7.12.2008 | 23:04
Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands
Vinstri grænir héldu flokksráðsfund um helgina. Ég var svo barnaleg að trúa því að frá þeim kæmu hugmyndir um leiðir út úr þeim ógöngum sem við erum í.
Víst er að ég er ekki ósammála því sem birt er á eyjan.is sem helstu verkefni framundan. Flest miðar þetta að auknum ríkisútgjöldum og það er erfitt að vera ósammála átaki í velferðarmálum eins og málin standa í dag.
Spurningin sem stendur eftir hjá mér er einfaldlega: Hvernig?
Við því fékk ég ekki svar. Í flokknum um efnahags- og ríkisfjármál stendur þó:
Efnahags- og ríkisfjármál: Dreifa þarf skattbyrðinni á réttlátari hátt og skera um leið niður ríkisútgjöld, m.a. með sparnaði í rekstri stofnana, með því að skera niður hernaðarútgjöld og utanríkisþjónustu og með því að lækka laun æðstu ráðamanna og fella úr gildi eftirlaunalög byggð á sérréttindum. Breikka þarf tekjustofna sveitarfélaganna til að efla sjálfstæði þeirra og sjálfsforræði. Ganga þarf út frá því að halli á ríkissjóði og sveitarfélögum sé óhjákvæmilegur á meðan á kreppunni stendur. Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.
Þessu öllu er ég fullkomlega sammála nema hvað mér þótti sérkennilegt að stinga upp á niðurskurði ríkisútgjalda í þessum lið en allir aðrir punktar miðuðu að aukningu. Ég trúi hins vegar ekki að launalækkun æðstu ráðamanna vegi þungt, slíkt er miklu frekar táknræn aðgerð.
Hvað varðar seinustu setninguna:
Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.
Tja, þarna fannst mér bara vanta töluvert í viðbót, eins og ekki væri búið að vinna heimavinnuna, nánast eins og að mæta ólesinn í próf og skila auðu.
Já kæru vinir í VG, varðandi þessa fullyrðingu er ég ykkur fullkomlega sammála, en hvað leggið þið til?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.