Vorganga TKS

Árleg vorganga félaga í TKS er áætluð á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessar vorgöngur eru orðnar árviss viðburður og höfum við þegar gengið á Hvannadalshnjúk, Eyjafjallajökul, Hrútfellstinda og Þverártindsegg.

Löngunin til að taka þátt í þessum göngum heldur mér við efnið yfir veturinn. Ég dríf mig með félögunum út að hlaupa nánast í hvaða veðri sem er, reyni að fara líka í líkamsræktina og svo stunda ég bæði skíðagöngur og fjallgöngur. Allt til að komast með í vorgönguna.

Gangan á Miðfellstind er skipulögð þannig að lagt verður af stað úr Skaftafelli og gengið inn í Kjós og þaðan á tindinn. Gallinn er að gangan úr Skaftafelli inn í Kjós er víst ein og sér 12-16 km (mælingum ber ekki saman, á eftir að afla mér betri heimilda) og þá er eftir gangan á Miðfellstind en hann er víst 1430m. Og síðast en ekki síst þarf að koma sér til baka. Áætlunin gerir ráð fyrir 20klst ferð.

Í gær fórum við félagar í TKS saman í langa göngu til að kanna úthaldið. Við lögðum að baki u.þ.b. 24 km í frekar auðveldu göngulandi. Gengið var um Núpshlíðarháls á Reykjanesi.

Það skal viðurkennt að ég varð lúin eftir gönguna og tilhugsunin um að þetta væri lámarksvegalengd til og frá tindinum og að tindurinn sjálfur væri eftir, var ekki góð.

Síðan ég kom úr þessari æfingaferð hefur læðst að mér sú hugsun að hætta við vorgönguna. Það er ekki viturlegt að leggja af stað og vera óviss um hvort úthaldið leyfi svona ferð.

Ætli þrautalendingin verði ekki samt að herða æfingar, ég hef rúman mánuð, við áætlum ferðina 13. júní.

Semsagt nú verður slegið í og engin leti leyfð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband