6.8.2008 | 22:44
Fossaganga
Mér hefur tekist í sumar að aftengja mig umheiminum. Ég hef farið í þrjár gönguferðir sem hafa verið 3ja - 6 daga langar. Líkamlega tekur þetta stundum á en andlega er þetta alger endurnæring.
Um verslunarmannahelgina fórum við Darri ásamt Rán dóttur okkar og vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í göngu upp með Djúpá í Fljótshverfi. Markmiðið var að skoða fossa sem leynast efst í Djúpárdal.
Ég læt myndirnar tala sínu máli.
Fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgi getur litið svona út ef áhugi er fyrir hendi. Það skal tekið fram að við gengum samtals ca 30-35km með allan útbúnað á bakinu.
Þetta er "Fossinn í Djúpá" af sumum nefndur Bassi. Nokkuð tignarlegur, flúðirnar þarna fyrir neðan eru einnig kraftmiklar og heillandi.
Og enn fleiri fossar. Áin sem þessir fossar eru í, rennur í Djúpá rétt neðan við Bassa. Upp með þessari á er ævintýraland fossa. Hraunið er ógreiðfært en vel þess virði að fikra sig upp með ánni til að skoða nokkra fossa.
Eins og kannski sumar myndirnar bera með sér þá hrepptum við þoku og súld. Á sunnudaginn voru greidd atkvæði um að taka struns í bílana eða eiga styttri dagleið og tjalda aftur blautum tjöldum í suddanum. Niðurstaðan var að dvelja eina nótt í viðbót og þá fundum við enn fleiri fossa. Þessi var með góðum hyl sem unglingarnir nýttu sér þar til tennurnar glömruðu. Það er engin lygi að þeim kólnaði nokkuð. Heitt kakó og hlýr svefnpoki var því vel þeginn eftir baðið. Það sá enginn eftir því að halda fossaleitinni áfram því við fundum nokkra fallega til viðbótar.
Fyrir þá sem vilja skoða fleiri fossamyndir þá má sjá þær hér.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ferðamenn að mínu skapi. Flottar myndir.
Páll Ásgeir (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.