Táknmál í prófum

Hvað mæla próf?

Getu til að koma skriflega minnisatriðum á framfæri.

Hvað segir þessi mæling um getu einstaklingsins?

Svar: Til lengri tíma (framtíðar) lítið.

Próf mæla einn hæfileika sem ekki hefur verið haft hátt um; hversu flinkir nemendurnir eru í táknmáli sín á milli og skiptast á upplýsingum í prófinu sjálfu.

Úps þar játaði ég það. Við vinkonurnar vorum nefnilega æði flinkar í þessum fræðum, þetta var svona eins konar samhjálp okkar á milli eða þannig. Við komum okkur upp táknmáli. Fjöldi fingra á lofti táknaði náttúrulega númerið á spurningunni sem við vorum í vandræðum með. Svo var bara hugmyndaflugið notað til að skiptast á upplýsingum.

Eitt sinn vorum við í Íslandssöguprófi. Við vorum í 5. eða 6. bekk. Ég sat í öðrum endanum á matsalnum og Elín í hinum endanum. Við snerum á móti hvor annarri. Þetta var töluverð vegalengd og útilokað að við gætum talað saman.

Ég lít upp, Elín rekur upp 4 fingur. Já spurning númer 4. Einhver vandræði þar.

"Hvernig dó Eggert Ólafsson?" Hann drukknaði á Breiðafirði þegar skipið hans fórst, það vissi ég, en hvernig í veröldinni gat ég táknað það yfir allan matsalinn? Ég leit upp, sá hvernig Elín táknaði hengingarsnöru um hálsinn á sér og kippir í. Nei hann var ekki hengdur. Ég hristi höfuðið. Svo byrjaði ég að síga niður í sætinu með hendur fyrir andlitinu, eins og ég væri að drukkna inni í lófunum á mér, þetta reyndi ég aftur og aftur. Elín horfði bara gapandi á mig, líka hinir krakkarnir, hvað var eiginlega í gangi? Ég hugsaði og hugsaði.

Hvernig táknar maður mann á skipi sem ferst á Breiðafirði? Þarna brást okkur bogalistin. Ég held að þarna hafi kennarinn séð við okkur, þetta var bara ekki hægt að tákna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga María

Frábært hugmyndaflug...þetta er hæfileiki sem jafnvel mætti þróa í öllum samskiptum.  Legg þetta inn hjá mínum nemendum.  Frábær minning!

Inga María, 7.11.2007 kl. 23:10

2 identicon

Frábært! Enn ein ástæða til þess að taka upp kennslu í táknmáli í grunnskólum:)

Lilja (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 12:20

3 identicon

Ég sé ykkur fyrir mér að ranghvolfa augunum... Man eftir atviki úr prófi þar sem ég átti í mesta basli við að muna réttu orðin. Sá alveg fyrir mér hlutinn sem spurt var um, og hefði sennilega átt auðveldara með að teikna mynd af skömminni, en gat ómögulega munað hvað það hét... Svo allt í einu kom það og í gleði minni hrópaði ég upp yfir mig: AUÐVITAÐ VAÐMÁL!! Og uppskar hvasst augnaráð og svo bros frá Öldu, að mig minnir.

Ásdís (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband