Færsluflokkur: Leir

Græða og grilla / Tapa og tárast

Mér varð það á í vikunni að nota góða hugmynd að bloggi í athugasemd á aðra færslu, það var nú kannski af því að færslan var kveikjan að hugmyndinni. Þannig var að Anna skólasystir mín skrifaði um sjálfstæðismennina sem áður vildu bara græða á daginn og grilla á kvöldin (sjá færslu Láru Hönnu frá því í janúar sl og einnig færslu mína frá sama tíma). Anna óttast að þeir séu bara núna að tapa á daginn og eldi inni á kvöldin. Ég held svei mér þá að þeir hafi ekki þrek í að elda, þeir eru bara að reikna tapið og svekkja sig á því.

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu gegn íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu með íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

Ég get hins vegar ómögulega ákveðið mig hvort passi betur að þessir menn taki stöðu gegn krónunni, þar vísa ég auðvitað til þess að orðrómur er um að bankarnir geri þetta. Hitt er að vísan passi betur með því að segja að þeir taki stöðu með krónunni, þar vísa ég auðvitað til seðlabankastjóra DO sem má ekki heyra á minnst á annað en að hún sé fullgildur gjalmiðill.


Norðanrok

Ég er í hlaupahóp sem kallar sig TKS (Trimmklúbbur Seltjarnarness). Þetta er mislitur hópur fólks sem hefur gaman af hlaupum, göngum og útiveru. Í hópnum eru maraþonhlauparar, miðlungsbrattir hlauparar og svo bara svona kerlingar eins og ég sem dingla sér með. Allt leyfilegt, líka að vera byrjandi og komast rétt svo á milli ljósastaura. Eins og einn félagi minn sagði: "Það er svo dásamlega ruglað fólk í þessum klúbbi að manni finnst maður vera normal þegar maður er með ykkur".

Við héldum árshátíð um helgina. Okkar samkomur eru yndislega sveitalegar enda líður mér afskaplega vel í þessum hópi. Við leigjum sal og svo koma bara allir með einhvern rétt á sameiginlegt borð. Svo er dansað út í eitt.

Ég er núna nýkominn inn úr rokinu og hálkunni. Oft förum við út á nesið, út fyrir Bakkatjörn og út að Gróttu köllum það að fara út fyrir steina. Í dag var það hins vegar Skólavörðuholtið, köllum það gullveginn, framhjá öllum gullverslununum í Bankastrætinu.

Textinn hér að neðan er reyndar um leiðina út fyrir nesið, þá blasa við heimaslóðir mínar. Þetta er svona árshátíðartexti:

Norðanrok

Lag: Þýtur í laufi

Norðan er rokið, brimið gnauðar,
vindur kallar hlauptu hratt.
Skokkum með kinnar okkar rauðar,
rokið það hressir, ekki satt?
Út fyrir steina hlaupum saman
blasir þar við Snæfellsnes.
Lífið er hlaupin, göngur, gaman,
gleðin hún býr í TKS.

Vertu til og komdu út að skokka,
vertu til að taka englahopp.
Komdu út því að félagarnir lokka,
armbeygjur og önnur asnaskopp.

Í fréttum var þetta helst:

Þarf ég nokkuð að hafa formála að þessum? Held ekki. 

Fulltrúar skæla og skjálfa
skammast sín kunna þeir ei.
Samansafn barna og bjálfa
borginni stjórna og REI.

Minnislaus Villi villtur,
veit ekki rjúkandi ráð.
áfram enn er hann hylltur
halda mun áfram sú náð? 

Svo er það þingsályktunartillaga Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri þingkvenna um bann við kaupum opinberra starfsmanna á kynlífi í ferðum erlendis. Til skýringa vísa ég á umfjöllun mína hér. Í þingsályktunartillögunni gleymdist að taka fram að starfsmönnum væri óheimilt að selja þessa "vöru".

