%20Addendum&emb=1

Og svo þessum hóp, tökum höndum saman, sýnum að ef við viljum fá einkverju breitt þá sé það möguleiki í stöðunnni. Nýtum okkur lýðræðið áður en það verður tekið frá okkur líka.

http://www.facebook.com/inbox/?ref=mb#/group.php?gid=29449719311

Kjáni Már Bjarnarson, 2.11.2008 kl. 22:30

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Satt og rétt - hvert einasta orð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 2.11.2008 kl. 23:32

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Stjórnmálamenn hér hafa verið uppteknir við að vera kaþólskari en páfinn í að innleiða ESB löggjöf. Dæmi um þetta má finna víðar t.d. í jarðalögum sem ganga mun lengra í "frelsi" en norsk jarðalög og er Noregur þó líka aðili að EES. Nýjast er svo matvælafrumvarpið þar sem engan bilbug er að merkja á ráðherra um að leyfa að hráar ófrosnar kjötvörur frá ESB komi á íslenskan markað.

Erna Bjarnadóttir, 3.11.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband