14.8.2008 | 23:51
Á milli ættarmóta
Um seinustu helgi hittust afkomendur Laufeyjar Valgeirsdóttur og Bjarna Jónssonar sem lengi bjuggu í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Þau eru afi minn og amma í móðurætt.
Á svona ættarmótum er dýrmætt að hitta ættingjana og endurnýja kynni við frændfólkið. Það er nú einu sinni þannig að ættin hittist ekki í barnaafmælum eða sunnudagskaffiboðum, til þess erum við alltof mörg.
Það sem er ekki síður mikilvægt á svona ættarmótum er að heyra frásagnir frá lífinu sem forfeður okkar lifðu. Að reyna að skilja hversu hörð lífsbaráttan var. Systkinin brugðu upp afar áhrifamikilli mynd af ömmu með lestri upp úr sendibréfum sem hún hafði skrifað. Sú mynd verður ekki endursögð hér en brugðið var ljósi á æðrulausa dugnaðarkonu sem vann hörðum höndum allt sitt líf með það að leiðarljósi að koma börnum sínum áfram í lífinu. Það er í raun stórmerkilegt að þrátt fyrir mikil veikindi afa og vafalaust lítil fjárráð hafi 5 af 10 systkinum tekið stúdentspróf og lokið háskólanámi.
Sendibréfin sem voru lesin voru mjög vel skrifuð, höfum í huga að amma var algerlega ómenntuð og líklega hafa sendibréf verið einu skiptin sem hún stakk niður penna.
Á ættarmótinu voru sýndar gamlar myndir sem skannaðar höfðu verið inn og þeim var einnig dreift. Þetta var frábært framtak. Ég ætla að nota mér þetta og birta hér gamla mynd af afa og ömmu.
Um næstu helgi mun ég hitta afkomendur Kristjönu Bjarnadóttur og Alexander Guðbjartssonar sem lengi bjuggu að Stakkhamri á Snæfellsnesi en þau eru hins vegar afi minn og amma í föðurætt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Já gaman að sendibréfunum, held reyndar að það sé stórmerkilegt hve dugleg amma var við að skrifast á við fólk, börnin sín, manninn sinn og alla tíð skrifaðist hún á við Eyjólf bróður sinn.
Erna Bjarnadóttir, 15.8.2008 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.