2.11.2007 | 23:13
Neyðarkall
Það er aldrei of oft vakin athygli á því að björgunarstarf á Íslandi er að miklu leyti unnið í sjálfboðavinnu. Eigi að síður þurfa sveitirnar mikið fjármagn til kaupa og viðhalds tækjabúnaðar og annars reksturs. Þessir fjármunir detta ekki af himnum ofan, nema þá helst í formi flugelda sem við verslum af sveitunum.
Nú um þessa helgi munu björgunarsveitarfólk dreifa sér um fjölfarna staði í þéttbýli og selja "neyðarkall" til styrktar björgunarsveitunum. Hver "kall" (þetta er víst "kelling" í ár) kostar 1000 kr og er hreinn styrkur til björgunarstarfsins.
Börnin mín tvö hafa tekið þátt í unglingastarfi björgunarsveitarinnar Ársæls en þar er rekið alveg frábært starf. Þar fá unglingar að kynnast starfi björgunarfólks í formi kynninga, einnig námskeiða í skyndihjálp, leitarhundar eru kynntir, þau fá að prófa ýmsan búnað t.d. klifra utan í tönkunum í Örfirisey og fara á slöngubáta. Þau eru einnig þátttakendur í björgunaræfingum þar sem þau leika slasaða. Einnig hafa þau tekið þátt í flugeldasölu en seinustu árin hefur lögreglan takmarkað mjög aðkomu unglinga að því sem mér finnst vafasamt, tel mun betra að þeim sé kennt að umgangast þessa vöru en að banna þeim að snerta hana.
Í haust byrjaði 17 ára sonur minn í nýliðasveit björgunarsveitarinnar og er það stíf þjálfun og námskeiðahald. Þar fær ungt fólk að kynnast "hard core" útivist og læra á þær hættur sem því fylgir og bregðast við þeim.
Björgunarsveitarmenn eru tilbúnir til útkalls allan sólarhringinn, allt árið. Fyrir okkur, endurgjaldslaust. Nú er komið að okkur að láta smávegis á móti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.