Kynlíf mér Kolbrún bannar
að kaupa í ferðum um lönd.
Hlutur samt allt er annar
að aura fá fyrir í hönd

Erna systir mín og bloggvinkona kom með fyrripart í vikunni sem ég botnaði. Þar sem ég tel mig eiga helminginn af leirnum þá leyfi ég mér að birta hann hér (lítillega breyttan):

Áfram dagar ólmir æða
ekkert á því lát.
Viljum njóta vorra gæða
á völtum lífsins bát.

Græða, grilla og fleira

Stundum dunda ég mér við að lesa bloggfærslur víða hér í bloggheimum, það kemur nefnilega fyrir að maður rekst á ansi hnyttnar færslur. Í vikunni fann ég eina slíka. Sú færsla er eftir Láru Hönnu Einarsdóttur og ber nafnið "Oft ratast kjöftugum satt orð á munn". Þar skrifar Lára orðrétt upp skilgreiningu á Sjálfstæðismönnum sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt fram í þættinum Mannamál á Stöð 2, nú fyrr í mánuðinum. Skilgreiningin er svo skemmtileg að ég birti hana hér fyrir neðan:

Hannes Hólmsteinn: Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.

(Leturbreyting KB) 

Svo mörg voru þau orð. Þetta hefði ég aldrei þorað að segja upphátt en fyrst Hannes sagði það...........þá hlýtur eitthvað að vera til í því, hann ætti að þekkja sína menn 

Með þessa skilgreiningu og atburðarás liðinnar viku datt mér eftirfarandi í hug:

Græða á daginn og grilla á kvöldin,
Gróu þeir hitta og sögur út bera.
Hraðlygnir pésarnir hrifsa svo völdin,
hrossakaup mikil um stóla þeir gera.


Litlir og saklausir lúta þeir valdi
laun munu fá þó að biðin sé löng.
Ekkert það stoðar þó móinn í maldi
meiningin foringjans aldrei er röng.

Það er náttúrulega ekki hægt að sleppa Birni Inga alveg þó hans þáttur hafi nánast fallið í skuggann af öllum hasarnum:

Sló um sig ávallt slyngur
sleipur og lúkkið var smart.
Framsóknarfatabingur
felldi þó krónprinsinn hart.

Málefni liðinnar viku

Í liðinni viku hefur mikið verið fjallað um skipan dómara norðan heiða. Margar spurningar hafa vaknað, hvaða reynsla og mannkostir er vert að telja til þegar meta skal hæfni í svona embætti, er verið að veita svona embætti vegna ættartengsla eða kannski þrátt fyrir ættartengsl? Eiga menn að gjalda föður síns? 

Dómara verður að velja
vandi það mikill er.
Mannkosti mikla skal telja
meta sem vera ber.

Til vara í nefnd hefur verið
vonað og kallinu beðið.
Í Ljóðanefnd lesa skal kverið.
Lofa skal nýkrýnda peðið.

Ættar skal ei sinnar gjalda
ekki má hindra hans frama.
Til þjóðar kveðjuna kalda
ég kalla og er ekki sama. 

Gengi hlutabréfa á mörkuðum hríðféll. Þeir sem áttu ekkert prísa sig sæla, þetta skiptir okkur engu máli, þvílík lukka. Þeir sem héldu að þeir væru ríkir í gær eiga bara skuldir í dag, þeir sem vissu að þeir væru ríkir í gær eru það enn í dag, þeir kunna að passa sitt.

Á fallanda fæti er gengið
fátækir horfa það á.
Hagnað sinn hafa fengið
hákarlar því skal ég spá.

Leirburðarárátta

Þegar leirburðaráráttan er æst upp í mér þá er oft erfitt að hætta. Ég datt í morgun inn á bloggsíðu hjá Herra Limran. Þar birtir hann fyrriparta og skorar á lesendur að botna. Þar sem ég var komin í leirstuð ákvað ég að prófa og aldrei slíku vant var ég bara keik með árangurinn. Þar sem seinni hluti hverrar vísu er minn leyfi ég mér að birta þetta hér:

Negrastrákar stuða allt
stórt er vandamálið.
Rasismi í sárið salt
sáldrar, kyndir bálið

Biblían er bókin svört
berjast helgir núna
á
sýnd þeirra ekki björt
argir missa trúna

