Viðskiptafélagar í veiðiferð - Trimmklúbbur í fjallgöngu

Í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 var forsætisráðherra í viðtali hjá Svanhildi Hólm. Svanhildur má eiga það að hún stóð sig bara vel, þjarmaði ákveðið en kurteislega að herranum sem átti satt best að segja ekki mörg svör við sumum spurningunum.

Svanhildur spurði í lokin meðal annars um laxveiði heilbrigðisráðherra en það er mál sem mér finnst fjölmiðlar hafa forðast eins og heita kartöflu. Geir svaraði því til að Guðlaugur hefði borgað sjálfur og þó við fengjum enga staðfestingu á því þá yrðum við bara að ráða hverju við trúum.

Ég hef alveg ákveðið það fyrir mína parta. Setjum upp smá dæmisögu. Segjum svo að þeir kumpánar hefðu farið í ferðina með mér og félögum mínum í TKS á Hrútfjallstinda í fyrravor. Segjum að þeir félagar séu félagar í Trimmklúbbnum og Haukur hefði meira að segja af alkunnum rausnarskap boðið okkur hinum líka enda vinskapur með öllum félögunum í klúbbnum sérdeilis mikill. Haukur gamall hlaupafélagi og vildi gera vel við vini sína. Þarna voru semsagt Guðlaugur, Vilhjálmur, Björn Ingi, Haukur, og svo fjármálastjóri Baugs Stefán Hilmar Stefánsson sem reyndar er ekki félagi í TKS en kom með vegna mikils vinskaps við Hauk. Já og svo við hin.

Semsagt nú snýr dæmið þannig að aðalleikararnir í REI málinu fóru í gönguferð á Hrútfjallstinda ásamt vinum sínum í TKS. Haukur borgaði brúsann. Finnst einhverjum þetta siðlaust?

Nei mér finnst þetta dæmi ekki siðlaust en afar fjarstæðukennt. Munurinn á þessu dæmi og veiðiferðinni er ekki hver borgaði hverjum eða hvað ferðin kostaði. Munurinn felst í að þarna var fleira fólk með. Fólk sem hvergi kom við sögu í REI málinu. Þá trúir almenningur að hópur vina sé á ferð.

Þegar vinahópurinn samanstendur af aðalleikurum í viðskiptum sem ekki allir eru sammála um að eðlilega hafi verið staðið að, þá fyllumst við grunsemdum.

Í mínum huga skiptir þessi kvittun sem Guðlaugur vill ekki framvísa ekki máli, aðalleikararnir fóru saman að veiða, þarna voru engir utanaðkomandi og það er nógu óeðlilegt til að ég fyllist grunsemdum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband