1.11.2007 | 16:38
Á hvað hlustaðir þú mamma?
Aftur erum við í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi á 8. áratug síðustu aldar. Lög unga fólksins voru alltaf klukkan 8 á mánudagskvöldum, það var hálfgerð helgistund. Þeim var útvarpað um hátalarakerfi skólans. Þvílík hljómgæði. Til að auka á hátíðablæinn söfnuðumst við saman sem flest á einu herberginu, hlustuðum saman á lögin. Algerlega steinþegjandi. Ég held við höfum ekkert verið að senda kveðjur, það var ekki aðalatriði, enda bara brot af þeim lesnar upp. Bara að hlusta á lögin.
Það voru ekki margir sem áttu segulband, þau þóttu dýrgripir. Þeir sem áttu þessa dýrgripi stilltu þeim upp fyrir framan útvarpið og biðu í miklum spenningi eftir hvort það kæmi lag sem ekki var þegar búið að taka upp á spólu. Spólurnar voru vandlega merktar, hvaða lög voru á þeim og í hvaða röð. Það voru hins vegar ekki margir þættir í útvarpinu sem tók því að liggja yfir og bíða eftir spennandi tónlist, mátti reyna að sitja yfir óskalögum sjúklinga og sjómanna. Uppskeran gat verið "Ó, blessuð vertu sumarsól" eða "Síldarvalsinn", en ef heppnin var með tókst að taka upp "Er ég kem heim í Búðardal".
Á einstaka heimili var til plötuspilari. Heima hjá mér var einn, hann var með svo þungum armi að nálin skar niður plöturnar, plöturnar mínar hafa ekki beðið þess bætur. Þær voru heldur ekki svo margar. Í kaupfélaginu í Borgarnesi var ekki mikið úrval og ekki var heldur verið að kaupa mikið, þá sjaldan maður kom þangað. Það mátti nú ekki eyða öllu lambsverðinu sem maður fékk í innlegg á haustin í einhverja vitleysu. Til Reykjavíkur kom ég nánast aldrei. Þar voru víst seldar vínylplötur.
Spurninguna í fyrirsögninni fékk ég um daginn frá dóttur minni. Hún vildi vita um tónlistasmekk minn á unglingsárunum, hvaða tónlist ég hefði valið mér til að hlusta á. Mér vafðist tunga um tönn, "valið mér" það var það sem ég átti svolítið erfitt með að útskýra.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Gamlar sögur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.