Kjötsúpan var kekkjótt, þunn
köld og illa soðin.
Rann hún samt í margan munn
minnkar kuldadoðinn 

Hundfúl platan hikstar enn
hávært Snati geltir.
Giftast bara mær og menn
Margir prestar hrelltir 

Ódýrt fæði upp á hæð
ekki ræði lengur
Ég engu lengur um það ræð
asnalegur fengur


Bloggari gerir grein fyrir afstöðu sinni

Anna bloggvinkona mín með meiru æsti upp í mér tilburði til leirburðar í gærkvöld. Hún bannaði stuðla á sinni síðu svo ég verð bara að birta þetta á minni. 

Ég geri hér með grein fyrir afstöðu minni til þeirra mála sem að mínu viti bar hæst í umræðunni í seinustu viku.

Kirkjuþing og afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

af kynvillu þeir ama hafa

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum ennþá lafa

 breytt 28.10.07:

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

við kynvillu þeir amast

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum hamast

 

Þeir hjónur gefa í hjónuband

hjónar einnig böndin hnýta

jafnrétti á langt í land

lofa sumir aðrir sýta

 

Tíu litlir negrastrákar

Bókin er níðkvæði um negra

niðrandi hana ég held

Muggse eftir myndir ei fegra

margt frekar les ég um kveld

Sala áfengis í matvöruverslunum

Fá vilja í búðunum bjóra

bytturnar yfir því fagna

sitja að sumbli og þjóra

síst mun það pöblinum gagna

 

 


Ferðalag

Í sumar sem leið fór ég í 6 daga gönguferð. Tjald og allar vistir á bakinu, maður verður nú að sýna smáhetjuskap. Svæðið var milli Skaftár og Hverfisfljóts, Laki og Lakagígar voru miðpunkturinn.

Í svona göngum kemur stundum fyrir að skrokkurinn minnir á sig, einn morguninn vaknaði ég með skelfilegan hausverk. Ég fálmaði í skraninu mínu eftir dópi og við tjaldskörina vissi ég af vatni í drykkjarjógúrtflösku til að skola dópinu niður. Ég teygði mig eftir flöskunni og tók vænan slurk................... þetta reyndist vera flaskan með strohinu! Mér snarskánaði höfuðverkurinn og var í fínu gönguformi þann daginn.

Vaknaði lamin lurkum

litaðist dópi þá eftir

með áfengi slokraði í slurkum

slæmskan mig lengur ei heftir

Úrgangsmál göngufólks var aðeins í fréttum í sumar. Gönguhópurinn minn var lengi lítt til fyrirmyndar í þeim efnum. Ég ætla ekki að fjalla frekar um það tímabil. Nú orðið er einn félaginn skipaður "kammermeistari" í upphafi göngu. Í því felst að bera létta skóflu og finna hentugan stað fyrir holu á áfangastöðum. Holan verður að vera í hvarfi frá tjaldbúðum og síðan er göngustaf stillt upp nálægt og hengir maður húfuna sína á stafinn þegar maður bregður sér í holuna til merkis um að hún sé upptekin. Eftir mikil afrek í holunni sáldrar maður sandi snyrtilega yfir.

Í holu vil ég hafa ró

helst þar ein vil vera

Skán með skóflu yfir dró

skítinn langa og svera

Á 5. og 6. degi er ástand göngumanna sérstakt. Andlega hliðin oftast fín, allir ánægðir með afrekin, gott að vita að maður gat þetta. Líkamlega ástandið er líka þokkalegt, flestir komnir yfir allar harðsperrur, formið bara gott og flestir sofna strax og lagst er útaf eftir átök dagsins, stundum þó með hljóðum (óhljóðum). Göngufæðið er kraftmikið og einnig hjálpar hreyfingin til þannig að meltingin er yfirleitt mjög svo "eðlileg". Hins vegar er ekki mikið verið að pjattast með fataskipti og þvottur á skrokknum svona almennt bíður þess að koma til byggða.

Flæki ég feitum lokkum

freta og lífsins nýt

andfúl í súrum sokkum

sofna og mikið hrýt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband