23.10.2007 | 22:22
Leyfið til að vera öðruvísi
Hvernig samfélagi viljum við búa í? Er leyfilegt að skera sig út úr fjöldanum? Skal steypa alla í sama mót? Við eigum oft erfitt með að gefa leyfið, til að vera öðruvísi, það er svo miklu þægilegra ef allir eru eins. Hafa sömu trú, sama tungumál, bakgrunn, þarfir, getu, kynhneigð, þá þurfum við ekki að taka tillit til annarra. Ó, hve lífið væri einfaldara. Þá þyrftum við aldrei að útskýra neitt fyrir börnunum okkar............
Það væri draumaheimurinn okkar, eða hvað?
Hvernig getum við gert kröfu til þess að börnin okkar gefi þetta leyfi ef það er ekki til staðar í þeirra nánasta umhverfi?
Hreyfihamlaðri stúlku í unglingadeild grunnskóla er sagt að vera inni að læra meðan bekkjarsystkinin fara út að leika sér í góða veðrinu.
Unglingsstúlka utan trúfélaga neitar að fara í kirkjuferð á vegum skólans, skólinn gerir þá kröfu að hún mæti samt, kennari spyr af hverju hún haldi jól.
"Það trúa allir á guð" fullyrðir náttúrufræðikennari í bekk með 3 börnum af asískum uppruna. Svo eru til íslensk börn utan trúfélaga.
Biskup yfir þjóðkirkju sem segir okkur að allir séu jafnir fyrir guði en vill skipta sambúðarformum í flokka eftir kynhneigð.
Getum við ætlast til umburðarlyndis af börnunum gagnvart fjölbreytileika þegar þau alast upp í umhverfi sem viðurkennir ekki litróf mannlífssins, dregur fólk í dilka?
Af hverju erum við ekki opin fyrir fjölbreytileikanum og gefum öllum tækifæri til að njóta sín á sínum forsendum?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.