Jól í Strassburg III

Þriðjudagur 25. desember 1984

"Vaknaði um hádegi en þá var farið niður í eldhús þar sem búið var að leggja á borð en jóladagur og maturinn þá er aðalhátíðin. Fjölskylda Valerie og nunnurnar voru þar í sínu fínasta pússi. Á hverjum diski var nafn þess sem þar átti að sitja og var gjöfum raðað þar í samræmi. Mér til mikillar undrunar voru þrír pakkar til mín auk pakkans frá þeim heima. Hér tíðkast ekki að merkja pakka heldur eru gjafirnar frá öllum og þakka allir öllum fyrir. Góður siður. Ég veit nú samt að frá Valerie fékk ég kassa með umslögum, peysu frá mömmu hennar. Einnig sápupakka sem ég held að frænkan hafi gefið.

Fyrir mat var boðið í glas, bjór eða Martini Bianco. Næst var reyktur lax og hvítvín drukkið með. Má til að minnast á hvað mér finnst fólkið virða vín og dá. Einnig góðum mat. Þar næst var gæs með kartöflum og aspas að ég held og 10 ára rauðvín með. Smakkaðist vel. Eftir dágóðan tíma kom terta og á eftir henni kampavín. Þá held ég að allt sé upptalið. En þegar hér var komið var kominn galsi í mannskapinn (vínið). Mamma Valerie fór á kostum. Sungið og spjallað, ærslast. Á jólunum skal gleðjast, Jesú var að fæðast og því skal skemmta sér. Ólíkt alvöruþrungnu íslensku aðfangadagskvöldi.

Í kvöld var svo aftur borðað en bara lítið og léttur matur. Hef í allan dag öðru hvoru en árangurslaust reynt að hringja heim en engin lína laus, ýmist hér eða heima".

Viðbót:
Það var virkilega athyglisvert að fá að kynnast þessu jólahaldi. Ég minni á að þarna voru auk fjölskyldu Valerie nokkrar kaþólskar nunnur. Á jóladag fengu þær sér vel í glas og voru vel hífaðar. Ég man hvað mér fannst þetta skrítið. Þær sögðu einfaldlega: Jesúbarnið var að fæðast nú gleðjumst við. Þegar ég lýsti fyrir þeim alvöruþrungnu íslensku aðfangadagskvöldi og þeim íslenska sið að ekki mætti spila eða gantast á aðfangadagskvöld, urðu þær undrandi. Það er á föstudaginn langa sem við erum sorgmædd, þá dó Jesú sögðu þær.

Ég man að það var mikið fíflarí í gangi eftir matinn og við uppvaskið, ég var borin um á stóru skurðarbretti og foreldrar Valerie ærsluðust í mér. Fólkið var undir áhrifum víns en þetta var mjög ólíkt því þegar Íslendingar drekka, vínið var lofað og dásamað og aldrei neytt í óhófi. Einnig man ég hversu allir smjöttuðu nákvæmlega á öllum mat, ekki bara á hátíðinni, þetta var bara kúltúrinn í kringum allar máltíðir.

Einnig fannst mér sá siður góður, að merkja ekki frá hverjum jólagjafirnar væru. Allir þökkuðu öllum fyrir á eftir. Ég man ekki hvað hinir fengu í jólagjöf en ég man að þetta voru allt litlar gjafir, líkara því sem við myndum vera með í svona pakkaleikjum sem nú eru algengir í skólum og á vinnustöðum.

Núna 23 árum seinna er ég Valerie og fjölskyldu hennar mjög þakklát fyrir þetta einstæða tækifæri til að kynnast frönskum jólasiðum og fjölskyldulífi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband