Virkjun Hverfisfljóts

Í nýliðinni viku gerðist það að umhverfisráðherra hnekkti úrskurði skipulagsstofnunar um að virkjun Hverfisfljóts við Hnútu skyldi ekki fara í umhverfismat. Vinnubrögð Þórunnar umhverfisráðherra eru henni til sóma en furðu sætir úrskurður skipulagsstofnunar því virkjanir almennt hafa gríðarleg áhrif á náttúruna og ættu því skilyrðislaust að fara í umhverfismat. Hér er kafli úr úrskurði skipulagsstofnunar:

Áhrif á landslag og jarðmyndanir. Fram kemur að fyrirhugað framkvæmdasvæði skiptist í tvo hluta, annars vegar nyrðra svæðið á móts við Lambhagafossa og brekkurnar syðst í Hnútu. Hins vegar syðra svæðið, Skaftáreldahraunið frá Lambhagafossum, meðfram Hverfisfljóti og niður á móts við bæina Dalshöfða og Seljaland. Ljóst er að fyrirhuguð slóðargerð muni raska Skaftáreldahrauni varanlega. Um þriðjungur slóðarinnar, eða um 2 km, verður lögð um úfið hraun en tveir þriðju, eða um 4,5 km, mun fara um sandorpið hraun.

Í sumar sem leið gekk ég um svæðið milli Skaftár og Hverfisfljóts með gönguhópnum mínum, Trimmklúbbi Seltjarnarness. Hápunktur göngunnar voru 2 fossaraðir Hverfisfljóts við Hnútu og aðeins neðar rétt ofan Dalsfjalls, slík var fegurðin og voru ferðafélagarnir á einu máli um að það sætti furðu hversu lítt þekkt fegurð þessa svæðis væri. Þessar fossaraðir eru fjarri vegaslóðum og því lítt skoðaðar einmitt þess vegna er hætt við að virkjun sé laumað þarna inn án mikillar umræðu.

Mér skilst að umrædd virkjunaráform séu við Lambhagafoss sem er í neðri fossaröðinni. Báðar þessa fossaraðir eru gríðarlega merkilegar þar sem árfarvegur Hverfisfljóts á þessum slóðum er nýr í jarðsögulegu tilliti. Hverfisfljót ruddi sér nýja leið um þetta svæði eftir Skaftárelda og því er landmótun þarna enn í fullum gangi.

Hér til hliðar í myndaalbúmi að nafni Hverfisfljót eru myndir sem ég tók í sumar og með því að skoða þær fáið þið örlitla hugmynd hvað um er að ræða. Ég vona að ekki fari fyrir þessu svæði eins og svæðinu fyrir ofan Kárahnjúka sem fékk litla athygli fyrr en eftir að ákvörðun um virkjun var tekin.

nullLambhagafoss, sjá betur í myndaalbúmi "Hverfisfljót"

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ofboðslega fallegar myndir!

Þarna langar mig að ganga 

Lilja (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 12:33

2 identicon

Flottar myndir Kristjana! Ég hef stjáklað yfir Hverfisfljót en það var nokkuð ofar en þessar myndir eru frá. Í sömu ferð fórum við yfir Djúpá, eða þannig, hún var svo mikið að það þurfti að sneiða hjá henni yfir jökul. Hún er ofarlega á lista yfir næstu virkjanakosti.

Ásdís (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband