Samræmd próf í náttúrufræði

Þessa færslu birti ég nú á laugardaginn en sé hér ágætt tækifæri til að koma þessu fyrir augu fleiri lesenda með því að tengja við þessa frétt. Tel það vera þess virði að vekja athygli á gerð þessara prófa.

Ég hef undanfarna daga aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk og hef ég því skoðað próf sem lögð hafa verið fyrir nú undanfarin ár. Þar kemur margt undarlegt fram. Mig langar að tína fram nokkrar einkennilegar prófspurningar:

Árið 2004:

Blóðflokkur einstaklings ræðst af:

a) Genum á Y-litningi eingöngu
b) Margföldum genasamsætum
c) Stökkbreytingu tveggja gena
d) Þremur hliðstæðum litningum

Rétt svar er b. Ég lagði þessa spurningu fyrir nokkra vinnufélaga mína (í Blóðbankanum) en þeir ýmist stóðu á gati eða gátu svarað rétt með því að nota útilokunaraðferðina. Margfaldar genasamsætur er orðskrípi sem ég hef ekki heyrt notað í þessu samhengi nema í kennslubók grunnskóla í erfðafræði. Hvar er tengingin við raunveruleikann? Hver er tilgangurinn með að prófa börn úr hugtökum sem hvergi eru notuð?

Árið 2004:

Í hvaða eftirfarandi ferli á sér stað efnahvarf:

a) Gos á vökvaformi frýs og myndar klaka
b) Ísmolar í gosi bráðna og mynda vatn
c) Salt leysist upp í hreinu vatni
d) Vatnsgufa þéttist í vatnsdropa utan á glasi

Skv svörum er rétt svar c. Vandamálið er að þetta er ekki efnahvarf. Þetta er leysing. Ekkert af möguleikunum sem gefnir eru upp eru efnahvörf, ekki einu sinni skv kennslubókinni.

Árið 2005 sjúkrapróf:

Hvað af eftirfarandi er hluti litnings:

a) Litningur
b) Gen
c) DNA
d) Okfruma
e) Líkamsfruma

Rétt skv svörum er b. Ég er líffræðingur með framhaldsmenntun í erfðafræði. Ég veit ekki betur en DNA sé staðsett í litningum. Kannski hef ég misskilið eitthvað!

Árið 2006:

Það sem einkennir frumefni er að það

a) er ekki hægt að kljúfa í önnur efni
b) finnst úti í náttúrunni
c) getur myndað efnasambönd
d) hefur breytilegan róteindafjölda

Rétt svar er a. Gott ef ég lærði þetta ekki svona á sínum tíma. Vandamálið er að í námsefninu er börnunum kennt um geislavirkni og kjarnahvörf. Þar eru frumefnum breytt í önnur efni. Hvar er samræmi milli þess námsefnis sem prófað úr og prófsspurninganna?

Árið 2006 sjúkrapróf:

Þegar tilraunaglas er hitað er mikilvægast að

a) hafa glasið yfir mesta hitanum
b) halda um mitt glasið með töng
c) loka glasinu með korktappa
d) vísa opinu frá fólkinu í kring

Rétt svar er d. Þetta er það sem ég kalla alger bullspurning. Þarna er verið að skerpa á öryggisatriðum en það hlýtur líka að vera mikilvægt að halda glasinu yfir hitanum og nota töng. Við gætum eins vel spurt: Hvað er mikilvægast þegar þú ætlar að elda mat: a) setja matinn í pott, b) setja pottinn á eldavélina, c) kveikja undir eldavélinni, d) kveikja á útvarpinu.

Árið 2007 sjúkrapróf:

Við rýriskiptingu verða til

a) fjórar frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman.
b) fjórar frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
c) tvær frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman
d) tvær frumur með jafn marga litninga og móðurfruman

Rétt svar er a. Í svörunum sem gefin eru út er rétt svar c. Hvort um er að ræða prentvillu eða það að sá sem samdi prófið veit ekki betur, veit ég ekki. Engu að síður ekki gott að námsmatsstofnun gefi út röng svör.

Árið 2007 sjúkrapróf:

Bíll ekur eftir beinum vegi á jöfnum hraða. Þá er:

a) enginn núningskraftur sem verkar á hann
b) krafturinn frá vélinni jafnstór heildarnúningskraftinum
c) lítil loftmótstaða á hann því hraðinn er jafn
d) núningskraftur frá veginum jafn loftmótstöðunni

Rétt svar er b. Börnin læra um ýmsa gerðir krafta. Þar á meðal er fjallað um loftmótstöðu. Ég bara spyr, vegur hún ekkert?

Ég læt þetta duga af prófspurningum í náttúrufræði. Þær eru fleiri sem ég hef athugasemdir við, tók bara þær sem mér fannst bera af í vitleysu. 

Ég hef margar athugasemdir við námsefni í Náttúrufræði til samræmds prófs í grunnskóla. Það er efni í annan pistil. Prófspurningar sem þessar bera þess vitni að ekki sé nógu vel vandað til prófagerðar. Slíkt er alvarlegt mál því mörg börnin eru metnaðarfull og eiga fullan rétt á vönduðum vinnubrögðum.


mbl.is Samræmdu prófin hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð Örn Þórisson

Ég er nú sjálfur að taka 10. bekkjar samræmduprófin. Það er daglegt brauð hjá okkur að í prófi koma spurningar sem margir jafngildir möguleikar koma til greina og við þurfum einfaldlega að giska. Svo koma kennararnir og segja að eitt svarið sé einfaldlega réttara en annað, þótt þau séu öll rétt. Rétt eins og að það sé mikilvægara að beina ekki opinu að fólkinu í kring er mikilvægara en að halda því ekki sem heitustu, sem er reyndar rétt í þessu tilfelli. Vel er hægt að leysa úr spurningunni sem þú vitnaðir í áðan með tilraunaglasið.

Davíð Örn Þórisson, 29.4.2008 kl. 16:19

2 Smámynd: Solla Guðjóns

Ég veit til að kennarar hafa hvartað undan því að svarið sem er rétt á prófinu standi einfaldlega ekki í bókunum sem 10.er að læra.

Ég fór yfir nokkur samræmd próf fyrir 4.bekk og eins 6.bekk í stærðfræði fyrir nokkrum árum.Þar fann ég dæmi f/4.bekk sem þau voru ekki farin að læra og spurði hverju þetta sætti.Svarið var ...það er verið að finna út snillingana.....þetta fannst mér mjög óréttlátt gagnvart krökkunum.

Flott hjá þér að benda á þetta.

Solla Guðjóns, 29.4.2008 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband