19.12.2007 | 21:04
Jólainnkaup í Fjarðarkaupum
Sagan sem ég ætla að segja í dag gerðist þegar ég var í stjórn starfsmannfélags Hjartaverndar. Þetta var aktíf og bráðskemmtileg stjórn, a.m.k. fólkið sem var í stjórninni. Við stóðum fyrir ýmsum uppákomum, allt árið um kring. Samstarfsfólkið var oftast ánægt með okkur, held ég, aðalatriðið var að við vorum hæstánægð með allt sem við gerðum.
Fyrir jólin stóðum við fyrir jólahlaðborði í hádeginu einhvern föstudaginn í desember. Í fyrsta skiptið vorum við óttalegir grænjaxlar og vissum ekkert hvað svona tekur langan tíma í undirbúningi. Vorum samt búnar að panta kartöflusalat og ég hafði keypt nokkrar rúllur af hangikjöti og sauð það heima hjá mér kvöldið áður. Svo fórum við í Fjarðarkaup um morguninn og ætluðum að kaupa allt sem okkur fannst vanta:
Ostar
Síld
Rúgbrauð
Pate
Sultur
Reyktan lax
Grafinn lax
Sósu með laxinum
Laufabrauð
Rauðkál
Smjör
Jólaöl
Mandarínur
Kerti
Dúka
Servíettur
o. fl. o. fl
Listinn var langur því þetta átti að vera flott. Ekki man ég hversu snemma við vorum komnar í Fjarðarkaup en þegar klukkan var farin að halla í 11 og við vorum á kassanum var ég farin að ókyrrast. Maturinn átti að byrja kl 13.00, við áttum eftir að hafa kaffistofuna til og skera allt niður og raða á bakka. Fáránleg bjartsýni.
Stúlkan á kassanum var afspyrnu hæg. Svo hæg að þolinmæði mín var á þrotum. Ég raðaði í innkaupapokana af miklu kappi. Var bara fjári snögg að því. Þetta gekk bara nokkuð fljótt fyrir sig. Harpa Dís, gjaldkerinn okkar dró upp kortið og borgaði, já og Fjarðarkaup voru bara ekkert svo dýr verslun.
Við þurftum eitthvað meira að snúast, ná í gullbakkana hennar Hörpu heim til hennar o.fl. Komum í hús kl 12.00.
Höfðum hraðar hendur við að skreyta og skera. Allt tilbúið kl 13.00. Töluðum um að taka að okkur að útbúa fermingarveislur, þetta væri nú ekki mikið mál, já og versla í Fjarðarkaup, fáránlega ódýrt.
Árið eftir var náttúrulega aftur jólahlaðborð í einhverju föstudagshádeginu. Við ætluðum nú að vera heldur skipulagðari, versla daginn áður og gera góðan innkaupalista. Vorum svo heppnar að eiga strimilinn frá því árið áður.
Bíddu, það var eitthvað lítið á strimlinum, keyptum við ekkert kartöflusalat? Ekkert jólaöl? Og ekkert............. Það var eitthvað lítið á þessum strimli, hvernig gat nú staðið á því? Jú í öllum hamaganginum hafði ég raðað öllu í pokana áður en stúlkan á kassanum náði að skanna vörurnar inn. Þannig varð þetta svona ódýrt og þannig vorum við svona snöggar á kassanum!
Semsagt, hér játa ég þjófnað. Skamm á mig.
(Sagan var pöntuð af Bylgju, veit ekki hvort hún viðurkennir að vera samsek, það var ég sem raðaði í pokana, Harpa bara borgaði).
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Gamlar sögur | Facebook
Athugasemdir
Viðurkenni aldrei að hafa verið vitorðsmaður en samsek fyrst ég var á staðnum en hvað ég gerði man ég ekki...ætli ég hafi ekki bara hugsað voða mikið að venju.
Við vorum áðan að koma úr Fjarðarkaupum fyrir jólamatinn hér í Hjartavernd á morgun. Saknaði þess að hafa þig ekki með...
Bylgja (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 14:23
Miss you too.................
Kristjana Bjarnadóttir, 20.12.2007 kl. 16:47
nú get ég samt ekki setið á strák mínum...hvenær kemur sagan um afmælisgjöfina frægu
Bylgja (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.