21.9.2009 | 22:00
Villandi umfjöllun um skuldavanda heimilanna
Mikið hefur verið talað um ábyrgð fjölmiðla og mikilvægi þess að þeir komi réttum upplýsingum til almennings. Ábyrgð fjölmiðla er mikil því það er auðvelt að framreiða sannleikann með mismunandi hætti, allt eftir því hvaða áhrifum á að ná fram.
Undanfarnar vikur hefur mikið púður fjölmiðla farið í skuldavanda heimilanna, tónninn hefur verið að vandinn sé umfangsmikill og ekkert bóli á aðgerðum. Einstaklingar og hópar sem tala fyrir almennri niðurfellingu skulda hafa ítrekað fengið fyrirferðamikla umfjöllun en raddir þeirra sem telja slíkt illframkvæmanlegt eða jafnvel óréttláta leið þar sem slík aðgerð í raun væri "öfugur Hrói Höttur" verða æði hjáróma í umræðunni.
Það gleymist nefnilega í þessari umræðu að þeir sem fóru glannalegast í góðærinu hafa hæst, þeir eru ekki endilega fulltrúar fjöldans.
En skoðum nú tvö nýleg dæmi úr fjölmiðlaumfjölluninni:
Á fimmtudag í seinustu viku birti Morgunblaðið á forsíðu línurit sem sýndi fjölgun einstaklinga á vanskilaskrá, sjá mynd hér til vinstri.
Línuritið sýnir fjölgun úr 16.000 manns í ca 19.500. Þetta er aukning um 3.500 manns eða um ríflega 20%. Ekki ætla ég að gera lítið úr því.
Myndræna framsetning blaðsins er hins vegar gagnrýniverð. Ef grafið er skoðað þá sést að búið er að klippa neðan af því, skalinn byrjar í 15.500. Myndrænu áhrifin eru þau að aukningin virðist miklu meiri en þau raunverulega eru. Okkur sýnist að vanskil í byrjun árs 2008 hafi verið nánast engin en farið upp í hæstu hæðir á tveimur árum.
Ég setti þetta að gamni mínu upp í graf þar sem allur ásinn sést. Þá lítur þetta út eins og sést á grafinu hér til hægri.
Jú það er aukning en áhrifin af myndinni eru allt önnur en af myndinni sem birt var á forsíðu Morgunblaðsins.
Spurningar mínar eru:
Getur þetta talist hlutlaus fréttamennska sem miðar að því að koma hlutlausum upplýsingum á framfæri?
Eða er tilgangur fréttarinnar að ná ákveðnum áhrifum fram?
Það fyrsta sem mér var kennt í tölfræði var einmitt hvernig hægt er að villa lesendum sýn með rangri notkun á línuritum og gröfum. Í vísindavinnu er það grundvallaratriði að fara rétt með staðreyndir og geri ég hiklaust sömu kröfur til fjölmiðla sem vilja láta taka sig alvarlega.
Í kvöld vakti athygli mína frétt á Stöð 2 um skuldavanda heimilanna. Gerð hefur verið könnun um umfang þessa vandamáls. Ég vil taka fram að mér finnst mikilvægt að gera slíka könnun til að hægt sé að átta sig á umfangi vandamálsins.
Titill fréttarinnar er:
"Yfir helmingi landsmanna stefnir í gjaldþrot".
Ég ætla ekki að dvelja yfir málvillunni sem þarna er. Yfirskriftin gefur til kynna gríðarlegt vandamál hjá meirihluta landsmanna. En hvað kom fram í könnuninni?
45% landsmanna leggja fyrir peninga.......þ.e. eiga afgang um hver mánaðamót.
37% landsmanna ná endum saman en með naumindum, þurfa að skipuleggja útgjöldin til að dæmið gangi upp.
18% landsmanna eiga í vandræðum, þurfa að ganga á sparnað, safna skuldum eða eru komin í vanskil, jafnvel gjaldþrot.
Hvernig er hægt að fá það út að þessi 37% sem ná endum saman stefni í gjaldþrot?
Það er verið að tala um stöðuna í dag, ekki eftir nokkra mánuði enda ekkert sem segir að staða þessara 37% muni versna á næstunni. Það að fólk þurfi að skipuleggja sig til að ná endum saman er engin vísbending um fjárhagsvandræði.
Fréttin er að 18% landsmanna eiga í fjárhagserfiðleikum. Mér finnst það nógu slæmt og ekki nokkur ástæða til að gera meira úr því en það er. Fyrirsögn fréttarinnar er því villandi svo ekki sé meira sagt og í engu samræmi við það sem fram kom í könnuninni.
Að skrúfa umræðuna upp með þeim hætti sem þessi tvö dæmi sýna hefur þann eina tilgang að ýkja skuldavanda heimilanna og gefa til kynna nauðsyn almennra niðurfellinga skulda.
Almenn niðurfelling skulda færir fjármuni frá þeim sem lítið fé hafa milli handanna til þeirra sem meira eiga. Vísa ég til stórgóðrar greinar Jóns Steinssonar máli mínu til stuðnings.
Látum ekki þennan villandi áróður vanhæfra fjölmiðla villa okkur sýn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.