13.2.2008 | 20:28
Blogg um blogg
Það hlýtur að vera gúrkutíð þegar maður er farin að blogga um blogg. Svona eins og þegar fjölmiðlamenn taka viðtöl hver við annan.
Kveikjan að þessu hjá mér er spurningin sem ég hef haft á bak við eyrað í nokkra mánuði: "Af hverju er ég að þessu?"
Við því er ekkert einhlýtt svar. Nokkur atriði eru þó ofarlega:
- Ég hef frá því ég var í Háskólanum verið frekar pólitískt þenkjandi. Þá lenti ég í umræðum við tvo Vökudrengi sem leiddu til þess að ég áttaði mig á því um hvað pólitík snýst. Ég sagði frá þessu fyrr í vetur. Málefni líðandi stundar hafa æ síðan verið mér hugleikin og hef ég hrellt vinnufélaga mína með skoðunum mínum með mismiklum vinsældum. Bloggið gefur mér tækifæri á einræðum sem einungis þeir lesa sem vilja og hafa áhuga á. Ég hef kallað þetta yfirfall á skoðunum mínum. Meðan ég hef gaman af þessu, þá held ég áfram. Ég tel að það sé mikilvægt að mynda sér skoðanir og rökstyðja þær en samtímis að vera tilbúinn til að hlusta á gagnrök og endurskoða afstöðu sína í ljósi þeirra. Tjáningarfrelsið er dýrmætt og einnig tel ég mikilvægt að vera ekki hræddur við að hafa skoðanir og viðra þær.
- Ég fór snemma að hripa niður minningar úr æsku hér á blogginu. Ég hef áttað mig á því að frá þeim tíma hefur þjóðfélagið breyst gríðarlega. Ég ólst upp i sveit, fæddist áður en rafmagnið kom, sveitasíminn þjónaði fólkinu, börnin voru í heimavistaskóla og svona mætti lengi telja. Þessar minningar eru partur af þjóðfélagsgerð sem er liðin. Það er mikilvægt að þær týnist ekki, heldur lifi. Það er miklu skemmtilegra að birta þetta jafnóðum og ég hripa þetta niður og bloggið er kjörinn vettvangur fyrir það. Ég á ekki endalausar minningar en ég er alls ekki búin.
- Til að blanda þessum minningarbrotum hef ég jafnframt birt hrakfallasögur af sjálfri mér. Annað hvort er ég hinn mesti hrakfallabálkur eða bara minnug á svona atvik. Hvað um það, ég hef aldrei verið viðkvæm fyrir að gera grín að sjálfri mér. Ég er ekki búin með þessar sögur heldur.
- Það sem klárlega hefur haldið mér við efnið eru viðbrögð lesenda. Ég hélt í upphafi að mér væri alveg sama hvort einhver læsi þetta en mjög snemma fann ég að athugasemdirnar héldu mér við efnið. Hér kemur inn fólk sem ég hef aldrei hitt og kommenterar reglulega. Það er mjög skemmtilegt og suma finnst mér ég orðið þekkja. Vinir og ættingjar sem ég er í samskiptum við utan bloggheima láta einnig vita af sér og verða samskipti við þetta fólk lifandi og óneitanlega finnst mér þeir nær mér en þeir væru án bloggsins. Í seinasta hópnum er fólk sem ég þekkti sem barn fyrir vestan og hef lítil samskipti átt við síðan. Mér hlýnar alltaf sérstaklega um hjartaræturnar þegar þessi hópur gerir vart við sig.
Bloggið er að mínu viti skemmtilegur miðill. Moggabloggið er opið, auðveldar skoðanaskipti og rekjanleiki milli bloggara er mikill. Það er auðvelt að finna skrif um þau mál sem maður hefur áhuga fyrir.
Ég er engan vegin hætt, meðan ég hef gaman af þessu held ég áfram. Ég þakka þeim sem nenna að lesa fyrir þolinmæðina.
Athugasemdir
Það þarf enga þolinmæði til að lesa bloggið þitt. Er sammála þessum pistli... það er miklu skemmtilegra að blogga en ég fyrirfram hélt.
Anna Einarsdóttir, 13.2.2008 kl. 21:07
Mér finnst alltaf gaman að lesa bloggið þitt og tek undir með Önnu - það þarf sko alls enga þolinmæði til þess. En ég er ekki nógu dugleg við að skrifa athugasemdir, geymi það of lengi og gleymi því svo.
Ég ætlaði að skrifa athugasemd við búálfafærsluna þína en það fórst fyrir. Þessir stríðnispúkar eru alltaf að gera mér grikki!
Lára Hanna Einarsdóttir, 13.2.2008 kl. 21:12
Kíki reglulega hér inn, og hef sérstaklega gaman af færslum frá því í "gamla daga"
Kveðja úr Staðarsveitinni
Bryndís (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 10:01
Mér finnst afskaplega gaman að lesa allt sem þú skrifar, hef lúmskt gaman af hrakfallabálkssögunum og er alltaf að bíða eftir einni þú veist hverri
Takk fyrir síðast, endurtökum leikinn með hækkandi sól
Bylgja (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 13:20
Alltaf gaman þegar ég man eftir að kíkja á bloggið Kristjana, bæði að lesa það sem er efst á baugi og ekki síður endurminningarnar . Áfram með smjörið, kv. Villa
Vilborg (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 14:18
Eins og eg sagdi einhverntima a blogginu mina tha eykur thad hamingju fullordinna ad skrifa og tala um that sem veldur theim gledi. Thetta er bara gaman, kvedjur af donskum dogum i Køben.
Erna Bjarnadóttir, 15.2.2008 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.