Björgunarafrek

Fyrir nokkrum árum varð hörmulegt drukknunarslys í sundlauginni að Skógum undir Eyjafjöllum. Ósyndur útlendingur missti fótana í lauginni og drukknaði. Stuttu síðar varð slys í sundlauginni á Tálknafirði þar sem sundlaugagestur (mig minnir útlendingur) var hætt kominn.

Ég varð í framhaldi af þessum fréttum dálítið upptekin af þessum slysum, sundlaugar eru varasamar. Ég átti lítil börn, líklega 5 og 7 ára. Þau þekktu ekki vatnshræðslu og voru miklir glannar í sundlaugum, það gekk oft mikið á. Þau þurftu stöðuga gæslu, mesta fjörið var að kafa eftir hlutum á botni djúpu laugarinnar. Yngra barnið, stúlka, var ósynd en ég veiddi hana bara upp úr þegar mér fannst hún vera búin að vera nógu lengi niðri. Ég var alltaf með sundgleraugu og fylgdist vel með þeim en var samt stanslaust á nálum um að eitthvað kæmi fyrir.

Svo var það einu sinni í sundlauginni í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Við erum að leika okkur í djúpu lauginni. Ég með sundgleraugun að fylgjast með afkvæmunum. Sé skyndilega mann liggja á botninum. Þetta var tækifæri lífs míns til að leika hetju. Ég syndi kafsund að manninum, tek hann kröftuglega í fangið og dreg hann upp. Maðurinn barðist fyrst aðeins um en lét svo að vilja mínum.

Þetta var bara túristi að skoða sundlaugabotninn. Hann var ekkert nálægt því að drukkna. Fannst þetta frekar skrýtin kerling sem faðmaði hann svona innilega í vatninu. "I thought you were drowning" stamaði ég. Hann bara hristi höfuðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 22.11.2007 kl. 00:08

2 identicon

hahah þessa Kristjönu kannast ég við

Bylgja (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 08:49

3 identicon

Brunaðir þú svo ekki bara beint í kaupfélagið á Hvammstanga og keyptir snúð með kaffinu?

Ásdís (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband