SPRON fékk gula spjaldið

Það er varhugavert að treysta bönkum. Það fékk ég að reyna nýverið. Við hjónakornin erum bæði með okkar bankaviðskipti í SPRON, fluttum okkur þangað fyrir nokkrum árum, fengum okkur debetkort, kreditkort og einhverja sparireikninga svona eins og gengur.

Ég skal viðurkenna að ég fer ekki nákvæmlega yfir bankayfirlitin sem ég fæ send ca 2var á ári. Enn hirði ég þó kortanótur og visareikningana fer ég alltaf yfir þó stundum dragist það nokkra mánuði, ég geri það á endanum. Þar sem debetkortið er minna notað þá skoða ég það ekki eins nákvæmlega.

Hvað um það. Nýlega fékk ég yfirlit. Á því var mánaðarleg færsla, færð 21. hvers mánaðar alveg frá því í janúar (reyndar líka á fyrra yfirliti sem mér hafði láðst að skoða). Þessi færsla heitir "heimildargjald" og var upp á 1500kr og bankinn hirti þetta, bara sisona.

Mér var ekki skemmt þar sem mér var ekki kunnugt um hvaða "heimild" bankinn hefði. Hringdi í morgun í bankann. 

Talaði við þjónustufulltrúa sem fannst líklegast að þetta tengdist yfirdráttarheimild, ég varð tortryggin þar sem ég nota slíkt aldrei, finnst það okurlán.

Fulltrúinn lofaði að athuga málið og hringdi seinni partinn.

Jú, ég hafði í upphafi verið með yfirdráttarheimild upp á einhver hundruð þúsund og það hafði ekki kostað neitt á sínum tíma. Það skal tekið fram að þessa heimild nota ég ALDREI. Nýlega hefði bankinn ákveðið að lækka "ókeypis" heimildina um helming en rukka fólk sem áfram væri með svona háa heimild um 1500kr á mánuði. Líklega fékk ég sent fyrir nokkrum mánuðum bréf frá bankanum með þessari tilkynningu, ég hef lesið framhjá þessu, talið mig vera með kort með ákveðnum skilmálum sem samið hefði verið um í upphafi og lét því ekki lækka heimildina.

Þjónustufulltrúinn var búinn að bakfæra þennan pening þegar hún hringdi í mig, 15.000kr, eða 10 mánuði aftur í tímann.

Það var eins gott fyrir SPRON því svo mikið er víst að annars hefði bankinn fengið rauða spjaldið og töluvert bölv hefði fylgt þessari færslu.

Hvað sem því líður þá er það siðlaust að selja manni ákveðin kjör í upphafi og lauma svo inn bakdyramegin einhverju allt öðru og rukka mann um stórfé fyrir.

Þegar við fluttum okkur til SPRON fylgdu einnig viðskiptunum líftrygging. Slíkt finnst mér reyndar bull, en hvað um það, við töldum okkur hafa þessa tryggingu. Í símtalinu í dag kom einnig fram að það væri búið að fella þessa tryggingu niður.

Já, maður skyldi lesa vel bankapóstinn sinn, líka smáaletrið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Ég mæli með Sparisjóð Skagafjarðar... Þetta er auðvitað út yfir allan Þjófabálk!!!!!!!

Erna Bjarnadóttir, 27.5.2008 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband