3.10.2007 | 21:57
Gillí frænka og pistlaskrif
Frænka mín Gíslína Erlendsdóttir glímir við alvarlegt krabbamein. Hún hefur af einstöku æðruleysi haldið úti bloggsíðu þar sem hún leyfir okkur hinum að fylgjast með framvindu sjúkdómsins, ýmsu sem á daga hennar drífur og hugleiðingum um lífið og tilveruna.
Lengst af var ég þögull lesandi en eftir áskorun Gillíar um að slíkir létu í sér heyra hafði ég samband við hana og átti í bréfaskriftum þar sem ég m.a. tjáði henni hvaða áhrif pistlaskrif hennar hefðu haft á mig. Mig langar að deila þessu með ykkur.
Síðastliðið vor birti Gillí pistil um að hún teldi sig vera heppna að hafa fæðst á Íslandi. Þetta er nokkuð sem við erum sjaldan að velta fyrir okkur og mér fannst þetta sérstaklega áhugaverð pæling. Satt að segja hafði ég einnig komist að þessari niðurstöðu áður og er henni fullkomlega sammála. Það þarf hins vegar að minna okkur öðru hvoru á þetta. Það eru alltof margir sem telja það mesta böl að lifa á þessu skeri, ég held þeir viti ekki hvað þeir segja. Það er full þörf á að minna okkur á þetta og Gillí, takk fyrir að vekja athygli á þessu.
Gillí hefur sterka réttlætiskennd og hefur það oft komið fram í pólitískum pistlum hennar. Það kom mér reyndar skemmtilega á óvart hversu pólitísk hún er, mér finnst nefnilega alltof fáir þora að tjá sig um þessi mál og varð ég því afar glöð að lesa (að mínu viti ! ) heilbrigðu pólitísku sýn Gillíar. Mest hefur Gillí fjallað um það óréttlæti sem birtist fólki þegar það veikist í formi skertra réttinda vegna vinnuskipta og ef það borgar tímabundið ekki í verkalýðsfélag. Einnig hefur Gillí fjallað um bætur Tryggingastofnunar til aldraðra og öryrkja og minnist ég sérstaklega átaks sem hún hrinti af stað þar sem hundruðir sendu tölvupóst á heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra og kröfðust lagfæringa á almannatryggingakerfinu. Við sem erum heilbrigð hugsum ekki mikið um þetta dagsdaglega. Því er það sterkt þegar manneskja sem berst fyrir lífi sínu vekur mann upp úr draumnum, og minnir okkur á þann veruleika sem er fyrir utan draumaheiminn okkar. Það veit enginn hver er næstur.
Þegar Gillí lýsir veikindum sínum og aðstæðum með kómiskum hætti, þá skynja ég að þetta er hennar leið til að kljást við þetta. Það þarf hins vegar mikinn kraft til að hafa þessa sýn en þegar upp er staðið þá trúi ég að þetta sé betri leið en leggjast í sorg og sút. Gillí á mikinn heiður skilinn fyrir þetta viðhorf.
Það hefur verið mannbætandi að fylgjast með skrifum Gillíar seinustu mánuði. Við erum oft í okkar daglega lífi að reka tærnar í, ergja okkur yfir því að flísarnar sem við keyptum og var búið að lofa okkur en voru ekki til á lagernum þegar flísarinn stóð tilbúinn í verkið, já eða einhverjum öðrum atburðum í daglegu lífi. Í þessum aðstæðum sl. vetur varð mér hugsað til Gillíar. Mér varð ljóst að sá sem hefur ekki stærri áhyggjur en seinkun á flísum, sá lifði góðu lífi. Manni er stundum hollt að átta sig á því hver hin raunverulegu vandamál eru.
Það seinasta sem mig langar að nefna er hvað mér fannst gaman að lesa er þegar Gillí rifjar upp atvik úr æsku. Maður verður ungur aftur og sér þetta allt ljóslifandi fyrir sér. Einnig sveitina okkar eins og hún var og áttar sig á hvað allt hefur breyst. Ég man þegar pabbi var að segja sögur "frá því í gamla daga", ég skynjaði að allt hefði breyst. Nú skynja ég að lífið fyrir vestan hefur enn tekið miklum breytingum og þær sögur sem við geymum í okkar minni eru ekki síður merkilegar.
Eins og ég sagði í upphafi átti ég í nokkrum emailsamskiptum við Gillí nú í sumar. Ég sagði henni fyrst lauslega af mér og mínum, þetta þróaðist í að ég skrifaði henni bæði sögur og ýmsar pólitískar pælingar mínar, vildi launa henni allt sem hún hafði miðlað mér. Eitt bréfið endaði ég með því að ég væri of feimin til að blogga. Í framhaldi af því gerði ég mér ljóst að þetta var bara ekki satt, ég er ekkert of feimin þannig að ég fór að skrifa. Gillí var fljót að finna mig, hún hefur verið iðin við að setja inn athugasemdir og það er alveg merkilegt hvað maður er hégómlegur en staðreyndin er sú að þessar athugasemdir virka mjög hvetjandi til að halda áfram. Þessi samskipti okkar hér í bloggheimum eru mér mikils virði og hvatningunni sem Gillí hefur gefið mér, bæði með sínu kjarkmikla og raunsæja bloggi, sem og athugasemdum við mínu, henni mun ég ekki gleyma.
Ég vil þakka Gillí fyrir að hafa leyft okkur hinum að fylgjast með sér og baráttu sinni. Það þarf mikinn styrk til að gera það með þeim hætti sem hún hefur gert, það opnar augu okkar fyrir lífi fólks í hennar stöðu, okkur hættir til að loka augunum fyrir því sem við viljum ekki sjá. Hún hefur líka minnt okkur á hvað við höfum það gott, um leið og hún bendir á hvað megi betur fara. Ég vona að Gillí eigi góða daga framundan með sínum nánustu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Tek undir með þér, hún er mögnuð kona.
Ragnheiður , 3.10.2007 kl. 22:08
Mín er ánægjan að geta glatt, stutt, uppfrætt eða skemmt öðrum með því sem ég hef að segja svo takk fyrir hrósið Kristjana mín og góðar kveðjur. Mér finnst líka mjög gaman að lesa þín skrif, við höfum greinilega svipaða pólitíska sýn á tilveruna. Haltu endilega áfram á sömu braut.
Gíslína Erlendsdóttir, 3.10.2007 kl. 22:28
Þið frænkurnar megið vera stoltar, Gillí af því að koma þér af stað í blogginu og þú af því að eiga svona sterka og fallega frænku. Það er svo sannarlega rétt hjá henni að maður má þakka fyrir þetta fallega land. Stundum hvarflar þó að manni að það séu aðeins of mörg nátttröll í heilbrigðiskerfinu. Væri ekki gott ef sum þeirra breyttust í fagrar meyjar?
Ætlaði að segja dísir en fannst það aðeins of sjálfhverft.
ásdís (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 22:30
Gillí hvatti mig líka til að byrja að blogga...og það hefur fært mér mjög margt gott.... endurnýjuð kynni, ný kynni, skemmtilegar stundir, hlátur og fróðleik.
Gillí er perla.
Anna Einarsdóttir, 4.10.2007 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.