Færsluflokkur: Bækur

Bjartur og þjóðin

Illugi Jökulsson skrifar ágætisumfjöllun um Bjart í Sumarhúsum í DV sl. föstudag. Mér varð ljóst þegar ég las þessa umfjöllun að minni mitt gagnvart þessari persónu Íslandssögunnar var farið að daprast. Því fór ég í bókahillurnar og veiddi karlinn fram.

Lesturinn stendur enn yfir, en þó er mér ljóst að gagnrýni Illuga á hvernig margir lofa sjálfstæðisbaráttu Bjarts á við rök að styðjast.

Ég væri ekki ánægð með að vera líkt við karlinn.

Ég væri ekki heldur ánægð með að tilheyra þjóð sem væri líkt við karlinn.

Því miður held ég samt að þvermóðska okkar þjóðar og rembingur eigi það samt skilið. Líkindin eru meiri en ég vildi.

Annars er líklega heillavænlegast að klára bókina áður en ég tjái mig meira.


"Dauðans óvissi tími"

Ég brá mér bæjarleið nú í seinustu viku, skrapp yfir hafið og heimsótti Frakkaland. Slíkum ferðum fylgir mikil seta á flugvöllum og auðvitað í flugvélum. Þennan tíma er alveg upplagt að nota til bókalesturs.

Bókin sem fylgdi mér í þessa ferð var "Dauðans óvissi tími" eftir Þráinn Bertelsson. Ég hef ekki lokið lestrinum en mikið finnst mér þetta viðeigandi lesefni þessa dagana, nú þegar við virðumst vera að súpa seyðið af ótrúlegri óráðssíu og furðulegri peningastefnu undanfarinna ára........................að ekki sé minnst á mjög svo sérkennilegri einkavæðingu ríkisbankanna. Ég leyfi mér að birta hér kafla úr bókinni:

Haraldur stóð í afgreiðslusal bankans og virti fyrir sér listaverkin á veggjunum. Þessi listaverk voru þjóðargersemar sem einkavæðingarnefnd hafði láðst að undanskilja í æðibunuganginum við að ganga frá kaupunum eftir að Jökull Pétursson forsætisráðherra hafði fyrir sitt leyti samþykkt að gengið skyldi til samninga við Harald Rúriksson. Í hita leiksins hafði gleymst að Þjóðbankinn átti listaverkasafn sem var mun stærra en Listasafn ríkisins, enda höfðu samningarnir snúist um peninga en ekki tittlingaskít eins og menningu og listir.

Kannast einhver við þetta úr íslenskum raunveruleika? 

Þessi bók Þráins er skáldsaga. Þó er ljóst að margar persónurnar eiga sér fyrirmynd í íslenskum raunveruleika. Söguþráðurinn er oft mjög fjarstæðukenndur. Það einkennilega er að sum fjarstæðukenndustu atvikin eiga sér stoð í íslenskum raunveruleika.

Í hvaða raunveruleika höfum við lifað nú seinustu ár? Er þetta draumur eða martröð sem við virðumst vera að vakna upp af?

Eða er þetta bara dauðans óvissi tími?

PS: Ég er ekki eins þunglynd þessa dagana og þessi færsla gefur til kynna. Mér finnst bara frekar skrýtið hvernig við höfum látið auðmenn stela af okkur ríkiseignum undanfarin ár beint fyrir framan nefið á okkur. Og nú er helst rætt um að íslenskur almúgi (ríkið) eigi að koma bönkunum til bjargar. Er ég ein um að vera skilningssljó?


Frjáls

Ég var að ljúka við bókina "Frjáls" sem er í senn sjálfsævisaga Ayaan Hirsi Ali og ádeila á Islam. Þetta er saga merkilegrar og sterkrar konu, hún elst upp í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Eþíopíu en að mestum hluta í Kenya. Hún flýr síðan til Hollands, aflar sér menntunar þar og er kosin á hollenska þingið árið 2003.

Ayaan er alin upp í Islam, móðir hennar er mjög trúuð og sjálf gengur hún í gegnum tímabil þar sem hún les Kóraninn stíft og er í félagsskap með bókstafstrúuðum. Í bókinni kemur einnig sterkt fram hversu gríðarlega sterk tök ættarsamfélagið hefur á hverjum einstaklingi og takmarkar frelsi hans til ákvarðana á eigin lífi. Mest á þetta við um konur en einnig eru karlar bundnir höftum þessa samfélags. Trúin gengur út á að fylgja því sem hinn alvitri guð, Allah, vill og vegvísir þess er í Kóraninum. Ef einstaklingurinn brýtur gegn vilja Allah er voðinn vís, ekkert framhaldslíf og það sem verra er, helvíti bíður.

Í Kóraninum er margt fjandsamlegt konum. Ayaan er mjög hugleikið að vekja athygli á því. Ef kona þýðist ekki eiginmann sinn er honum leyfilegt að beita hana ofbeldi. Kona í þessu samfélagi getur ekki risið gegn þessu, þá er hún að rísa gegn sínum Guði, einnig sinni fjölskyldu og öllu samfélaginu. Hennar bíður aðeins útskúfun. Kynmök fyrir hjónaband eru óhugsandi. Af líffræðilegum ástæðum er mun auðveldara að sanna kynmök upp á konur, sérstaklega ef hún verður barnshafandi. Slíkarar konu bíður aðeins útskúfun. Konur eru einnig taldar bera ábyrgð á að tæla karlmenn og því er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra, jafnvel þó þeim sé nauðgað. Í Kóraninum er einnig lagt fyrir að konur skuli hylja sig að öllu leiti nema hendur og andlit.

Þessi atriði, ofbeldi eiginmanns, ábyrgð kvenna á kynferðislegu ofbeldi karla og það að þær þyrftu að hylja sig, var kveikjan að stuttmynd sem Ayaan gerði með kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gough. Mynd þessi vakti mikla andspyrnu meðal bókstafstrúarmanna og var Theo drepinn.

Í bókinni varpar Ayaan fram hvassri gagnrýni á að umburðarlyndi vesturlanda gagnvart Islam hafi gengið alltof langt. Samfélög muslima víða á vesturlöndum viðhaldi kúgun kvenna, stúlkubörn séu unnvörpum umskorin á eldhúsborðum í Hollandi og heimilisofbeldi í þessum samfélögum sé látið óáreitt. Trúarskólar kenni ekki vestræn gildi og menningu og fáfræði þriðja heimsins viðhaldist í þessum samfélögum þó fólkið sé flutt til vesturlanda.

Ayaan segir að Islam skipti fólki í tvo flokka: Þá sem aðhyllast trúna og hina. "Hinir" séu allir slæmir og allt að því réttdræpir. Það að fremja heiðursmorð er Allah þóknanlegt, morðinginn bjargar heiðri fjölskyldunnar og hlýtur náð Allah. Slíkt er það eftirsóknarvert að refsing vestræns samfélags skiptir engu.

Ayaan er hvöss í gagnrýni sinni. Ef ég segði það sem hún segir væri ég vænd um kynþáttahyggju. Gagnrýnin á hins vegar rétt á sér, hvernig geta vestræn samfélög setið hjá og leyft kúgun kvenna í sínum samfélögum, bara vegna þess að trúarbrögð viðkomandi leyfa það?

Gallinn við svona hvassa gagnrýni er að hún getur hleypt upp miklu hatri á múslimskum innflytjendum. Það er þessum samfélögum heldur ekki til góðs.

Hvað sem því líður þá hvet ég alla til að lesa bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali. Hún er auðlesin, hrífandi og áhugaverð.


Harry Potter og hans hyski

Ég hef nýverið lokið lestri seinustu bókarinnar um Harry Potter. Bókin er spennandi og heldur manni við efnið, það vantar ekki.

Í þessum bókum er gríðarlega mikil pólitík á milli línanna, barátta góðs og ills, tryggð og hollusta við vini og félaga, hversu langt nær hún, jafnvel í þeim tilvikum þegar einstaklingurinn er málstaðnum ósamþykkur.

Nú seinustu vikur hefur ákveðin stöðuveiting ákveðins setts dómsmálaráðherra verið milli tannanna á fólki, almenningur rís upp á afturfæturna og gagnrýnir. Merkileg hefur mér þótt viðbrögð margra samflokksmanna, með rökum sem órökum. Einhverra hluta vegna minnir þetta mig á samstöðu þeirra sem dvalið höfðu á Slytherin heimavistinni, jafnvel þó Voldemort færi fram með morðum, ofbeldi og órökum skyldi halda trúnað við hann.

Við veltum þessu fyrir okkur á kaffistofunni í dag, fundum nokkrar samsvaranir milli persóna í bókunum og í hinu pólitíska litrófi á Íslandi í dag. Ég tek það fram að þetta er eingöngu til gamans gert.

Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu Slytherin heimavistin og Gryffindor vinstri menn.

Voldemort = Davíð Oddsson
Harry Potter = Dagur B. Eggertsson (útlitslega finnst mér þetta sérlega fyndið!)
Ron = Guðmundur Steingrímsson (fær að vera með í fjörinu sem besti vinur Harrys)
Hermione = Svandís Svavarsdóttir (ótrúlega klár)
Lúna = Margrét Sverrisdóttir (Lúna var ekki á Gryffindor vistinni en var í bandalagi með Harry)
Faðir Lúnu = Að sjálfsögðu Sverrir Hermannsson
Neville = Sumir sögðu Björn Ingi, mér finnst Ólafur Magnússon betri

McGonagal = Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún kemur til greina en aldurinn og nefið vinnur með Jóhönnu.
Draco Malfoy = Gísli Marteinn
Crabbe eða Goyle = Sigurður Kári mig vantar hinn
Ormshali = Árni Matthíssen (lítill karl sem fórnar sér fyrir herrann en það verður honum að falli)
Snape = Björn Ingi (Snape var meðlimur Fönixreglunnar en vann einnig með Voldemort, maður vissi aldrei í hvoru liðinu hann var)
Pearcy Weasley = Össur (Var á Gryffindor en langaði óskaplega að vera mikill maður og tilbúinn til að kyngja ýmsu til að það mætti verða)

Ekki gekk þetta nú fullkomlega upp því okkur reyndist ómögulegt að finna tvífara Dumbeldore, mér datt í hug Steingrímur Hermannsson, það er þessi landsföðurímynd, Dumbeldore hafði líka ýmsa mannlega breyskleika. Þessi tillaga mín fékk ekki nægilegan hljómgrunn. Þá stakk ég upp á Ólafi Ragnari en honum var líka hafnað. Ég hafnaði Jóni Baldvin. Hagrid sömuleiðis vantar tvífara, þó dettur mér Steingrímur J í hug. Þá er ég með prinsippfastan og sérvitran karakterinn í huga, ekki endilega útlitið.

Ég semsagt auglýsi eftir íslenskum Dumbledore.

 


Erfðafræði fyrir 15 ára

Hvaða kröfur er eðlilegt að gera til skilnings 15 ára unglinga á erfðafræði? Hvaða kröfur gerum við til kennara þeirra? Hvaða kröfur gerum við til kennslubókanna?

Ég er með BSc próf í líffræði, MSc próf í heilbrigðisvísindum, erfðabreytileiki í genum tengdum ónæmiskerfinu og hjartasjúkdómar var viðfangsefni mastersverkefnisins. Ég vinn í Blóðbankanum við arfgerðagreiningu á vefjaflokkasameindum sem eru ákvörðuð af genum sem hafa mestan breytileika í öllu erfðamengi mannsins. 

Á mannamáli: Ég tel mig hafa góða þekkingu á erfðafræði.

Ég geri þær kröfur til námsefnis í erfðafræði fyrir 15 ára unglinga í grunnskóla að ég skilji það án mikilla erfiðleika. En ég geri það ekki. Ég þarf að marglesa kennslubókina til að skilja hvað er verið að fara.

Dæmi:

"Frá sjónarhóli efnafræðinnar má segja að starf gena sé að gefa frumum líkamans skipanir um hvaða efni þær eigi að framleiða og hvernig og hvenær. Þessi tilteknu efni eru prótín. Flokkur prótína sem nefnast ensím ber ábyrgð á því að mynda litarefni augnanna sem sjálft er enn eitt prótín."

Hvar týnduð þið þræðinum? Ég gerði það í fyrstu línunni. Ég skal reyna að segja þetta á mannamáli:

"Genin geyma í sér uppskrift af próteinum sem fruman framleiðir. Próteinin eru byggingarefni líkamans."

Annað dæmi:

"Undantekning frá einföldustu erfðunum eru margfaldar genasamsætur, en þá koma fleiri en tvær genasamsætur til greina í tilteknu sæti, þótt hver einstaklingur sé aðeins með tvö gen, eitt frá hvoru foreldri".

Þetta heitir á mannamáli "breytileiki" og þýðir að margar mismunandi gerðir séu til af hverju geni.

Ég vinn við að arfgerðagreina (flokka) þau gen sem hafa mestan breytileika í genamengi mannsins, ég hef aldrei áður heyrt um "margfaldar genasamsætur".

Hvað er verið að kenna börnunum okkar? Væri ekki nær að einfalda hlutina en að gera þá flóknari en þeir raunverulega eru?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband