Áhugaverður norskur umræðuþáttur

Hér er slóð í umræðuþátt í norska sjónvarpinu NRK1 um efnahagsástandið á Íslandi:

http://www1.nrk.no/nett-tv/klipp/427413

Ég get nú ekki sagt að ég hafi skilið allt sem þarna fór fram en það sem ég skildi var áhugavert. Fremst er viðtal við Stoltenberg forsætisráðherra Noregs í u.þ.b. 10 mín en síðan er ca 20 mín umræðuþáttur.

Greining þátttakenda var nú ekki ósvipuð greiningar mannsins á götunni á Íslandi: Bankaútrásin var eitt risastórt casino, almenningur notfærði sér ódýr lán og lifði um efni fram, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld brugðust. Síðast en ekki síst töldu þeir að hér væri algerlega vanhæfur seðlabankastjóri sem hefði brugðist á öllum stigum málsins.

Hljómar allt kunnuglega. Við ætlum samt ekkert að hrófla við þessum seðlabankastjóra. Flokkurinn gæti klofnað.

Það sem mér fannst áhugaverðast í þættinum var hve góðmennskan lýsti af þátttakendum. Einlægur vilji Norðmannanna til að aðstoða okkur þrátt fyrir að við værum búin að koma okkur í þessi vandræði með óráðsíu og fyrirhyggjuleysi. Þeir voru eins og ábyrgt foreldri gagnvart unglingi sem er fluttur rænulaus heim eftir glórulaust fyllerí á útihátíð. Það þarf að tala góðlega yfir hausamótunum á honum, ekki of reiðilega því unglingurinn veit best sjálfur hve kjánalega hann hagaði sér. Síðan þarf að hlúa vel að honum og hjálpa til að halda lífinu áfram þannig að þetta gerist ekki aftur.

Óskaplega hlýnaði mér um hjartaræturnar við að horfa á alla þessa góðlegu Norðmenn sem vildu okkur hið besta um leið og þeir bentu góðlega á hversu kjánalega væri komið fyrir okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og konurnar sópa út eftir sukkið. Norðmenn eiga líka mikilla hagsmuna að gæta enda liggja hafsvæði landanna saman og þeir hafa sjálfsagt miklar áhyggjur af vaxandi áhrifum rússa hér.

Ásdís (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 10:08

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Jamm og ef við bönkum upp á í ESB fer nú að kólna undir Evrópska efnahagssvæðinu.... og þeir vilja jú líka halda í það

Erna Bjarnadóttir, 28.10.2008 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband