Líkamsrækt

Mikilvægi hreyfingar er aldrei of oft brýnt fyrir okkur. Í því þjóðfélagi sem við búum í eru ýmsir lífsstílssjúkdómar í mikilli aukningu, tengjast margir ofnæringu (ofáti) og hreyfingarleysi.

Ég hef oft talið það eitt af mínum höppum í lífinu að ég var frekar þéttvaxinn unglingur. Einnig var ég með þráláta höfuðverki sem engin skýring fannst á. Ég forðaðist hreyfingu aðra en sem fylgdi sveitastörfum þeim sem ég ólst upp við. Vissulega fylgdi því hreyfing en hún var oft einhæf, bogra undir kýr við mjaltir og mokstur á votheyi á sumrin getur tæplega talist holl hreyfing til lengdar. Ég stundaði engar reglubundnar íþróttir, íþróttir voru tæplega á sundaskránni í skólanum okkar þar sem aðstaða til íþróttaiðkana var æði bágborin.

Við 16 ára aldur gerði ég mér grein fyrir að ég var of feit, tók mér tak og gekk vel, hef síðan verið meðvituð og ef kílóin læðast að mér gríp ég strax til minna ráða. Í menntaskóla fékk ég betri og meiri íþróttakennslu og sótti til viðbótar sundlaugar og aðra líkamsrækt.

Á háskólaárunum slakaði ég á í ræktinni. Næstu viðvörun fékk ég þegar háskólanámi lauk og ég fór að vinna. Ég hafði iðulega verið með hausverk í náminu en bara sleppt úr tíma eða dópað mig upp. Þetta gekk ekki í vinnu. Ég fór til sjúkraþjálfara sem sagði mér að gera svo vel að hugsa betur um skrokkinn, styrkja mig og teygja á hálsvöðvum.

Ég hef sinnt þessu síðan, samviskusamlega. Alltaf stundað einhverskonar hreyfingu. Lykilatriðið er að hafa eitthvað gaman af því, vera í góðum félagsskap hjálpar mikið. Einnig er gott að setja sér markmið, ég reyni að fara á vorin stranga göngu, síðast fór ég á Hrútfjallstinda í Vatnajökli. Til að geta það stundaði ég ræktina stíft seinasta vetur og fór reglulega út að hlaupa með félögum mínum í TKS (Trimmklúppi Seltjarnarness). Nú dreymir mig og göngufélaga mína um Þverártindsegg í Suðursveit næsta vor.

Af höfuðverk er það að frétta að ef ég stunda líkamsrækt eða hlaup og teygjur þá er ég laus við hann, ef ég skrópa í hlaupunum eða ræktinni þá læðist hann aftan að mér.

Ég var heppin, fékk viðvörunina snemma og gerði eitthvað í því. Það fylgja því mikil lífsgæði að vera líkamlega vel á sig komin, slíkt gerist ekki af sjálfu sér og það er nauðsynlegt að huga að því alla tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband