Samræmt próf í náttúrufræði 2. maí 2008 - athugasemdir

Á föstudaginn var þann 2. maí var samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk. Ég hef undanfarið gagnrýnt námsefni fyrir þessi próf og einnig þau próf sem lögð hafa verið fyrir undanfarin ár. Nú er röðin komin að því að kryfja samræmt próf í náttúrufræði árið 2008.

Til að gera langa sögu stutta þá eru mörg atriði í prófinu sem orka tvímælis og margar spurningar sem fjalla um atriði sem hvergi eða lauslega er minnst á í kennslubókum sem notaðar eru.

Spurning nr. 33.

natt08_33

Fyrst skulum við athuga hvað börnin læra um frumuskiptingar. Þau læra að í jafnskiptingu myndist tvær dótturfrumur með jafnmikið erfðaefni og móðurfruman, í rýriskiptingu myndist dótturfrumur með helmingi minna erfðaefni en móðurfruman. Í kennslubókunum eru engar skýringamyndir sem sýna muninn á þessum frumuskiptingum.

Í náttúrufræðiprófi árið 2004 eru í einni spurningunni þessar sömu myndir og í prófinu en í annarri röð og tekið fram að þetta sé jafnskipting, spurningin það árið fólst í að raða myndunum rétt.

Ég hef skoðað kennslubók mína í erfðafræði frá því í Háskóla. Ég fæ ekki betur séð en að myndirnar í prófspurningunni sýni það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi. Þetta vita börn í 10. bekk ekki. Það sem þeir sem sömdu prófið greinilega vita ekki heldur er að þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þeir fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því fæ ég ekki betur séð en að K, L og M séu allt réttir svarmöguleikar.

Spurning nr 43:

natt08_43

Athugum fyrst hvað segir í kennslubókinni Sól, tungl og stjörnur: "Flestar gamlar stjörnur í Vetrarbrautinni hafa fundist nálægt kjarna hennar eða miðju....................Sólin okkar er ein af yngri stjörnunum í þyrilörmunum". Ég gat ekki fundið neitt meira í bókinni sem benti klárlega til hver staðsetning okkar sólkerfis væri í vetrarbrautinni.

Hver ofangreindra valmöguleika er líklegastur miðað við þessar upplýsingar? Er það N af því að það er yst? Er það L af því að það er klárlega í þyrilarmi? Eða er það M af því að það er líka í þyrilarmi. Ég er ekki viss.

Ég hef leitað á vefnum að myndum af vetrarbrautinni okkar og skoðað þær, ég get engan veginn séð af þeim hver rétta staðsetningin er.

Spurning nr 65.

natt08_65

Við fyrsta yfirlestur datt mér ekki í hug annað en svar Æ væri rétt. Við nánari skoðun get ég ekki séð mun á því svari og svari V. Börnin fengu formúlublað, ég hef mikið reynt að reikna mig í gegnum það en er engu nær. Líklega eiga börnin að átta sig á þessu út frá lögmáli Newton en þrátt fyrir að vera búin að lúslesa kennslubókina er ég engu nær.

Ég væri þakklát lesendum ef einhver getur skýrt út fyrir mér muninn og bent mér á rétta svarið.

Ég hef reyndar eftir eftirgrennslan fengið vísbendingar um rétta svarið en hef ekki náð að skilja hvernig maður finnur það út.

Spurning nr 69 og 70

natt08_69-70

Hvað er að gerast á myndinni? Skoðum hana vel. Hitinn í upphafi er -15°C og hækkar síðan í +10°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Fast efni er að bráðna er líklegasta ágiskunin um hvað sé að gerast. Hitinn hækkar síðan enn frekar upp í 35°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Þá má giska á að vökvinn sé að gufa upp. Eða hvað?

Hitinn hækkar enn frekar, lesum textann. Hitamælirinn stóð ofan í pottinum allan tímann og í lok tilraunarinnar var rúmmál efnisins helmingi minna en í upphafi. Það þýðir að hitinn gat ekki hækkað meira þar sem ekki var allt efnið gufað upp. Hiti efnis getur ekki hækkað meira fyrr en hamskiptum er lokið.

OK líklega voru þá tvö efni í pottinum í upphafi, annað með bræðslumarkið 10°C og hitt með bræðslumarkið 35°C. En af hverju minnkaði rúmmál efnisins?

Og ef þetta er málið, hvað er þá rétt svar við spurningu 70?

Ef þetta var eitt efni og prófhöfundum yfirsást að hitinn gat ekki hækkað í pottinum þar sem ekki var allt efnið gufað upp, er þá ekki svar T rétti svarmöguleikinn? Þá vek ég athygli á að í spurningunni stendur "Grafið sýnir að", svarmöguleika T er ekki hægt að lesa af grafinu, heldur úr textanum.

Eftir mikla yfirlegu áttaði ég mig loksins á einu mögulegu lausninni. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að prófhöfundar hafi haft hana í huga, mig grunar að hitinn hafi ekki átt að hækka eftir 23. mín, það hafi verið mistök að láta línuna halda áfram upp.

Þessi eina mögulega lausn er þraut dagsins, "ertu skarpari en skólakrakki"? er spurning dagsins. Getur einhver séð lausnina?

Það þarf kannski ekki að taka það fram en í námsefninu er ekkert fjallað um það að hitastig efnis haldist stöðugt á meðan hamskipti eiga sér stað, hvað þá hvernig þetta líti út þegar um fleiri en eitt efni er að ræða. Engin línurit áþekk því sem er á myndinni er í kennslubókinni.

Spurning nr 71-73

Spurningarnar taka heila blaðsíðu og ég ákvað að þreyta ekki lesendur með því að líma hana inn í þessa færslu. Spurningin fjallar um pendúl og sveiflutíma. Í námsefninu er hvergi minnst á pendúl eða sveiflutíma. Það er hins vegar hægt með rökhugsun að leysa verkefnið en aftur kem ég að því að þetta námsefni er alveg nógu mikið og flókið, það er óþarfi að vera með spurningar sem eru út fyrir efnið.

Spurning nr 74.

natt08_74

Þessi spurning olli mér svolitlum heilabrotum. Tengingar í 1,3, og 5 ganga ekki upp og ekki kviknar því á perunni. Ekkert er athugavert við tengingar í nr 4. Börnin læra um hliðtengdar rafrásir eins og er í nr 2. Hins vegar skilst mér að rafmagn sé eins og vatn, flæði alltaf auðveldustu leiðina, þar sem peran er ákv. viðnám og því flæðir ekki nægur straumur um rafrásina í nr 2 til að ljós kvikni á perunni. Þessi spurning reynir á skilning og bestu nemendurnir átta sig á þessu. Það er hins vegar ekki fjallað um þetta í námsefninu.

 

Það er alvarlegt mál að misræmi milli kennsluefnis og prófa skuli vera eins mikið og ég hef rakið hérna, einnig er alvarlegt ef villur eru í prófinu.

Það er virðingarleysi við bæði nemendur og kennara að svona mikið af prófinu sé úr efni sem ekkert er fjallað um. Bæði nemendur og kennarar hafa mörg lagt mikið á sig fyrir þetta próf og eiga betra skilið.

Fyrir utan þau atriði sem ég geri athugasemdir við hér að ofan er prófið þungt og oft verið að gera spurningarnar óþarflega flóknar með því að bæta inn stærðum og upplýsingum sem engu máli skipta við úrlausn verkefnanna.

Það sem veldur mér ekki síður áhyggjum er að miðað við allar þær villur sem ég tel að séu í prófinu þá treysti ég prófhöfundum ekki til að velja rétta svarmöguleika sem rétt svar.

Ég hef nú þegar skrifað Námsmatsstofnun bréf og gert athugasemdir við prófið. Ég hvet aðra foreldra að kynna sér prófið og námsefnið og gera einnig athugasemdir.

Svör verða birt á vef námsmatsstofnunar þegar einkunnir hafa verið birtar. Ég hef áhuga á að fylgjast með hver þau verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Það er manni algerlega ofviða að gera athugasemdir við röksemdir í svona flóknu máli. En áfram Kristjana, Námsmatsstofnun á að stíga niður til nemenda og kennara en ekki halda sig í einhverjum glerkastala.

Erna Bjarnadóttir, 8.5.2008 kl. 16:20

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk Erna.

Ég ítreka að mér finnst þetta próf virðingarleysi við vinnu bæði nemenda og kennara.

Eftir því sem mér skilst á þeim krökkum sem ég þekki og hafa tekið prófin þetta árið þá voru önnur próf í samræmi við námsefnið. Það er að mínu viti mjög svo misskilinn metnaður af hálfu þeirra sem sömdu náttúrufræðiprófið að hafa það svona þungt. Þetta leiðir eingöngu til þess að færri treysta sér í raungreinar í framhaldsskólum, ég hefði haldið að við þyrftum einmitt að mennta fleiri á þeim sviðum.

Kristjana Bjarnadóttir, 8.5.2008 kl. 17:46

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég vil svo bæta við að ég sé að eftir að ég fór að fjalla um námsefni í náttúrufræði hefur heimsóknum á síðuna mína fjölgað. Ég dreg þá ályktun af því að áhugi á þessu efni er nokkur og það gleður mig. Ef einhverjir vilja láta skoðun sína í ljós við mig þá má gera það í netfangið bubot.kristjana@gmail.com

Kristjana Bjarnadóttir, 8.5.2008 kl. 17:48

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég sendi slóðina að þessari færslu út og suður eins og slóðina að hinni. Mig grunar að ansi margir kennarar og náttúrufræðingar séu að lesa færslurnar þínar um prófin en leitt að fólk skuli ekki segja neitt hér. En þú færð kannski póst núna. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.5.2008 kl. 20:35

5 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk Lára, líklega er þessi aukni fjöldi heimsókna á síðuna mína þér að þakka. Ég hef hingað til muldrað það sem ég skrifa hér mest í hljóði, þ.e. ekki verið á höttum eftir mörgum IP tölum.

Þetta efni snertir hins vegar marga, kennara, nemendur og foreldra. Um ákveðna framhaldsskóla er mikil samkeppni milli krakkanna um skólavist, þau hafa því mörg lagt mikið á sig til að standa vel og eiga að mínu viti skilið að prófið sé úr efni sem farið var yfir.

Kristjana Bjarnadóttir, 8.5.2008 kl. 22:57

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kíktu á þetta við tækifæri, Kristjana. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 23:02

7 identicon

Við spurningu 65 er Þ rétta svarið, kúlurnar falla með sama hraða til jarðar óháð hraða þeirra lárétt. Spurning 74 (rafhlöðurnar) er einnig nokkuð skýr sé þekking til staðar og mig grunar að sama gildi um spurningu 43 (stjörnuþokuna) þó ég viti ekki svarið. Færa má rök fyrir því að K (jafnskipting) sé réttasta svarið við spurningu 33 (frumuskipting) þar sem myndirnar sýna stærsta hluta þeirrar skiptingar en aðeins annan helming meiósu II. Svarið við spurningu 69 (hvað sýnir grafið) getur varla verið annað en P (efnablanda a.m.k. 2 efna) samkvæmt útilokunaraðferðinni þar sem ekkert er hægt að segja um þyngd efnisins (T), ekki lækkar hitinn og því aldrei slökkt á hitanum (S) og "efnasamband a.m.k. þriggja efna" (R) er merkingarleysa. Samkvæmt þessu ætti, eins og þú segir, svarið við spurningu 70 (hvar má greina bræðslumark) að vera bæði 10 (X) og 35 (Þ). Mjög erfiðar spurningar og sumar virðast frekar meta getu nemenda til að skynja vilja höfunda prófsins en þekkingu nemendanna á efninu.

Takk fyrir þarfa færslu.

Bjarni (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 21:04

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir Bjarni,

Já ég hafði fengið vísbendingar um að kúlurnar féllu með sama hraða, þetta áttu nemendurnir að átta sig á út frá lögmáli Newton þar sem ekkert er um þetta í námsefninu. Með því að útiloka V og Æ þar sem það er í raun sama svarið eru 50% líkur á að krakkarnir fái rétt og þar með snillingsstimpil fyrir að átta sig á þessu.

Hvað varðar spurningu 69 þá ætla ég að upplýsa það sem ég tel að sé rétti möguleikinn. Hann er að um sé að ræða 2 efni, annað með bræðslumark 10°C og suðumark 35°C. Það efni er í lok tilraunarinnar allt gufað upp, eftir er eitt efni í föstu formi, hitinn hefur ekki náð bræðslumarki þess efnis. Rétt svar við spurningu 69 er því 10°C.

Spurningin gengur því upp en miðað við námsefnið er útilokað að ætlast til að krakkarnir átti sig á þessu. Enn og aftur: í námsefninu er ekki fjallað um hvernig hitastig efnis stendur í stað á meðan hamskipti eiga sér stað.

Kristjana Bjarnadóttir, 11.5.2008 kl. 22:47

9 Smámynd: Valgerður Sigurðardóttir

Ég datt hér inn fyrir slysni, var að taka þetta próf. Vildi líka nefna það að samnemendum mínum og kennurum fannst alveg ótrúlegt hvað það var verið að nota allskonar villandi málfar til að gera nemendum erfiðara að svara. Eins og það sé ekki nægilega erfitt fyrir. Mjög áhugavert og spennandi að lesa þessar færslur hjá þér.

Valgerður Sigurðardóttir, 13.5.2008 kl. 22:53

10 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæl Valgerður og takk fyrir þessa athugasemd.

Ég er sammála um málfarið, sleppti því að fjalla um það í færslunni, nóg var nú samt. Einnig lagði ég litla áherslu á allar aukaupplýsingarnar sem voru í mörgum spurningunum en kom efninu ekkert við. Kannski tek ég þetta fyrir á næstunni.

Það verður fróðlegt að sjá útkomuna úr þessu prófi. Hver sem hún verður þá mega nemendur ekki fara af taugum, þetta var verulega snúið.

Kristjana Bjarnadóttir, 14.5.2008 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband