8.6.2009 | 21:59
Hallgrímur og icesave
Í dag var Hallgrímur hlaupinn. Honum hefur verið lýst áður á þessari síðu. Líklega um 9km því ég fór lengri leiðina.
Ég fann árangur erfiðis míns greinilega í dag. Miklu léttari á mér og samanburðurinn við mína venjulegu mánudagshlaupafélaga var mér hagstæðari en áður. Hafði mun betur við þeim............og jafnvel gott betur.
Á hlaupunum var tekin umræða um icesave. Að sjálfsögðu. Um það mál gæti ég skrifað langhund, hann yrði leiðinlegur.
Stutta útgáfan er svona:
Það var ljóst strax í haust að við værum í djúpum. Ráðamenn og þjóðin sjálf kaus að loka augunum og lifa í sjálfsblekkingum. Þeir sem hafa lesið búbótina vita að ég var æf. Svo reið að ættingjar, vinir og vinnufélagar gerðu grín að mér. Ég mætti á fyrsta mótmælafundinn á Arnarhóli og hvern laugardaginn eftir annan á Austurvöll. Mér fannst viðbragðsleysi stjórnvalda óskiljanlegt og sofandaháttur almennings enn furðulegri. Hlustaði fólk ekki á fréttir? Það var ljóst að framtíðin var svört, við vorum rænd og engar aðgerðir sjáanlegar í þá átt að elta uppi skúrkana.
Núverandi stjórnvöld tóku við atburðarás sem var hafin. Að bakka út úr Icesave samningaferlinu var líklega ekki valkostur nema samhliða að segja okkur úr samfélagi þjóðanna.
Að þessu sögðu upplýsi ég að mér er létt. Ég er enn bálreið út í þá sem komu okkur í þessa stöðu en með þessu samkomulagi eru ákveðin vatnaskil og við getum betur áttað okkur á hvert við erum að fara.
Steingrímur J. á öll mín prik þessa dagana. Ég þoli ekki populistastjórnmálamenn sem haga seglum eftir vindi. Í stjórnarandstöðu átti hann það til. Núna þorir hann að taka erfiðar ákvarðanir og það kann ég að meta.
Að fara af límingunum núna yfir icesave er að mínu viti sjö mánuðum of seint.
Hvar voru þeir sem hæst láta í dag fyrstu vikurnar eftir bankahrunið?
Athugasemdir
Ég hef einmitt verið að hugsa á svipuðum nótum. Sjokkið sem við og fleiri gengum í gegnum s.l. vetur virðist vera að ná til einhverra núna fyrst og ég velti því fyrir mér af hverju það sé
Sigrún Jónsdóttir, 9.6.2009 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.