Meira af samræmdu prófi í náttúrufræði

Ég birti nýlega færslu þar sem ég gagnrýndi samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú nýlega. Þar tók ég eingöngu fyrir þær spurningar sem að mínu viti voru beinlínis rangar eða úr efni sem ekki var í þeim kennslubókum sem lagðar voru til grundvallar.

Nú ætla ég að bæta um betur og benda á atriði sem hafa mun minna vægi en eigi að síður eru sérkennileg í þessu prófi.

natt08_17

Í lífefnafræði er gerður greinarmunur á "sykrum" og "sykri" þar sem "sykrur" er samheiti yfir efnasambönd sem einnig eru kölluð kolvetni. Matarsykur eða það sem við köllum sykur (einnig reyrsykur) í daglegu tali, er tvísykra og er samsett úr einsykrunum glúkósa og frúktósa.

Ég geri ekki ráð fyrir að nemendur 10. bekkjar þekki þennan mun og þessi villa í spurningunni ætti því ekki að hafa áhrif á hvernig þau svara þessari spurningu, það er hins vegar eðlileg krafa til prófhöfunda að notuð séu rétt hugtök.

natt08_23

Einungis lítillega er farið í stökkbreytingar í námsefninu, ekkert um það að til að stökkbreyting valdi krabbameini þurfi breytingu í fleiri en einu geni nema einstaklingurinn hafi erft eitthvað af þessum breytingum. Þessi spurning er því til hliðar við námsefnið.

Ég aðstoðaði nokkrar stúlkur fyrir prófið. Við þá aðstoð gleymdi ég mér og fór að útskýra fyrir þeim ýmislegt varðandi krabbamein og stökkbreytingar, bara af því mér fannst þetta skemmtilegt og áhugavert, ekki af því að þetta væri hluti námsefnisins. Nú hef ég heyrt frá einni stúlkunni að hún hafi getað þessa spurningu eingöngu vegna þessa "skemmtifyrirlestur" míns.

natt08_38

Í þessari spurningu er svar L rétt. Ég gat hins vegar ekki fundið neitt um þetta í kennslubókunum. Eftir leit á google fann ég á vísindavefnum að tunglið hefði "bundinn möndulsnúning" sem þýðir að það hefur jafnlangan snúningstíma og umferðartíma. Þetta fann ég ekki í kennslubókinni.

natt08_41

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað þetta "yfirleitt" í þessari spurningu þýðir. Veit einhver dæmi þess að flóð og fjara verði ekki tvisvar á sólarhring? Í prófi þar sem stöðugt er verið að leggja gildrur fyrir nemendur þá skiptir máli að orðalag spurninganna veki ekki upp vafa hjá nemendum.

natt08_48

Spurningar sem fjalla um fjölda rafeinda á hvolfum frumefna hafa verið fastur liður í prófum undanfarinna ára. Það er líka betra að kunna skil á þessu til að skilja lotukerfið en lotukerfið er hluti námsefnisins. Hins vegar er ekki fjallað um rafeindahvolf í þeirri kennslubók sem lögð er til grundvallar námsefninu. Ekkert er farið í það hvernig fjöldi rafeinda á ysta hvolfi hafi áhrif á röðun frumefnanna í lotukerfinu.

natt08_62

Þar sem þessi spurning er í eðlifræðihluta prófsins er eðlilegt að ætla að verið sé að fjalla um áhrif saltmagns á frostmark. Ég get hins vegar ekki fallist á að svarið í H lið sé rangt.

natt08_63

Hvaða máli skiptir orðið "hendi" í lið L? Hefði ekki verið nóg að segja: "Málmur leiðir betur varma en plast"?

natt08_78

Þessi mynd sýnir ekki rafgreiningu vatns. Til að rafgreina vatn er ekki nóg að stinga tveim vírum í vatnsglas og hleypa straum á. Myndin hér að neðansýnir rafgreiningu vatns. Ég veit dæmi þess að nemandi lét þetta atriði trufla sig og velti því fyrir sér í hvort málið væri að það væri ekki hægt að rafgreina vatn með þessum hætti og efnið sem myndaðist væri því bara vatn, sbr svar M.

natt_06

Athugasemdir mínar við prófið sem birtast í þessari færslu hef ég ekki sent Námsmatsstofnun, mér þótti þær léttvægari en þær sem ég birti hér áður. Engu að síður er hér um atriði að ræða sem eiga ekki að koma upp í prófi sem þessu.

Það er eðlileg krafa nemenda, kennara og foreldra að svona próf séu yfirlesin af fólki með þekkingu á þeim sviðum sem verið er að prófa úr. Viðkomandi verður einnig að hafa þekkingu á því námsefni sem lagt er til grundvallar prófi sem þessu. Þetta hefur ekki verið gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Þú átt auðvitað að senda Námsmatsstofnun þessa bloggfærslu þína.

Erna Bjarnadóttir, 16.5.2008 kl. 12:45

2 identicon

Þetta hlýtur að hafa borist þeim til eyrna/augna núna.

Þetta er að mínu mati mesta hneisa, og nauðsynlegt að taka þessi próf til rækilegrar endurskoðunar. 

Mundi (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 20:31

3 identicon

Ein spurning varðandi síðustu spurninguna (nr 78).  Hver segir þú að sé munurinn á þessum tveimur myndum?? 

Til að rafgreina vatn þarf víra og rafhlöðu þannig að ég get ekki með nokkru móti séð að efri myndin sé röng... og að mínu mati sýna myndirnar nákvæmlega sama hlutinn.  Eini munurinn er að á neðri myndinni er vetninu og súrefninu er safnað í tilraunaglösin sem eru öfug ofan í ílátinu.  Á efri myndinni myndu gastegundirnar bara sleppa út í andrúmsloftið. 

Rafgreining vatns með vírum, rafhlöðu (sem gefur nægilega spennu) og vatni (augljóslega) gengur hins vegar afar hægt því það sem gerist er oxunar-afoxunar hvarf þar sem m.a. vetnisjónir (H+) taka til sín rafeindir og mynda vetni (H2).  Þar sem styrkur vetnisjóna í hreinu vatni er afar lágur þá gerist hvarfið mjööög hægt.  Fræðilega á sér þó stað hvarf.  Venjulega er sýru (oft brennisteinssýru, H2SO4), bætt út í til að hraða rafgreiningunni.

Annars er ég sammála þér með allar hinar spurningarnar, góðar pælingar :)

Soffía (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 21:11

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk Soffía fyrir að benda á þetta, verð að viðurkenna að ég var nú ekki eins viss með þetta atriði og textinn hljómar, þetta er ekki mín sterkasta hlið. Hafði séð myndir eins og seinni myndin og fannst þetta svolítið einfalt á prófmyndinni.

Góð ábending.

Kristjana Bjarnadóttir, 22.5.2008 kl. 21:41

5 identicon

Sammála, prófmyndin er dáldið einföld. Síðan er rafgreining notuð til að framleiða vetni og súrefni þannig að það er kjánalegt að sleppa tilraunaglösunum, tilgangslaust að rafgreina og láta gasið sleppa burtu ;)

Kannski átti myndin að gera nemendum erfiðara fyrir því öfugu tilraunaglösin benda til þess að myndefnin séu gastegundir.

Soffía (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband