4.1.2008 | 19:20
Á skíðum skemmti ég mér
Fjarvera mín úr bloggheimum nú síðustu vikur á sér náttúrulegar skýringar. Þannig er að jólum og áramótum eyddi ég í Ítölsku Ölpunum ásamt eiginmanni og unglingunum mínum tveimur. Þetta var í fyrsta skiptið sem við förum í svona jólaferðalag en vonandi ekki það síðasta. Þetta var andlega og líkamlega endurnærandi en eins og dóttirin Rán sagði: "Þetta var frábær skíðaferð en við misstum af jólunum". Jólin verða svo sannarlega öðruvísi þegar dvalið er fjarri heimili og stórfjölskyldu.
Ég gæti lengi dundað mér við að segja ferðasöguna, læt það helsta flakka núna. Daginn fyrir ferðina fór Darri að kenna sér meins í baki, seinustu jólum eyddi hann að mestu í rúminu með brjósklos. Einkennin voru of svipuð til að ferðatilhlökkunin væri yfirþyrmandi. Ferðadagurinn rann upp, hann komst fram úr rúminu en göngulagið var höktandi. Við hin harðbönnuðum honum að snerta farangurinn og hann var því með þrjá sjálfskipaða burðarmenn.Vel á minnst burðarmenn. Farangur í svona ferð er allsérstakur. 20 kíló á mann er það sem maður má fara með án þess að vera með yfirvigt. Það gera 80 kíló fyrir 4ra manna fjölskyldu. Skíðabúnaðurinn okkar vóg 39 kíló, þá er ótalið úlpur, skíðabuxur, hjálmar og hanskar. Það var því lítið annað en nærföt til skiptanna sem plássið leyfði til viðbótar skíðadótinu.
Í flugstöðinni var fjárfest í viðbótarbirgðum af íbufeni. Einnig voltaren krem sem deyfir og slakar á vöðvum. Reyndist það hið mesta töfrakrem. Seta í flugvél er ekki það besta fyrir svona baksjúklinga. Flugið til Verona á Ítalíu tók 4 klst og eftir það tók við 3-4 klst rútuferð. Þegar á áfangastað kom leist mér ekkert á að Darri myndi yfirleitt nokkuð komast með okkur á skíði. Við leigðum íbúð með einu svefnherbergi og sófa í stofunni fyrir unglingana. Það er meðvitað hjá okkur að hafa standardinn ekki háan, með því getum við frekar farið oftar í svona ferðir. Eldunarbúnaður í svona íbúðum er mun slakari en íslenskur sumarbústaða standard. Þegar ég reyndi að sjóða spaghetti fyrsta kvöldið í pottum með kúptum botnum (það tók óratíma að ná upp suðu) og eiginmaðurinn höktandi um, þá leist mér nú ekki alveg á að þetta yrði það jólafrí sem okkur hafði dreymt um.Þorpið sem við dvöldum í heitir Selva og liggur við stórt fjall sem heitir Sella. Þarna eru margir aðrir skíðabæir tengdir saman með skíðabrekkum og skíðalyftum. Alls eru þarna um 1200 km af skíðabrekkum, algengt er að kláfarnir beri mann um 900-1000 m hækkun og lengd hverrar brekkur geta verið nokkrir kílómetrar. Sú lengsta er 15 km og þar er hækkunin 1900 m.
Fyrsti skíðadagurinn var Þorláksmessa og meðvitað völdum við svæði með mikið af bláum brekkum (þær eru auðveldastar). Höktandi fjölskyldufaðir komst varla á klósett og því þurfti ekki að eyða peningum í skíðapassa fyrir hann þann daginn.
Á Aðfangadag lagði ég enn af stað með unglingana mína, Darri geymdur heima, spýtukarl hefur ekkert að gera á skíði. Við kvöddum hann með þeim orðum að við ætluðum að hafa þetta rólegan dag, engin ástæða til að klára sig strax í upphafi. Við ákváðum að fara á skíðum hringinn í kringum fjallið Sella sem eru um 40 km. Í dagskrá ferðaskrifstofunnar var þessi ferð auglýst sem dagsferð fyrir vant skíðafólk. Við höfðum verið þarna áður og þekktum leiðina og vissum að þetta var frekar létt dagsferð. Þegar klukkan var rúmlega 10 vorum við rétt um hálfnuð, þá datt okkur í hug að fara tvo hringi, í sitt hvora áttina. Það gerðum við, en mikið gerði Darri grín að okkur fyrir að gera þetta daginn sem við ætluðum að hafa rólegan dag!
Aðfangadegi eyddi Darri í að teygja á stífum vöðvum, það virkaði og fékk hann lánaðan skíðapassa sonarins þegar við komum heim og prófaði nokkrar ferðir í barnalyftunni. Kannski gæti hann komið með okkur næsta dag......................
Örfáa jólapakka höfðum við leyft okkur að taka með. Vissum af skíðahönskum og útivistarúlpum í nokkrum pökkum og þeir voru með. Í matinn var hangikjöt sem ég tók með. Mikið hvað ég hef í gegnum tíðina gert grín að fólki sem flytur með sér hangikjöt til útlanda um jólin. Svo náttúrulega geri ég það sjálf. Gott á mig. Hvít sósa og kartöflur, ítalskar grænar baunir og rauðkál var meðlætið og minntu ítölsku baunirnar nægilega á þær frá Ora til að allir væru ánægðir. Verra með jólaölið. Ég fann dökkan bjór og fanta í búðinni og var því blandað saman, minnti nægjanlega á malt og appelsín til að hin sanna jólastemning næðist. Á dagskránni var að fara í miðnæturmessu en tvöfaldur hringur um fjallið Sella sagði til sín og orka til kirkjuferðar seint að kvöldi var ekki til staðar.
Í svona skíðaferðum margborgar sig að vakna snemma, vera komin í lyftuna þegar þær opna kl 08:30. Brautirnar eru bestar á morgnana, þegar líður á daginn verða þær svo grafnar og viða klaki undir svo það verður erfiðara að skíða þegar líður á daginn.
Á jóladag kom Darri með á skíði. Allar hreyfingar minntu mest á spýtukarl, það vissi ekki á gott í skíðabrekkum. Við tókum kláf upp í 2300m hæð og stefndum á svæði með nokkuð aflíðandi brekkum. Eftir nokkra metra datt spýtukarlinn, ég átti von á að þurfa að týna upp spýtnabrakið en hann reis upp og hélt áfram. Eftir þetta var leiðin bara upp á við hjá Darra, hann liðkaðist og telur nú að skíðaiðkun sé góð meðferð við bakverkjum, er að hugsa um að setja upp meðferðarúrræði.
Ég er nokkuð stolt af því að hafa við unglingunum á skíðum, þau eru bæði adrenalínfíklar, vilja fara hratt og ég tel mig fylgja þeim nokkuð vel. Ég er klárlega ekki mesta tískudrósin í brekkunum en ef keppnin er um hver keyrir niður flesta smákrakkana þá á ég möguleika í þeirri keppni. Rán finnst ég stundum keyra full harkalega, kvartar undan að móðir sín sé hinn mesti trukkur í brekkunum. Ég reyni að kenna skíðunum um, þau eru ansi hraðskreið. Fékk þau í jólagjöf fyrir tveimur árum, Darri bað um skíði fyrir eiginkonuna sem hefði gaman af að fara hratt. Niðurstaðan voru skíði sem notuð eru fyrir unglingalandsliðið. Ég er sátt við traustið sem hann sýndi mér með valinu en ekki alveg sannfærð um að standa undir því.
Einn daginn var ég orðinn lúinn á þessari keyrslu, fann þreytuna í fótunum og því voru bremsurnar ekki eins öflugar. Við ætluðum að renna okkur í kláf, taka eina svarta brekku (þær eru brattastar) og renna okkur beint á veitingastað í hádeginu. Á leiðinni í kláfinn í nokkuð flatri brekku var skyndilega eins og fótunum væri kippt undan mér, það var eins og skíðin flytu bara á snjónum, gripu ekki. Ég skall beint á hnakkann, sá svart. Fjölskyldan var á undan mér og tók ekki eftir þessu, hélt að ég hefði ákveðið að fara aðra leið á veitingastaðinn. Að mér kemur Þjóðverji, stumrar yfir mér en ég svara litlu, er algerlega rugluð. Þegar ég næ lágmarksáttum svara ég spurningum Þjóðverjans um hvort allt sé í lagi með: Ja, alles OK. Auðvitað var ekkert alles OK. Ég sá bara svarta bletti, brölti samt á fætur, renndi mér að kláfnum og fór ringluð upp. Þar biðu þau hin, mér leist nú ekki vel á svarta brekku í þessu ástandi en sem betur fer var þarna rauðleit hjáleið.
Eftir mat fórum við Rán stystu leið heim, tókum meira að segja kláf niður lengstu brekkuna. Mér veitti ekkert af smá hvíld, næsta dag var ég einnig með svima og höfuðverk, dópaði mig samt upp um hádegi og fór út á skíði. Þessir skíðapassar kosta svoddan djöfuldóm, það verður að nýta þá í botn!
Tveim dögum síðar var snjómugga og skyggni frekar lélegt. Við höfðum ákveðið að fara til Arabba en þar eru ógnarlangar svartar brekkur. Þegar við komum þangað varð mér á orði að það væri nú kannski ekki skynsamlegt að fara í þær í þessu skyggni, mishæðir í brekkunum sá maður bara alls ekki. Ég þótti bara vera hin mesta kerling og mótbárur mínar ekki teknar til greina, þetta var dagurinn sem mamman þótti ekki flott. Var bent á að ég gæti þá bara farið ein í aðrar brekkur. Ég lét mig hafa þessar svörtu þó svimi og hausverkur væru enn til staðar. Ekki minnkaði sviminn hátt í brekkunni með litlu skyggni, var stundum ekki alveg viss um hvað sneri upp og hvað niður. Tók einu sinni feil á upp og niður áttunum, rann aftur á bak, hrundi á rassinn, missti skíðin og rann niður á rassinum með hausinn á undan, náði einhvern veginn á endanum að stöðva mig. Huggulegur Ítali kom, hirti upp skíðin og rétti mér, séntilmenni það.
Ekki var ég ánægð með hvernig mér gekk að stjórna skíðunum þennan daginn. Gat það verið að ég væri svona máttlaus í fótunum? Var ekki líklegra að þau þyrftu brýningu? Þau hin voru öll búin að láta skerpa sínar græjur. Ég hætti snemma þennan dag eða um kl 15, lyfturnar voru opnar til 16.30. Fór með skíðin til brýningarmeistarans. Það var dásamlegur karl, talaði Tyrola þýsku. Bei diesem Fahre (í þessu færi) væri sko full ástæða til að skerpa á skíðunum. Seinni hluta dags var nefnilega töluverður klaki í brekkunum og ekkert vit í að vera á illa brýndum skíðum. Hann lét okkur ekki hafa neinn miða fyrir móttöku á skíðunum, daginn eftir sótti maður skíðin og þá vissi hann alveg hvaða skíði maður átti, verkstæðið var samt fullt af skíðum. Dásamlegur karl. Skíðin urðu sem ný eftir þessa meðferð og endurheimti ég sjálfstraust mitt á skíðum, engin þreyta í fótum lengur. Þetta hafði verið eins og að keyra á bremsulausum bíl niður brekkur.
Seinasta daginn komum við að tveimur slysum. Hið fyrra var það slæmt að þyrla var kölluð til og skíðuðum við fram á þar sem henni var lagt í miðri skíðabrekku rétt hjá þeim slasaða. Seinna slysið var minna alvarlegt, þá var sá slasaði sóttur á sérstökum börum sem björgunarmennirnir skíða með á eftir sér niður brekkurnar. Þetta minnti okkur á hve skammt getur verið á milli gleði og sorgar í svona ferðum.
Eins og ég sagði í upphafi þá var þetta frábær skíðaferð, allir komu þeir aftur og þrátt fyrir allt og allt þá vil ég meina að í heildina hafi ferðin gengið vel hjá okkur. Hefðbundin jól fóru hins vegar fram hjá okkur þetta árið.
Hér til hliðar í myndaalbumi má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár og velkomin heim.
Er ekki bara málið að skella sér í svona ferð a.m.k. árlega til að halda öllum hæfilega mjúkum
Hlakka til næsta hittings.
Villa
Vilborg (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 23:19
Skemmtileg ferðasaga.
Ég fór í fyrsta skipti á ævinni á skíði í fyrra og þyki efnilegur byrjandi...... og ætla ekki að setja markið hærra en að vera efnilegur byrjandi.
Anna Einarsdóttir, 5.1.2008 kl. 00:33
Gaman að fá ferðasöguna, hér á bæ verða skíðin fljótlega til sölu, skytturnar þrjár bíða brúkunar uppi í hesthúsi.
Erna Bjarnadóttir, 5.1.2008 kl. 12:01
Sæl og blessuð
VELKOMIN HEIM. Greinilega stórkostleg ferð hjá ykkur
Kv
Bylgja
Bylgja (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.