30.6.2008 | 21:31
Ég er hugsi
Að mínu mati hafa fjölmiðlar fjallað ótrúlega lítið um meint innherjaviðskipti Landsbankans með íbúðabréf áður en tilkynnt var um aðgerðir stjórnvalda þann 19. júní sl. Sjónvarpið var með stutta frétt um þetta á föstudagskvöld en Stöð 2 fannst þetta ekki fréttnæmt þann daginn. Jú bæði fréttablaðið og 24 stundir minntust á þetta í laugardagsblaðinu, rétt er það.
Ég lít hins vegar á að þetta sé stórmál. Nú er einhver rannsókn í gangi og á meðan þá gleymum við alveg um hvað málið snerist.
Var nauðsynlegt að forsætisráðherra kallaði bankastjóra Landsbankans til sín á sérstakan fund til að upplýsa hann um þetta áður en fjölmiðlar fengu þessar upplýsingar, hvaða nauðsyn kallaði á það? Ég er bara forvitin.
Hvaða nauðsyn var á því að viðkomandi bankastjóri sendi öðrum aðilum í fjármálaheiminum þessar upplýsingar fyrir lokun markaða þennan dag? Mér finnst að það þurfi að upplýsa okkur sauðsvartan almenning um þetta.
Fullyrt hefur verið að viðskipti Landsbankans með íbúðabréf seinasta klukkutíma fyrir lokun markaða hafi verið margföld miðað við hina bankana. Tilviljun? Ekki veit ég hvort svona gríðarlegar sveiflur geti verið í þessum viðskiptum, ef það er ekki venjan finnst mér ekki hægt annað en fyllast grunsemdum.
Nei, bankarnir hafa glatað trausti almennings og ég krefst þess að þessu máli sé haldið gangandi.
Ofurlaun í fjármálakerfinu hafa einmitt verið skýrð með því að þessu fylgi mikil ábyrgð og áhætta, menn verða þá að gangast við bæði ábyrgðinni og áhættunni og taka því ef þeim verði fótaskortur á svellinu.
Var samkomulag í ríkisstjórninni um að gefa þessar upplýsingar til ofangreindra aðila? Ef svo þá vil ég vita hvaða nauðsyn bar til að gefa þær út. Ef ekki þá skuldar forsætisráðherra okkur skýringar, einhvers staðar hefði einhver þurft að segja af sér.
Ég hef fengið mig fullsadda af sjálftökuliðinu og misnotkun valds. Fjölmiðlar standa sig illa í að veita nauðsynlegt aðhald. Við almenningur verðum að halda vöku okkar og krefjast skýringa.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Maður er orðinn svo vanur spillingu á Íslandinu "góða" að það teldist eiginlega til tíðinda ef vikan liði, án frétta af einhverju slíku. Og einhverra hluta vegna er nánast aldrei kafað ofan í málin og einhver látinn sæta ábyrgð. Fuss !
Anna Einarsdóttir, 30.6.2008 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.